Tengdar greinar

Öðruvísi súpa með kjúklingi, fiski eða baunum

Fiskisúpa með sama grunni.

Þegar bjóða á gestum með ólíkar þarfir í mat

Í ört flóknari neysluheimi getur verið erfitt að útbúa rétti sem henta gestum með ólíkar þarfir. Góð hugmynd er að vera með súpugrunn sem er þannig samansettur að hægt er að setja út í hann ýmist kjúklingabita, góðan fisk eða baunir fyrir grænmetisætur. Hér er einn slíkur afar ljúffengur grunnur sem ekki er flókið að útbúa og tilvalið að bera gott brauð fram með. Grunnurinn er bragðsterkur og gott er að bæta matreiðslurjóma saman við áður en súpan er borin fram. Ef börn eru í matarboðinu finnst þeim gott að hafa nachos snakk með þessari súpu en fullorðnir kjósa frekar snittubrauð.

1 laukur, skorinn í bita

2 paprikur, skornar í bita

2 hvítlauksrif, söxuð smátt

1 msk. malað kóríander eða ferskt

1 ½ tsk. chiliduft

1 ½ tsk. cayenne pipar

1 nautateningur

1 kjúklingateningur

2 msk. olía

1 l grænmetis- eða tómatdjús (ferna)

½ l vatn

3 kjúklingabringur, skronar í bita og steiktar eða 300 g fiskur að eigin vali, skorinn í bita

1/2 bolli matreiðslurjómi ef vill

Látið lauk og paprikur mýkjast í olíunni í potti. Setjið hvítlaukinn út í. Bætið kóríander, chilidufti og sayenne pipar saman við og látið steikjast með í olíunni þar til ilmurinn af kryddinu stígur upp. Setjið tómat- eða grænmetisdjúsið út í pottinn og svo vatninu. Bætið kryddteningunum út í vökvann. Látið þetta sjóða saman í 15 mínútur. Ef kjúklingurinn er notaður er hann látinn sjóða með í 15 mínútur. Ef fiskurinn er notaður er hann látinn hitna í vökvanum. Gott er að bera rifinn ost og kóríanderlauf fram með.

 

 

Ritstjórn október 20, 2017 14:59