Þráinn Þorvaldsson skrifar
Stundum eru birtar frásagnir fólks um verstu kaup þess í lífinu. Svo er hin hliðin sem er bestu kaup. Bestu kaup mín á þessu ári eru seðlaverski sem ég keypti í vetur í síðustu dvöl okkar hjóna á sælueyjunni Madeira. Veskið er þannig útbúið að yfir greiðslukort og ökuskírteini er lok með vösum fyrir fleiri greiðslukort. Þar hef ég félagsskírteini sem er um leið afsláttarkort Félags eldri borgara. Skírteinið sem er endurnýjað árlega er í áberandi lit. Aðild að félaginu gefur tilefni til afsláttar mjög víða. Mér finnst ég enn afar ungur þótt ég sé nýorðinn 70 ára gamall og man því ekki alltaf eftir því að sýna kortið. Þegar ég tek veskið upp til þess að ná í greiðslukortið er mjög algengt að afgreiðslufólkið á kassanum sem bíður eftir kortinu líti á veskið og segir svo: “Þú átt að fá afslátt.” Fyrir skömmu þegar ég einu sinni sem oftar þakkaði þeim sem afgreiddi mig fyrir að minna mig á afsláttinn sagðist viðkomandi ekki vilja minna fólk á afsláttinn nema kortið væri sjáanlegt. “Ég spurði eitt sinn konu hvort hún væri ekki eldri borgari og ætti að fá afslátt. Konan vildi augsýnilega helst berja mig því hún reyndist ekki hafa náð þeim aldri.” Síðan ég keypti veskið á Madeira í mars hafa tugir afgreiðslufólks minnt mig á afsláttinn. Fjárfestingin í seðlaveskinu hefur því ávaxtað sig vel. Ég kalla þetta veski mitt eldri borgara eða heldri borgara veski og er frá Ripcurl sem er m.a. þekkur sjóbrettaframleiðandi í Ástralíu. Ég veit ekki hvort þetta vörumerki er selt á Íslandi. Ég ráðlegg eldri borgunum sem eru meðlimir í Félagi eldri borgara að fá sé sambærilegt “heldri borgara seðlaveski” og fá afslátt sem víðast. Vinur minn sem er meðlimur í Félagi eldri borgara segist fá félagsgjaldið endurgreitt á hálfu ári með notkun afsláttarkortsins.