Þegar börnin eru flutt að heiman og húsnæðið kannski orðið of stórt fyrir tvo, fara margir að huga að því að minnka við sig. Fjöldi íbúða er í boði fyrir þá sem eru orðnir 55 plús, 60 plús og svo framvegis. Það hafa meira að segja stundum risið deilur um að of ungt fólk hafi flutt inn í þessi hús. Við spurðum álitsgjafana okkar að því hvort þeim fyndist ástæða fyrir fólk að minnka við sig húsnæði þegar það eldist. „Það er örugglega skynsamlegt og kemur vonandi að því að það verður nauðsynlegt“ sagði einn viðmælandi á meðan annar var ekkert farinn að velta slíku fyrir sér. Konurnar virtust hugsa meira um þetta en karlarnir.
Það er ekki endilega nauðsynlegt. Ef viðkomandi er í vel við höldnu,skuldlausu húsnæði sem ekki er hamlandi hvað varðar aðgengi og þess háttar þá finnst mér ekki það nauðsynlegt. Aftur á móti ef þetta er ekki allt til staðar tel ég rétt að koma sér í annað húsnæði sem hentar hverjum og einum. Eins er rétt að athuga í tíma hvort hægt er að komast í einhvers konar þjónustuíbúð því biðin eftir slíku getur verið ansi löng þegar á þarf að halda.
„Mér finnst skipta máli að huga að búsetu, að því hvar við viljum búa og hvernig“, sagði önnur í hópnum.
Þarna er ekki hægt að alhæfa heldur ætti hver og einn að skoða sínar þarfir og langanir. Sumir búa áreiðanlega þannig að þeir ættu ekki að þurfa að minnka við sig. En fyrir aðra gæti verið gæfuspor að minnka við sig húsnæði, þurfa minna að borga og minna að þrífa. Gallinn á þessu er að margir geta varla keypt nýja og minni íbúð fyrir andvirði einbýlishússins.
Enn önnur hafði eftirfarandi skoðun á málinu.
Það fer nú eftir því hvernig húsnæðið er og manneskjan. Ég er alfarið á móti því að eldra fólk þurfi að minnka við sig húsnæði ef það þarf þess ekki vegna efnahags eða vegna þess að húsnæðið hentar ekki lengur. Oft fer vel um fólk á sínu heimili og mörg dæmi eru um fólk sem getur búið heima þar til yfir lýkur, ég tala nú ekki um ef það fær aðstoð. Mikilvægt er að liðka fyrir því. Stundum getur fólk líka þurft að stækka við sig húsnæði, til dæmis ef það fer í nýja sambúð og vill geta tekið á móti börnum og barnabörnum.
Flestir horfa á húsnæðismálin út frá sínum aðstæðum, eðlilega.
Enn sem komið er hentar okkur hjónunum vel að búa í stóru húsi og hafa rúmt um okkur. Þá getur fjölskyldan sem býr úti á landi gist hjá okkur þegar tilefni gefast til þess. En við erum farin að huga að því að minnka við okkur og hugsa um hvar við viljum búa. Þá hugsa ég til þess að vera nær þeim í fjölskyldunni sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu. Einnig vil ég búa í þægilegri íbúð þar sem ekki þarf að huga að viðhaldi í bráð. Og ég á persónulegra hagsmuna að gæta í því að losa mig við alla stiga. Um þessar mundir erum við að máta okkur inn í það sem er í boði á fasteignamarkaðnum til þess að hjálpa okkur að velja það sem hentar okkur.
Við spurðum viðmælendur okkar líka að því hvort þeir teldu þörf á að endurnýja bílinn áður en menn færu á eftirlaun, þ.e. áður en tekjurnar lækka. Einn sagði nýjan bíl á efri árum ekki forgangsmál. Annar sagði „Ég hef enga skoðuna á þesus. Ef fólk hefur efni á að kaupa sér bíl og reka hann, þá skiptir ekki máli hvenær það er gert. Sá þriðji taldi þetta fara eftir þeim tekjumöguleikum sem menn sæju fram á. „Þetta hlýtur að ráðast af eftirlaunum, svo og af því hvað fólk vill eiga dýra bíla. Og hér kemur svo tilvitnun í ummæli í þessari litlu óformlegu athugun.
Þegar við förum á eftirlaun eigum við kannski eftir að keyra í 10-20 ár. Það hlýtur að vera skynsamlegt fyrir okkur að vera á þægilegum bíl þegar færni okkar minnkar. Ekki of stórum, sjálfskiptum og með ýmiss konar þægindum eins og baksýnisskjá. Mörg okkar þurfa líka betri sæti í bílnum sínum en áður og geta ekki sest inn í eins lágan bíl. Þarna eru mörg sjónarmið sem þarf að taka tillit til á einstaklingsbundinn hátt. En ég hef engar forsendur til að fjalla um þetta út frá efnahagslegum þáttum.
Hópurinn sem svaraði spurningum Lifðu núna um starfslokin: Atli Rúnar Halldórsson, Elín Siggeirsdóttir, Eyþór Elíasson, Sylvía Guðmundsdóttir og Valgerður Magnúsdóttir.