Að vinna og annast aldraðra foreldra

Það eru mikilvægir fundir í vinnunni og verkefni sem þarf að skila. En aldraður faðir þinn sem þú lítur til með, hefur verið að vakna upp á hverri nóttu alla vikuna og þú vilt gjarnan fara með honum til læknis. Hvað skal gera?

Þannig hefst grein í bandaríska vefritinu aarp.org, en vestur í Bandaríkjunum er áætlað að rúmlega 25 milljónir manna, séu daglega að basla við að reyna að samræma vinnu og umönnun eldri ættingja. Að lokum verða þeir tættir og alveg búnir á því, bæði andlega og líkamlega.

Góðu fréttirnar eru þær að margir atvinnurekendur hafa samúð með fólki í þessari stöðu, segir í greininni. Sum fyrirtæki í Bandaríkjunum aðstoða fólk jafnvel við að finna þjónustu í boði sveitarfélaga, ráðgjöf, afleysinga umönnun, fjárhagslega og lögfræðilega aðstoð og stuðningshópa fyrir þá sem annast eldri ættingja. Okkar samfélag er minna og aðstoð fyrirtækja kannski ekki jafn fjölbreytt þegar kemur að umönnun eldri ættingja. Þá höfum við ekki heyrt af stuðningshópum fólks sem annast eldri ættingja, en hérna eru samt sem áður nokkur ráð þýdd og staðfærð sem gætu komið að einhverjum notum fyrir fólk sem býr hér á landi og er í þessari stöðu.

Staða fólks heima fyrir er misjöfn og yfirmenn í sama fyrirtæki kunna líka að hafa mismunandi afstöðu til aðstoðar í tilvikum sem þessum. En hér koma ráðin fyrir þá sem eru í þeim sporum að líta til með öldruðum foreldrum eða öðrum í fjölskyldunni.

Kynntu þér reglurnar á vinnustaðnum. Talaðu við mannauðsdeildina og athugaðu hvort fyrirtækið hefur ákveðna stefnu í þessum málum. Athugaðu hvort það veitir aðstoð af einhverju tagi við þá sem sinna eldri ættingjum sínum.

Athugaðu hvaða rétt þú átt. Talaðu við stéttarfélagið og kannaðu hvort þar er boðið uppá aðstoð af einhverju tagi og athugaðu einnig hvort Tryggingastofnun kemur á móts við fólk í þessari stöðu.

Talaðu við yfirmann þinn.  Skýrðu hreinskilningslega frá því að þú sért í þeirri stöðu að þurfa að sjá um aldraða móður eða föður og hvernig það hefur áhrif á starf þitt. Það er best að yfirmaðurinn heyri það beint frá þér, hvernig á því stendur að þú ert að koma seint í vinnuna suma daga og virðist annars hugar. Greindu honum frá því sem þú getur hugsanlega gert til að samræma vinnuna og umönnunina. Sem dæmi „ Móðir mín þarf að fara til sjúkraþjálfara á miðvikudasgseftirmiðdögum og ég þarf að fara með henni. Á meðan ég leita annarra leiða til að aðstoða hana, get ég fengið að vinna frameftir á þriðjudögum í staðinn?“. Það er ekki ósennilegt að stjórnendur á vinnustaðnum meti hreinskilni þína og ábyrgðartilfinningu bæði gagnvart fjölskyldunni og vinnunni og séu tilbúnir til að koma til móts við þig.

Athugaðu með sveigjanlegan vinnutíma. Jafnvel þó það sé ekki beinlínis stefna fyrirtækisins, ættir þú að spyrja yfirmann þinn, hvort það komi til greina að hliðra til, þannig að þú getir séð um foreldri þitt samhliða vinnu. Þú gætir til dæmis spurt hvort það sé í lagi að þú vinnir heima einn eða tvo daga í viku. Þú gætir líka athugað með að fara tímabundið í hlutastarf, eða deila einu starfi með vinnufélaga.

Ekki misnota aðstöðuna í vinnunni.  Ef það er einhver möguleiki, forðastu að sinna umönnuninni í vinnutímanum. Ef þú þarft að hringja, eða leita upplýsinga á netinu sem tengjast þörfum foreldra þinna, gerðu það í matartímanum.

Vertu vel skipulagður.  Reyndu að nýta tímann sem allra allra best. Notaðu minnislista og láttu tölvuna líka minna þig á verkefnin. Forgangsraðaðu og settu mikilvægustu verkefnin fremst. Reyndu að deila verkefnum, bæði í vinnunni og heima.

Leitaðu aðstoðar. Það eru sveitarfélögin sem annast að stórum hluta þjónustuna við eldra fólk hér á landi. Það er rétt að byrja á að leita aðstoðar þar. Sem dæmi má nefna að í Reykjavík er hægt að kaupa mat fyrir eldra fólk, fá akstursþjónustu, heimaþjónustu og ýmislegt fleira.

Mundu að þakka fyrir.  Sýndu vinnufélögum þakklæti og öðrum þeim sem hlaupa í skarðið fyrir þig til að hlutirnir gangi upp.

 

Ritstjórn október 3, 2017 12:31