Þegar Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður tók þá ákvörðun fyrir þingkosningarnar 2016, að nú væri komið nóg og að hún ætlaði að fara að gera eitthvað annað, var hún 67 ára. Það var komið að því að hún ætlaði að láta sjálfa sig og fjölskyldu sína ráða för. En samhliða skipaði Illugi Gunnarsson þáverandi menntamálaráðherra hana formann stjórnar Gljúfrasteins og þannig fékk hún tækifæri, ásamt fleirum, til að fylgja eftir þingsályktunartillögu sem hún hafði flutt á Alþingi, um uppbyggingu staðarins. Síðar var hún sett sem formaður stjórnar RÚV og gegnir því embætti enn.
En í haust fékk hún óvænt atvinnutilboð sem hún segir hafa verið skemmtilegasta og óvæntasta verkefnið. „Það var haft samband við mig úr grunnskóla hérna í heimabænum mínum, Mosfellsbæ og ég spurð hvort ég vildi koma í forfallakennslu og kenna íslensku. Ég sagði já og forfallakennslan endaði þannig að ég kenndi frá 10.október alveg fram að jólum, 25 tíma á viku sem er full kennsla. Það var alveg dásamlegt, svo skemmtilegt“, segir Ragnheiður. „Í fyrsta lagi er íslenskan svo skemmtilegt fag og síðan er svo gaman að vera með unglingum í 8. 9. og 10.bekk. Þau eru svo skemmtileg, fersk, sjálfstæð, ófeimin og kröftug“, segir hún.
Ragnheiður segist alls ekki sjá eftir að hafa hætt í pólitíkinni. „Ég fylgist alveg með, en ég get lofað þér því að ég sakna þess ekki að sitja á þingi. Þegar maður tekur sjálfur ákvörðun um að hætta, er það allt annars konar viðhorf sem ræður för hjá manni, en ef maður hefði til dæmis fallið í prófkjöri. Það er gott að finna sinn vitjunartíma sjálfur og taka þessa ákvörðun. Ég hef núna annars konar tíma fyrir mig og manninn minn, börn og barnabörn, þó það hafi farið svolítið forgörðum nú á haustdögum. Þetta er bara nýr kafli í lífinu og dásamlegur“ segir hún.
„Auðvitað hefur maður skoðun á þessu. Maður verður aldrei skoðanalaus sem fyrrverandi stjórnamálamaður og stjórnandi og ég bind miklar vonir við þessa ríkisstjórn“, segir Ragnheiður. Mér fannst eftir þann glundroða sem var búinn að vera, að þeim Bjarna og Katrínu bæri skylda til að mynda þessa ríkisstjórn, þvert á pólitískar línur og taka einhvern annan með sér. Mér fannst við komin á þann stað í pólitíkinni að ef þessir flokkar gætu ekki myndað stjórn þvert á línur, myndum við fara í þetta sama mynstur aftur og aftur. Það var mín tilfinning að ef þetta gengi, myndu menn vanda sig og láta þetta ganga. Ég hef trú á þessu fólki og reyndar öllum þingmönnum sem hafa allir sama markmið í pólitíkinni þó þá greini á um leiðir“, segir Ragnheiður að lokum.