Hafnar vinnumarkaðurinn fólki sem er komið yfir miðjan aldur?

Karl Gauti Hjaltason

 

Karl Gauti Hjaltason alþingismaður Flokks fólksins skrifar grein í Morgunblaðið í dag um stöðu eldra fólks á vinnumarkaði undir fyrirsögninni Aldursfordómar á vinnumarkaði?  Hann bendir á að atvinnuleysi sé ekki talið eitt af stóru vandamálunum á vinnumarkaðinum um þessar mundir en þó séu þar ákveðnar brotalamir, eins og  langtímaatvinnuleysi og hverja það hrjái helst.  Samkvæmt skýrslu  Vinnumálastofnunar sé um þriðjungur atvinnulauss fólks 50 ára og eldra langtímaatvinnulaust, en einungis áttundi hluti fólks í yngsta hópnum. Hann spyr hvort aldursmisrétti ríki á íslenskum vinnumarkaði og hvort íslenskir atvinnurekendur séu haldnir aldursfordómum þegar kemu að því að ráða fólk í vinnu?

Fólk sem missir vinnuna um eða eftir fimmtugt virðist þannig eiga erfitt með að fá vinnu að nýju. Er þetta fólk úr leik hvað atvinnuþáttöku varðar? Margt af fólki á þessum aldri er vel menntað og það sem meira er, það hefur unnið sér inn dýrmæta reynslu sem ætti að vera eftirsóknarverð og nýtast vel. Þá hafa margir vinnuveitendur þá reynslu að fólk á þessum aldri sé gjarnan ábyggilegasta starfsfólk hvers vinnustaðar, ef horft er til mætingar og stundvísi.

En þegar kennitalan fer yfir ákveðin mörk reynist ekki auðvelt að fá atvinnu. Er vinnumarkaðurinn að hafna fólki sem komið er yfir miðjan aldur?

Karl Gauti bendir á að meðalaldur hér á landi hafi hækkað um fimm ár frá 1986. Þetta hafi leitt til umræðu um að hækka eftirlaunaaldurinn og að gera ætti til dæmis ríkisstarfmönnum kleift að vinna lengur en til sjötugs. „Þegar þetta er haft í huga er eitthvað sem fer ekki saman“, segir hann og heldur áfram.

En hvað er til ráða Ég tel að þeim sem auglýsa eftir starfsfólki, beri skylda til að svara öllum umsóknum þeirra sem sækja um vinnu. Allt of margir sem ég hef rætt við kvarta yfir því að þeim sé ekki svarað og að þeir séu ekki viritr viðlits. Síðan eru það viðtölin, atvinnurekendur þyrftu að veita miðaldra fólki oftar möguleika á að sanna sig með því að boða það í viðtöl. Þá gæti komið í jós að það hefur að sjálfsögðu margt til brunns að bera eins og yngra fólkið.

Og Karl segir að við verðum að taka umræðuna um þetta málefni, sem brenni á mörgum. Hér blasi við óæskileg þróun á vinnumarkaði sem þurfi að sporna við. Opinberir aðilar, sem oft séu stórir vinnuveitendur, gætu tekið að sér að vera til fyrirmyndar í þessu efni.

Ritstjórn apríl 5, 2018 12:08