Sparipeysa eða þvottapoki

Jónas Haraldsson.

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar:

Ættleri. Kannski á það ágæta orð við um mig og mína frammistöðu. Pabbi var rafvirki og flinkur með skrúfjárnið. Afar mínir voru jafnframt handlagnir menn, annar trésmíðameistari og hinn skipstjóri. Í framættum, sjást síðan bakarar og handverksmenn – og bændur að sjálfsögðu, menn sem urðu að bjarga sér, ráku smiðjur meðfram hefðbundnum bústörfum, smíðuðu skútur, skerptu skauta – og bjuggu til þrumu osta og grauta, svo vitnað sé til þjóðskálds samtímans.

Það er kannski ofsagt þetta með ostana og grautana. Þessir karlar voru ekki mikið í slíku stússi. Verkaskiptingin milli kynjanna var nokkuð klár. Þeir biðu bara eftir því að fá grautinn. Sú verkaskipting náði raunar í skottið á minni kynslóð karla á fyrstu búskaparárunum. Við fengum þannig uppeldi. Biðum bara eftir því að fá grautinn, alveg eins og var hjá mömmu. Það hefur heldur betur breyst – og var ekki vanþörf á. Við höfum skánað, þessir sem komnir eru á virðulegan aldur en það sem meira máli skiptir, sé litið fram á veginn, eru ungu karlarnir. Svo aðeins sé litið til þeirra ungu manna sem næst mér standa, tveggja sona og tveggja tengdasona, þá sinna þeir heimilisstörfum svo til fyrirmyndar er, matargerð og barnauppeldi. Hið sama, held ég, á við flesta af þeirri kynslóð. Heimur batnandi fer.

Þótt ég væri alinn upp í anda aldalangrar verkaskiptingar kynjanna er gallinn sá að ég hef aldrei verið sérlega áhugasamur um skrúfjárn, vélar eða smiðjur. Það var því tiltölulega lítið gagn í mér ef litið var til hefðbundinna karlastarfa þess tíma. Ég reyndi samt, maður lifandi, og náði bærilegum tökum á því að mála með pensli og rúllu og í sameiningu reyndum við hjónakornin að flísaleggja og sinna öðru smálegu heimastússi. Viðhald og viðgerðir bíla voru aldeilis fjarri mér. Ég reyndi ekki að opna vélarhlíf bíla okkar ef vélin hikstaði, hvað þá ef kúplingin gaf sig eða að gat kom á hljóðkútinn.

Verra var þó að heimilisverkin lentu um of á mínum betri helmingi, svo ekki sé talað um umsjón barnanna. Það er vitaskuld til vansæmdar en þær málsbætur á ég þó að ég hef tekið mig á. Nú leika í höndum mér rafknúin heimilistæki af öllum stærðum og gerðum, hrærivél, uppþvottavél, þurrkari, ryksuga og flest sem nöfnum tjáir að nefna – nema eitt. Af einhverjum ástæðum hef ég alltaf óttast þvottavélina. Heimilisþvotturinn hefur því alla tíð lent á konu minni, hvort heldur er þegar við vorum sex í heimili eða bara tvö, eins og núna. Þetta er að sjálfsögðu algerlega galið því þvottavél er ekki flókið tæki. Það eru á henni nokkrar stillingar og rofi til gangsetningar. Það er kannski ekki apparatið sjálft sem ég óttast heldur útkoman, afleiðing gjörða minna, að ég setji sparipeysu frúarinnar í vélina og hún komi út sem þvottapoki. Slíkt bætir ekki samband hjóna, jafnvel þótt það byggi á traustum grunni.

Þess vegna hef ég látið þvottavélina eiga sig og komist upp með það – þangað til á dögunum. Við hjónakornin vorum á flandri um Evrópu en ég kom á undan henni. Hún átti erindi í annað land og flaug þangað en ég tók vélina heim. Þegar ég er einn heima er ég ekki að flækja málin, kaupi tilbúna rétti eða kem við á skyndibitastað. Öll flóknari matseld er látin eiga sig. Það er því lítil þörf á uppvaski eða annarri tiltekt, hvað þá tauþvotti. Nú var staðan hins vegar önnur. Meðan við vorum ytra gisti í húsinu okkar gott fólk sem af samviskusemi tók allt af rúmunum við brottför. Það beið því ærinn bunki sængurfata þvottar. Þetta nefndi ég af rælni við konu mína í símtali, ekki þannig að ég ætlaði að setja þessi ósköp í þvottavélina, heldur hitt að hún vissi hvað biði hennar þegar heim kæmi.

Þá gerðist hið óvænta. Þvoðu þetta bara sjálfur, góði minn, sagði konan símleiðis, alla leið frá Svíþjóð. Ha, sagði ég hissa á hinum enda línunnar, þú veist að ég kann ekki á þvottavélina. Láttu ekki svona, sagði konan í Svíþjóð, þolinmóð eins og hún væri að tala við barn. Stilltu bara á bómull, hélt hún áfram, nefndi hitastig og tímalengd og hið augljósa að þvottaefni þyrfti að brúka í maskínuna. Ýttu svo á start og málið er dautt. Þar með lauk kennslunni og samtalinu.

Ég gerði eins og mér var sagt, setti sængurver og lök í belg vélarinnar, stillti allt eftir kúnstarinnar reglum, setti sápuna á sinn stað og ýtti á takkann góða. Mér til nokkurrar undrunar en jafnframt gleði byrjaði vélin að mala, taka inn á sig vatn og snúast.

Ég viðurkenni að ég fylgdist grannt með hegðun tækisins allan þvottatímann, einkum vindunni sem snerist á ógnarhraða undir þvottarlok. Svo datt allt í dúnalogn. Þvotturinn var afstaðinn. Ég hafði sett í þvottavél, unnið afrek, yfirstigið hindrun. Ég var svo glaður að ég setti í aðra vél um leið og sængurverin voru komin í þurrkarann – því ég kann á hann. Þegar yfir lauk hafði ég sett sængurföt í fjórar þvottavélar, hvorki meira né minna – og jafn marga þurrkara.

Hvert framhaldið verður skal ósagt látið. Nú er konan komin heim frá Svíþjóð og enn sem komið er þekki ég bara eina stillingu á þvottavélinni, það er að segja fyrir sængurver. Spennandi er að vita hvort mér verður treyst fyrir sparipeysu frúarinnar. Það kemur í ljós – en þá er eins gott að út komi peysa en ekki þvottapoki í sama lit.

 

Jónas Haraldsson nóvember 12, 2018 07:39