Hér eru nokkrar kvikmyndir sem við hjá Lifðu núna höfðum gaman af og getum alveg mælt með við aðra. Við gefum okkur ekki út fyrir að vera sérfræðingar á þessu sviði, þetta eru einfaldlega myndir sem okkur hafa fundist góðar. Sumar eru nýjar og sumar eldri, en við mælum með þeim við vini og vandamenn.
The Lunch Box er indversk mynd og margt í henni er að sjálfsögðu óvenjulegt og athyglisvert. Myndin sem er margverðlaunuð, gerist í Mumbai og segir frá vanræktri ungri eiginkonu Ilu, sem reynir að finna ráð til að endurvekja neistann í hjónabandinu. Hún bregður á það ráð að elda virkilega góðan mat og senda eiginmanninum í nestisboxi í gegnum þjónustu sem á ekki að geta brugðist. En nestisboxið fer ekki á réttan stað og endar hjá skrifstofumanninum Saajan. Hann er einmana ekkill sem er um það bil að fara á eftirlaun. Þetta verður upphaf þess að Ila og hann fara að skiptast á litlum bréfum sem þau setja í nestisboxið og með þeim tekst vinskapur þó þau hafi aldrei hist. Leikstjóri er Rietesh Batra.
Kvikmyndin Flight með Denzel Washington í aðalhlutverki er mjög góð mynd. Denzel Washington sýnir stjörnuleik eins og svo oft áður, í hlutverki flugstjórans William „Whip“ Whitaker sem er kominn út á hála braut í einkalífi sínu og drykkju. Þrátt fyrir það tekst honum að vinna björgunarafrek þegar þota sem hann flýgur hrapar. Á sjúkrahúsinu eftir slysið hittir Whip konu ,Nicole, sem er eiturlyfjaneytandi og hafði tekið of stóran skammt. Það reynir hins vegar verulega á hann og samband þeirra þegar rannsókn slyssins hefst og hann þarf að horfast í augu við gerðir sínar. Robert Zemeckis leikstýrir myndinni.
The Dressmaker er viðburðarrík áströlsk kvikmynd, með Kate Winslet í aðalhlutverki. Hún leikur kjólahönnuðinn Tilly, sem heitir réttu nafni Myrtle Dunnage. Hún snýr tilbaka í heimabæ sinn Dungatar í Ástralíu með saumavélina sína, en 25 árum áður hafði hún verið send þaðan burt. Það var eftir sviplegt slys þar sem skólabróðir hennar lést og hún var talin völd að dauða hans. Hún er komin heim til að annast móður sína sem er veik. Koma Myrtle vekur vægast sagt gríðarlega athygli í bænum svo og kjólarnir sem hún klæðist. Þetta er margslungin saga um fólk í smábæ og samtvinnuð örlög þeirra sem þar búa. Myrtle finnur ástina og tekst að lokum ráða gátuna um slysið sem hafði svo mikil áhrif á líf hennar. Þessi mynd var óhemju vinsæl í Ástralíu. Leikstjóri myndarinnar heitir Jocelyn Moorhouse.
Við þetta má bæta „feel-good“ myndinni You´ve got mail, með þeim Tom Hanks og Meg Ryan í aðalhlutverkum, en á þessu ári eru liðin 20 ár frá því hún var frumsýnd. Hvað tíminn líður hratt! Þessi mynd er „klassíker“ og þau Meg Ryan og Tom Hanks uppá sitt besta í hlutverkum Kathleen Kelly sem rekur Bókabúðina handan við hornið og Joe Fox sem er stjórnandi og erfingi risa bókakeðjunnar Fox books. Þegar myndin hefst stendur einmitt til að opna stóra bókabúð keðjunnar við hliðina á Kathleen. Þau Kathleen og Joe kynnast á netinu og fara að skiptast á tölvupóstum, þetta er líklega í upphafi stefnumótalína á netinu. Smám saman þróast sambandið og þau ákveða að hittast án þess að vita að þau eru erkióvinir í samkeppninni á bókamarkaðinum, þar sem hallar heldur betur á Kathleen. Þessi mynd er því býsna flókin, en skemmtileg og endar vel, sem er kostur ef fólk vill bara slappa af yfir sjónvarpinu og láta sér líða vel.