Konur sem eru orðnar 70 ára og eldri eru ekki boðaðar í brjóstakrabbameinsskoðun og konur sem orðnar eru 65 ára eu ekki boðaðar í leghálskrabbameinsskoðun. Guðrún Helgadóttir rithöfundur benti á þetta í viðtali við Lifðu núna. Gefum henni orðið;
„En það er litið öðruvísi á okkur konurnar þegar við eldumst. Við hættum til dæmis að fá boð um að koma til Krabbameinsfélagsins í skoðun. Ég hef spurt lækna en þeir yppta bara öxlum. Þeir hugsa líklega eins og karlinn í Skagafirði sem heyrði að til stæði að senda konu hans í uppskurð. “Tekur því?“ sagði han „Þetta er nú gömul manneskja“ Og víst er að fleirum en Guðrúnu hefur fundist það sérkennilegt að fá ekki lengur boð frá Krabbameinsfélaginu.
Starfar samkvæmt þjónustusamningi við Sjúkratryggingar
Lifðu núna leitaði til Krabbameinsfélagsins og spurðist fyrir um hverju þetta sætti. Sigríður Þorsteinsdóttir hjúkrunarframkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins segir að Leitarstöð Krabbameinsfélagsins starfi samkvæmt þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands.
„Samkvæmt þjónustusamningnum er konum á aldrinum 40-69 ára boðið til brjóstakrabbameinsleitar á tveggja ára fresti og konum á aldrinum 23-65 ára til leghálskrabbameinsleitar á þriggja ára fresti. Þessi leitarviðmið eru sett af heilbrigðisyfirvöldum þar sem markmiðið er að gera sem mest gagn og valda sem minnstum skaða fyrir þá fjármuni sem ætlaðir eru verkefninu. Heilbrigðisyfirvöld styðjast við alþjóðlegar rannsóknir og viðmið í þessu sambandi,“ segir Sigríður.
Óhætt að hætta leghálsleit við 65 ára aldur
Kristján Oddson yfirlæknir hjá Krabbameinsfélaginu segir að yfirleitt sé talið óhætt að hætta leghálsleit þegar konur verða 65 ára.
„Það eru þekktar um 40 tegundir af HPV–veirum sem geta valdið frumubreytingum og um 15 þeirra valda einnig leghálskrabbameini, yfirleitt á löngum tíma. Leghálskrabbamein er sjaldgæft hjá konum yngri en 25 ára. Öll krabbameinsleit miðast við að gera sem mest gagn og valda sem minnstum skaða,“ segir Kristján.
Hann segir að með því að hefja leit við 23 ára aldur sé verið að gefa konum sem hafa sýkst af HPV–veirum tækifæri til að losna við veirurnar sjálfar með hjálp ónæmiskerfisins, svipað og að flestir læknast af kvefveirum.
HPV sýkingum fækkar með aldrinum
HPV–sýking er algengust hjá yngra fólki, um 60% fólks á aldrinum 20 til 24 ára er með HPV–sýkingu á hverjum tíma en flestir losna við hana með hjálp ónæmiskerfisins á hálfu ári til tveimur árum en ekki allir. Eina leiðin til að vita hvort HPV–sýking er að valda konum skaða er að mæta reglulega í leghálskrabbameinsleit.
Algengi HPV-sýkinga minnkar svo hratt eftir 25 ára aldur og við 60 ára aldur eru aðeins 4% kvenna með HPV–sýkingu. Þess vegna er talið óhætt að hætta leghálsleit við 65 ára aldur,“ segir Kristján og bætir við að konur sem hafi greinst með leghálskrabbamein eða frumubreytingar fylgi öðrum leitarleiðbeiningum en lýst er hér að ofan. Þær fara í sérstakt eftirlit vegna aukinnar áhættu.