Aðstoða fólk sem vill minnka við sig eða fara í hentugra húsnæði

Frændurnir Leifur Steinn Elísson hagfræðingur og Ólafur Örn Ingólfsson þjóðhagfræðingur hafa stofnað fyrirtækið Vildarhús og ætla að bjóða þeim sem vilja, aðstoð við að gera breytingar í búsetu. Þeir hafa fengið til samstarfs,banka, fasteignasala, fyrirtæki sem sér um pökkun, flutninga og geymslu búslóðar, tryggingafélag, öryggisfyrirtæki, hreingerningafyrirtæki, iðnaðarmenn og garðyrkjumenn. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessa þjónustu, geta haft samband við Vildarhús með því að smella hér.

Betra að sýna fyrirhyggju

Þegar Lifðu núna hitti þá félaga, sögðust þeir vera í hópnum 60+ og búa sjálfir í alltof stóru húsnæði. Auk þess væri komið að viðhaldi og garðurinn útheimti mikla vinnu. Í þeirra vinahópi væri staðan svipuð, allir að ræða um að minnka við sig, en lítið gerðist. Þá hefðu þeir einnig fylgst með foreldrum sínum sem hefðu minnkað við sig, í öðru tilvikinu alltof seint. Það væri betra að sýna fyrirhyggju í þessum efnum.

Geta létt vinnu af fólki

„Okkur datt í hug að við gætum miðlað af reynslu okkar og aðstoðað fólk sem hefur áhuga á að breyta til, við að koma hreyfingu á málin. Það þarf að gera áætlun og finna nýtt húsnæði sem er í samræmi við þær væntingar sem menn hafa“. Þeir segjast geta létt vinnu af fólki, og eru t.d í samstarfi við banka sem létt getur ferlið frá sölu til kaupa á nýju húsnæði.

Sturta í stað baðkars

Þeir geta einnig aðstoðað þá sem vilja gera breytingar á íbúðunum sínum til að geta búið þar lengur og hafa fengið til liðs við sig „eðal“ iðnaðarmenn. Þeir segja til dæmis algengt að fólk vilji láta taka baðkarið þegar það eldist og fá sturtu í staðinn. „Auðvitað er það draumurinn að allir geti verið í sömu íbúðinni til æviloka, en það gengur ekki alltaf upp, til dæmis af heilsufarsástæðum“. Leifur og Ólafur vilja aðstoða fólk við að undirbúa breytingar á húsnæðismálum sínum í tíma og gera því þannig kleift að njóta meiri lífsgæða. Þeirra markhópur er fólk sem vill sýna fyrirhyggju og er tilbúið að greiða sanngjarnt verð fyrir góða þjónustu.

Ritstjórn nóvember 17, 2014 14:00