Halldóra Björnsdóttir íþróttafræðingur hefur alltaf haft áhuga á hreyfingu. Hún byrjaði snemma að vera á skíðum og varð Reykjavíkurmeistari í bæði svigi og stórsvigi. Hún ólst upp í Sæviðarsundinu, fór í Verslunarskólann, starfaði sem skíðakennari í Austurríki og að því búnu lærði hún íþróttafræði í Alberta í Kanada. Hún hefur verið með morgunleikfimina í útvarpinu frá því í október árið 1987 eða í næstum 27 ár. Hún kennir einnig íþróttir í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og vinnur fyrir Beinvernd. Maður Halldóru er Birgir Þór Baldvinsson kennari og þau eiga fjögur börn og tvö barnabörn.
Kveðjuþátturinn fór óvart út
Mörgum brá í brún þegar Halldóra kvaddi hlustendur fyrr í vikunni og greindi frá því að þátturinn væri að hætta. Síðan kom í ljós að svo var ekki. Halldóra hafði tekið upp þrjá leikfimiþætti í síðustu viku en þá var búið að segja henni að breytingar stæðu fyrir dyrum og þátturinn yrði tekinn af dagskrá. Hún kvaddi því í síðasta þættinum. Á mánudaginn kom svo í ljós að morgunleikfimin átti að vera áfram á sínum stað, klukkan 9:45 á virkum dögum. Halldóra stóð í þeirri trú að hún hefði stöðvað það að kveðjuþátturinn yrði sendur út, en einhverra hluta vegna fór hann samt í loftið og þeir sem stunda morgunleikfimina hrukku í kút.
Morgunleikfimi í 57 ár
Morgunleikfimin í útvarpinu hefur verið á dagskránni í 57 ár og er elstur þeirra útvarpsþátta sem eru á dagskrá Rásar eitt. Fyrst var Valdimar Örnólfsson með þáttinn í 25 ár, þá tók Jónína Ben við og síðan Halldóra árið 1987. „Ég held ég megi segja að þetta sé fyrsta lýðheilsuverkefnið á sviði hreyfingar á landsvísu“, segir Halldóra. „Þetta er ákveðin þjónusta og hefur hvatt fólk til að hreyfa sig. Það er hugsað um þá í Morgunleikfiminni sem fara ekki í ræktina eða stunda skipulagða hreyfingu. Það er frábært að Ríkisútvarpið þjóni þessum hópi, því ég veit að hann hlustar á útvarp. Sumir í hópnum eiga erfitt með að finna þetta efni á vefnum, en í gegnum útvarpið kemur það fyrirhafnarlaust. Það er annað að taka á móti útvarpsefni en að eiga frumkvæði að því að nálgast það á vefnum.“
Prófaði æfingarnar á manninum sínnum
Halldóra hefur verið með morgunleikfimina á hverjum virkum degi í öll þessi ár og það er ákveðin kúnst að kenna fólki í gegnum útvarp. Hún segist hafa prófað sig áfram með æfingarnar og hlustað á athugasemdir frá hlustendum. „Æfingarnar eru yfirleitt gerðar standandi, eða sitjandi á stól. Ég reyni að hafa þetta fjölbreytt, liðkandi og styrkjandi æfingar og góðar teygjur. Þar sem þetta er í gegum útvarp þarf hver æfing að hafa afmarkað upphaf og endi, samsettar æfingar henta ekki jafn vel. En fólk sér mig ekki, það þarf að tala skýrt. Stundum hef ég prófað þetta á manninum mínum, hef látið hann snúa í mig baki og athugað hvort hann skilur æfingarnar. Það hefur þá kannski komið í ljós að ég þarf að útskýra þær betur“.
Sparar heilbrigðiskerfinu dágóðan skildinginn
Það er margt sem þarf að athuga í útvarpsleikfiminni, á að segja ég eða þú, við eða þið, það er „Nú lyftum við….“. Það er misjafnt hvað hlustendum finnst um það. En þeir láta í sér heyra í gegnum tölvupóst og bréf og það hefur hent að ort hafa verið til hennar ljóð. Hún fær komment frá konum sem eru heima í fæðingarorlofi, eru með vöðvabólgu og finnst gott að gera æfingar. Hún heyrir líka frá fólki sem er að koma sér af stað eftir veikindi og frá fólki sem býr á á dvalheimilum fyrir aldraða. Halldóra er hörð á því að morgunleikfimin auki lífsgæði þeirra sem stunda hana. „Ég held að útvarpið hafi þarna sparað heilbrigðiskerfinu dágóðan skildinginn“ segir hún. „Ef fólk hættir að hreyfa sig er stutt í að það geti til dæmis ekki risið sjálft uppúr stól og þá er hætt við að það þurfi aðstoð og þjónustu heilbrigðisstarfsmanna. Ég er alltaf að komast betur og betur að því, að hreyfingin skiptir öllu máli. Það er verðugt verkefni að stuðla að því að fólk haldi hreyfifærni sem lengst og stuðla að lífsgæðum þess“, segir Halldóra að lokum.
Ljóð til Halldóru frá Böðvari Guðlaugssyni fyrrum samstarfsmanni hennar úr Öskuhlíðarskóla, sem nú er látinn.
Ég beini af brýnni þörf til þín
þessu bænakvaki:
Geturður læknað, góða mín,
gigtarsting í baki?
Langt um meira en líklegt er
að linni þrautum mínum
farir þú um mjóhrygg mér
mjúkum höndum þínum.