Lyftuhús með bílakjallara er málið

Fólk sem er komið yfir miðjan aldur virðist ekki velja sér tiltekin hverfi þegar það íhugar fasteignakaup, heldur skoðar það framboð á húsnæði sem uppfyllir tiltekin skilyrði. Aðgengi skiptir eldra fólk mestu máli og virðist það sækjast eftir því að komast í viðhaldslítið fjölbýli með lyftu og upphituðum bílakjallara. Lifðu núna ræddi við nokkra fasteignasala á höfuðborgarsvæðinu um húsnæðiskaup eldra fólks.

„Flest eldra fólk vill fara í nýtt húsnæði, en það er af skornum skammti, enda hefur ekki verið byggt nógu mikið,“ segir Kristján Þórir Hauksson hjá fasteignasölunni Lind. „Í nýbyggingum fyrir sextíu ára og eldri þarf lítið sem ekkert að hugsa um viðhald eignarinnar. Það er meiri íburður í slíku húsnæði, til dæmis er settur steinn í borðin og svalirnar eru yfirbyggðar.“

Við Smáralind er að rísa nýtt hverfi og þar er blokk með íbúðum handa sextíu ára og eldri. Íbúðir í henni seldust mjög hratt að sögn Kristjáns. „Í Sunnusmára seldust 84 íbúðir á 11 dögum. Þá seldust 86 íbúðir í Kársnesi á 20 dögum.“

Miklu minna virðist vera um það að eldra fólk leiti í gamalt húsnæði. Það vill umfram allt komast í klædd hús þar sem viðhalds er ekki þörf.

Að sögn Þórarins M. Friðgeirssonar hjá Eignamiðlun hafa íbúðir fyrir eldri borgara í Eiðismýri verið vinsælar. Einnig á Aflagranda og í Bólstaðarhlíð. Einnig er mikil ásókn í Boðaþing og Sléttuveginn í nágrenni við Borgarspítalann. „Þegar búið er að merkja fasteign eldri borgurum er mikil eftirspurn, einkum miðsvæðis. Þá er nokkuð um það núorðið að eldra fólk vilji færa sig út fyrir borgarmörkin, í Hveragerði, Selfoss eða upp á Akranes. Það virðist vera nýtt trend.“

Kjartan Hallgeirsson hjá Eignamiðlun segir að hverfin þar sem verið er að byggja blokkir fyrir eldra fólki séu vinsælust, hverfi eins og Lundurinn í Kópavogi. „Það er lítið um að eldra fólk fari í eldra húsnæði. Það sækir aðallega í nýleg lyftuhús. Meðalaldurinn á útvarpsreitnum svokallaða í Efstaleiti, þar sem hátt í 400 íbúðir hafa verið byggðar, er 50 ára og eldri. Þó að þetta hafi verið hugsað sem barnahverfi líka, þá virðist það hafa hentað þessum aldurshópi betur, enda dýrt hverfi. Samnefnarinn hjá fimmtíu ára og eldri er lyftuhús með bílakjallara. Yngra fólk leitar frekar í ódýrara húsnæði þar sem ekki er bílakjallari.“

Að mörgu að hyggja við íbúðakaup

Að mörgu er að hyggja fyrir eldra fólk þegar það ætlar að skipta um húsnæði. „Skrefið er oft þungt og erfitt þegar fólk hefur búið jafnvel tugi ára í sömu eigninni,“ segir Kristján Þórir. „Mörgum vex í augum að selja og kaupa. En reynslan hefur kennt mér að þegar fólk hefur stigið þetta skref, þá er það oftast mjög ánægt.“

Kristján segir að fyrsta skrefið sé að fá verðmat á eigninni sem fólk á fyrir. „Með því að vita hvers virði eignin er, er auðveldara að átta sig á því hverskonar eign skuli leitað eftir. Sé fólk enn í sérbýli er kostnaðarsamt og tímafrekt að halda eigninni við, og því miður eru of margir sem eru of lengi í sérbýlum og eiga erfitt með að halda því við, en það getur aftur haft áhrif á verð eignarinnar.“

Kristján segir að fólk hafi haldið að sér höndum árin eftir hrun. „Þegar byrjað var að byggja aftur eftir hrunið var mikill meirihluti kaupenda fólk yfir miðjum aldri. Margir voru rúmlega 80 ára og þá fyrst að fara úr sínum sérbýlum. Nú hefur þetta sem betur fer breyst talsvert, fólk er að minnka við sig húsnæði miklu fyrr en áður og getur þá leyft sér að ferðast og lifa lífinu.“

„Ég veit ekki hversu oft fólk hefur sagt við mig þegar það er búið að selja og kaupa sér nýja íbúð, af hverju gerðum við þetta ekki fyrr?“ segir Kristján að lokum.

Ritstjórn október 21, 2021 07:00