Þekkir söguna bak við hverjar einustu dyr

Sjónvarpið hefur að undanförnu sýnt þætti Egils Helgasonar um Kaupmannahöfn – höfuðborg Íslands, en þar fær hann Guðjón Friðriksson sagnfræðing og rithöfund til að segja frá stöðum og fólki sem tengjast Íslandi. „Við Guðjón höfum gert ýmisleg saman“, segir Egill. „Við gerðum saman þátt um Þingholtin, Fossvogskirkjugarð, Gamla kirkjugarðinn og um skáldin í þessum kirkjugörðum.  Svo gáfu þeir Guðjón og Jón Þ. Þór út þessa bók  Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands, og þá barst í tal að það gæti verið gaman að gera þætti sem byggðust á henni“, segir hann.  Ragnheiður Thorsteinsson annast dagskrárgerð þáttanna.

Egill rekur garnirnar úr Guðjóni Friðrikssyni

Íslandskaupmennirnir ekki allir vondir

Fimm þættir hafa þegar verið sýndir og sá sjötti og síðasti er á dagskrá í kvöld. Þættirnir hafa verið einstaklega fróðlegir og skemmtilegir, enda var það hugmyndin að gefa svolítið aðra mynd af lífi Íslendinga í Kaupmannahöfn en tíðkast hefur. „Sagan var lituð af sorgarsögum um unga menn sem köstuðu sér í síkin, skáldin sem drukku sig í hel og  sjálfstæðishetjunum. En við tölum í þáttunum um kaupmennina, iðnaðarmenn og konur sem fóru til Köben, sumar sem „stuepiger“ og aðrar til að læra hjúkrun. Okkur langaði að gefa breiðari mynd af því hvað Kaupmannahöfn var ótrúlega mikilvæg fyrir Íslendinga í hundruð ára. Íslandskaupmennirnir voru ekki allir vondir. Þeir lifðu í samræmi við tíðarandann sem þá var og það er misjafn sauður í mörgu fé. Við erum lítið í því að hallmæla Dönum í þáttunum og reynum að vera hlutlausir“, segir Egill.

Ljósmyndasöfnin lokuð

Myndræn útfærsla þáttanna er mjög vel heppnuð

Ragnheiður Thorsteinsson segir að þættirnir hafi verið teknir upp  í Kaupmannahöfn á fimm dögum sumarið 2016. „Guðjón er hafsjór af fróðleik og þeir sniðugir að finna skemmtileg sjónarhorn. Við byrjuðum að klippa þættina síðast liðið sumar. Þetta efni tekur langan tíma í klippingu. Það þarf að leita að myndum og það tekur tíma að fá gamlar myndir“, segir hún og bætir við að það hafi lagast mikið þegar hún fann danskan vef, þar sem hægt er með auðveldum hætti að nálgast gamalt danskt myndefni. Sá vefur sé til fyrirmyndar. „Það mætti vera betri aðgangur að gömlu kvikmyndunum okkar og ljósmyndum. En það kostar peninga að gera söfnin aðgengilegri“, segir hún.

Þekkir söguna bak við hvern einasta glugga

Þau Egill og Ragnheiður segja að Kaupmannahafnarþættirnir hafi fengið mikið áhorf og viðbrögðin hafi verið góð. „Þetta er hugsað sem blanda af skemmtun og fróðleik“, segir Egill. „Við blöndum inní sögum af fólki.  Guðjón þekkir söguna svo vel, það er eins og hann þekki söguna á bak við hvern einasta glugga og hverjar einustu dyr. Það er ekki amalegt að vinna með svoleiðis manni.  Ég veit að hann er feiki vinsæll og það eru forréttindi að vinna þætti með honum. Það má svo ekki gleyma henni Röggu, hún á heiðurinn af myndefninu og tónlistinni sem er sérstaklega vel valin, segir Egill.

Þetta þríeyki, Jón Víðir Hauksson myndatökumaður, Ragga og Egill, hafa komið að gerð margra frábærra sjónvarpsþátta

Nýir þættir með Pétri Ármannssyni í bígerð

Egill og Ragnheiður hafa gert fleiri þætti sem hafa vakið verðskuldaða athygli, svo sem þættina Steinsteypuöldina með Pétri Ármannssyni arkitekt.  Egill segir í bígerð að gera fleiri þætti með Pétri og fara þá umhverfis landið, skoða staði eins og Ísafjörð, Akureyri, Seyðisfjörð og fleiri og segja frá uppbyggingunni þar.  Egill er með sína föstu þætti í Sjónvarpinu. „En mér finnst gaman að gera meðfram eitthvað sem er tímalaust og ekki bundið við það sem er að gerast í dag. Bókina sem var að koma út eða stjórnmálamanninn er í sviðsljósinu hverju sinni.  Það er mjög gefandi að fá að gera svoleiðis efni. Þetta er rólegt sjónvarp og það er gaman að búa til rólegt sjónvarp“, segir Egill að lokum.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 7, 2018 08:40