Margir kvarta yfir því þegar kemur að því að minnka við sig húsnæði að húsið eða húsnæðið sem þeir eiga, dugi ekki fyrir nýrri og minni íbúð. Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali hjá Húsaskjóli, segir það meinloku í fólki, að skoða bara flottustu lúxus nýbyggingarnar, þegar það standi á þessum tímamótum. „Menn geta fengið nýja 200 fermetra penthouse íbúð á 145 milljónir króna og fá bara 80 milljónir fyrir húsið. Það er ljóst að það er töluvert þarna á milli“, segir hún. Hún segir að hún hafi ásamt sínum viðskiptavinum verið að skoða svolítið 10-15 ára gamlar íbúðir. Það séu ennþá nýbyggingar, flottar íbúðir og ekki komið viðhald á þær og ekkert framundan. Þannig sé hægt að fá 100 fermetra íbúðir og borga um 40 milljónir króna fyrir þær, þegar verðið sé 55-60 milljónir í nýbyggingum.
Hægt að losa jafnvel tugi milljóna
„Mér finnst fólk kannski ekki vera að skoða þennan möguleika nægilega mikið, að fara í aðeins eldra húsnæði, þá er hægt að losa peninga“, segir Ásdís. Hún segir að menn eigi að byrja á því að spyrja sig, hverjar þarfirnar séu. „Er ég að selja til að minnka við mig, til að losa pening, eða er ég að selja til að fara í glænýtt viðhaldsfrítt húsnæði? Ég myndi byrja því. Það er auðvelt í dag ef þú átt einbýlishús, þau eru að seljast á góðu verði, að minnka við sig og losa jafnvel tugi milljóna“, segir hún.
Sérstök svæði og blokkir við Sunnuhlíð
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi, telur að sveitarfélögin séu að horfa á þarfir eldra fólks þegar kemur að skipulagsmálunum. Það séu sérstök hverfi eða reitir í Kópavogi ætlaðir fyrir eldri borgara. Hann nefnir sem dæmi fjölbýlishúsasvæðið í kringum Boðaþing. Þar sé að finna bæði hjúkrunarheimili og þjónustu af ýmsum toga við eldri borgara, svo sem félagsmiðstöð. „Það hverfi er skilgreint fyrir þá sem eldri eru, eins svæðið í kringum Sunnuhlíð. Svo eru reyndar blokkir í kringum Sunnuhlíð sem eru ekki skilgreindar fyrir eldri borgara, en mér sýnist að nánst allir sem flytja þangað séu eldri borgarar“.
Situr í eignunum þótt öll börnin séu flutt að heiman
Ármann segir að ákveðið byggingarform henti fólki líka misjafnlega, eftir því á hvaða aldri það er. Hann nefnir turnana í Lundi sem dæmi, en þeir eru 10-15 hæðir. Þar eru dýrar íbúðir sem voru ekki endilega hugsaðar fyrir eldri borgara, sem sækjast hins vegar eftir að búa þar. „Barnafólk virðist ekki vilja fara í turnana, það er kannski eðlilegt og ekki þægilegt að vera hátt uppi, þegar börnin eru út á lóð“. Hann segist taka undir með Ásdísi að menn séu kannski fullmikið að einblína á þessar tilteknu íbúðir. Ásdís er þeirrar skoðunar að eldra fólk fari of seint af stað að minnka við sig. „ Menn sitja í 300 fermetrum þó öll börnin séu flutt að heiman. Fólkið situr í eignunum í 20 30 ár, eftir að yngsta barnið fer að heiman.
Með því að smella hér, getur þú séð viðtalið við þau Ásdísi og Ármann í heild. En textinn hérna fyrir ofan er einungis útdráttur í viðtalinu sem var tekið fyrir Hringbraut.