Tengdar greinar

Kvíði getur fylgt ákvörðun um starfslok á vinnumarkaði

Stan Corey er bandarískur fjármálaráðgjafi sem hefur þjónustað einstaklinga, hjón, stórfjölskyldur og lítil fyrirtæki í fjörutíu ár. „Ég hef unnið með fólki á tíræðisaldri. Aðrir hafa dáið þegar þeir voru rétt komnir á eftirlaunaaldur. Enn aðrir hafa misst maka, systkini, börn og jafnvel barnabörn“, segir Stan í grein á vefnum sixtyandme.com „Sumir hafa skilið snemma á ævinni, eða eftir að þeir voru komnir á eftirlaunaaldur, á meðan aðrir hafa haldið saman til æviloka“, bætir hann við og segir það hafa verið forréttindi að fá að fylgja fólki eftir frá vinnualdri til eftirlaunaára, aðstoða það við fjármálin og síðan við að koma arfleifð þeirra til skila til afkomenda. Arfleifðin þurfi ekki endilega að vera eignir eða peningar, hún geti einnig falist í að koma áleiðis mikilvægustu lífsskoðunum eða gildum þeirra sem fallnir eru frá.   Grein Stans fer hér á eftir í lauslegri þýðingu Lifðu núna.

Að vinna jafnvel áratugum saman með fólki, hefur gefið mér innsýn í það hvernig það bregst við starfslokunum, sem eru ein stærsta breytingin sem fólk gengur í gegnum á ævinni. Það fylgja þeim miklar tilfinningar.

Starfslokum fylgja tilfinningaþrungnar breytingar

Kvíði er ein þeirra tilfinninga sem fylgja þeirri ákvörðun að hætta störfum á vinnumarkaði. Fólk hefur áhyggjur af því að það verði með of lágar tekjur, tæmi sína sjóði eða lifi lengur en það bjóst við. Stundum hefur það líka áhyggjur af maka eða öðrum í fjölskyldunni ef þeir falla frá á undan þeim. Það sama gildir þá um umönnun aldraðra foreldra, eða fatlaðra uppkominna barna. Það þarf að huga að þessu öllu um leið og unnið er að eigin eftirlaunaárum.

Stundum koma upp deilur milli hjóna sem eru á öndverðum meiði. Til að mynda karlsins sem vill „lifa lífinu“ á eftirlaunum og konunnar sem hræðist að hafa ekki nægar tekjur til að komast af. Stundum skjóta líka upp kollinum gömul deilumál sem geta stofnað skipulagningu eftirlaunaáranna í hættu.

Eftirlaunaárin geta verið spennandi

Það er mikið í húfi að skipuleggja eftirlaunaárin og kannski ekki skrítið að skilnaðartíðni hafi aukist meðal fólks sem er sextugt og eldra. En góðu fréttirnar eru þær að þetta þarf ekki að vera svona. Þið getið upplifað hið gagnstæða, skemmtilegt tímabil iðandi af lífi, þar sem þið eruð saman virkir áhugasamir þáttakendur og til í að prófa nýja og skemmtilega hluti, sem þið hafið aldrei gert áður.

Þegar upp er staðið snúast starfslokin ekki um ákveðinn aldur eða hversu miklar tekjur þið munuð hafa. Þau snúast frekar um hitt, að ráða því hvort maður heldur áfram að vinna eða ekki.

Hvers vegna ættum við að hætta störfum á vinnumarkaði?

Kannski langar þig ekki að vinna lengur. Hugsanlega þarftu að sjá um umönnun aldraðra foreldra. Kannski hefurðu þörf fyrir nýtt upphaf, eftir makamissi eða skilnað. Ef til vill hefur þér áskotnast arfur og langar að skella þér út á þjóðvegina í húsbíl.

Hver svo sem ástæðan fyrir starfslokunum er, hef ég tekið eftir að helstu áhyggjur fólks sem er að fara á eftirlaun, eru fjármálin. Að hætta að fá reglulegar tekjur og fara að lifa á eftirlaununum og/ eða því sem menn hafa sparað saman.  Fólk hefur hugsanlega lagt í séreignasparnað eða aðra fjármálagjörninga til að eiga fé til efri áranna.  En þegar stundin er runnin upp, hef ég tekið eftir því að margir átta sig allt í einu á, að þeirra fjárhagslega ævi er kannski bara hálfnuð.

Ef horft er á lífshlaupið eru starfslokin miðjupunkturinn, sem á líklega frekar við í Bandaríkjunum en á Íslandi. En að því gefnu að starfslokin þýði að þið séuð að hefja nýtt tímabil í lífinu, krefst það fyrirhyggju ef þið ætlið að njóta þessara ára. Það þarf  góðan undirbúning og það þarf líka að yfirfara plönin regluelga og breyta kúrsinum eftir þörfum.

Hvernig fáum við mest út úr eftirlaunaárunum

Stan Corey segir að til að fá sem mest úr úr þessu æviskeiði sé best að skipuleggja það í fjórum þrepum eða tímabilum sem hann  kallar  1) Go go years eða ár á ferð og flugi  2) Slow go years, eða árin sem við förum okkur hægt. 3) No Go Years, eða árin sem við erum hætt að vera á ferðinni og síðan er það síðasta skeið ævinnar eða 4) Gone tímabilið, sem endar með andláti.

Hann segir þessi tímabil ekki tengjast aldri.  Þau snúist meira um hvernig fólki takist að halda bæði fjárhagslegu og líkamlegu sjálfstæði sínu. Hverju skeiði fylgi nýjar áskoranir. Til að fara frá einu þrepi yfir á það næsta þurfi að laga sig að breyttum aðstæðum. Þetta snúist um heilsu og heyfigetu og að taka ákvarðanir sem varði velferð hvers og eins, barna hans og barnabarna.

Ritstjórn júní 13, 2023 07:00