Dýrasta íbúðin seld

Samtök aldraðra eru að byggja fjölbýlishús við Kópavogsgerði 5 og 7 í Kópavogi. Þar eru 22 íbúðir, en húsið er byggt í samvinnu við Dverghamra ehf. Á efstu hæðinni eru tvær lúxusíbúðir. Íbúðirnar verða tilbúnar í september á næsta ári.

Þakíbúðir á rúmar 100 milljónir

Stærð íbúðanna er almennt frá rúmlega 120 fermetrum uppí rúma 130 fermetra. Þær eru með stórum svölum og flestar með bílageymslu í kjallara. Verð þessara íbúða er á bilinu 48 – 58.5 milljónir króna. Á efstu hæðinni í húsinu eru hins vegar tvær 200 fermetra þakíbúðir sem kosta 114-120 milljónir króna. Ingólfur Antonsson hjá Samtökunum segir að önnur þeirra sé seld og mikið sé spurt um hina.

Ingólfur Antonsson stjórnarmaður í Samtökum aldraðra

Ingólfur Antonsson stjórnarmaður í Samtökum aldraðra

Lóðaverðið hátt í Kópavogi

„Verð íbúðanna í Kópavogsgerði er svipað og á nýjum íbúðum í nágrenninu“, segir Ingólfur, en tekur fram að lóðarverðið sé um 20% af íbúðarverðinu eða rúmar 10 milljónir króna á íbúð. Þetta sé góður og eftirsóttur staður. Stæði í bílgeymslu eru einnig stærri en gengur og gerist og granít borðplötur á eldhúsi og baði. Tæki í eldhúsi fylgja einnig. Allar íbúðir samtakanna eru hannaðar fyrir gott aðgengi hjólastóla.

Minni skilningur hjá sveitarfélögunum

Til samanburðar, þá var lóðaverðið í íbúðunum sem Samtökin byggðu nýlega á Sléttuvegi um 3.5% af lóðaverðinu, sem gerir um 1.3 milljónir á íbúð. Ingólfur segir að umhverfið varðandi byggingu íbúða fyrir eldri borgara hafi breyst töluvert síðustu ár. Sveitarfélögin hafi þannig haft minni skilning á að úthluta lóðum miðsvæðis og öll fyrirgreiðsla í bönkum hafi einnig dregist saman.

Stutt í þjónustu Kópavogsbæjar

En hvers vegna ættu menn að kaupa íbúðir af Samtökunum, ef þær kosta álíka mikið og íbúðir á almennum markaði? Ingólfur svarar því til að það sé líka markaður meðal eldra fólks fyrir dýrar íbúðir, en verð eldri íbúða sem Samtökin séu með, sé mun lægra. Samtökin leggi áherslu á að byggja vandaðar íbúðir og lögð sé áhersla á að þjónustukjarnar á vegum sveitarfélaganna séu í nágrenninu. Þannig háttar til í Kópavogsgerði, en þar er stutt í sundlaug og þá þjónustu sem Kópavogsbær veitir eldri bæjarbúum. Það er snjóbræðsla í göngustígum og bílastæðum við húsið og þaðan er stutt niður að ströndinni. Tenging við gönguleiðir á svæðinu er líka góð.  Nánari upplýsingar um íbúðirnar má sjá hér.

Hér má sjá nýja húsið í Kópavogsgerði, sem enn er á byggingarstigi

Hér má sjá nýja húsið í Kópavogsgerði, sem enn er á byggingarstigi

 

Ritstjórn júlí 15, 2015 11:00