Löggilt gamalmenni – í fullu fjöri

Jónas Haraldsson.

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar:

„Kæri sjóðfélagi,” sagði í ávarpi bréfs sem datt inn um lúguna hjá mér á dögunum – og með ljúfu ávarpinu fylgdi stuttur texti. Þar var mér kurteislega bent á að almennur lífeyrisaldur sjóðfélaga í þeim lífeyrissjóði sem ég tilheyri væri 67 ára. „Því bjóðum við þér að hafa samband við okkur og fá upplýsingar um lífeyrisréttindi þín og upphaf lífeyristöku,” sagði enn fremur.

Svo mörg voru þau orð. Með vinsemd var mér sagt að í næsta mánuði yrði ég löglegt gamalmenni. Mér brá örlítið við lesturinn, enda maður í fullu fjöri, að því að ég tel að minnsta kosti. Ég jafnaði mig þó von bráðar, enda veit ég vel hversu gamall ég verð næst þegar ég á afmæli.

„Heyrðu mín kæra,” kallaði ég til eiginkonunnar, „ég á að setjast í helgan stein í næsta mánuði.” „Hvaða rugl er þetta í þér maður,” sagði konan. „Rugl,” svaraði ég, „þetta er ekkert rugl, ég er með bréf upp á það.” Ég rétti konunni bréf lífeyrissjóðsins þar sem stóð svart á hvítu að eiginmaður téðrar konu væri boðaður til viðtals fyrir elli sakir. „Þú verður að sætta þig við það að vera gift löggiltu gamalmenni,” bætti ég við, vitandi það að konan hefur ekki fengið svona bréf, enda átta mánuðum yngri og þar með einu almanaksári.

„Hvernig á ég að haga ævikvöldinu?” hélt ég áfram, „maður sem á ekki einu sinni flókainniskó og hvað þá slopp. Ég er eiginlega alveg óviðbúinn því að verða gamalmenni, rétt si svona. Á ég að hætta að vinna og fara að spila golf – eða ráðleggur þú mér frekar að sækja námskeið í boccia?”

„Ég ráðlegg þér ekki neitt,” sagði frúin. „Þú heldur bara áfram að vinna eins og verið hefur og hættir þessu elliþrugli. Ekki ætla ég að hætta að vinna og ég get ekki hugsað mér þig hangandi  heima alla daga, aðgerðarlausan og villuráfandi. Þú kannt ekkert með golfkylfur að fara, nennir ekki í sund og boccia er fyrir raunveruleg gamalmenni á Kanaríeyjum. Við erum ekki komin þangað, ekki enn að minnsta kosti.”

Þar með lá það ljóst fyrir. Ég held áfram að vinna, eins og ekkert hafi í skorist. Breytir þar engu þótt lífeyrissjóðurinn segi að ég verði löggilt gamalmenni í næsta mánuði. Það er svo sem ágætt að minn betri helmingur sé enn þeirra skoðunar að hún búi ekki með öldungi. Jafnframt gott að hún hafi tekið af skarið með afgerandi hætti. Ég veit ekki hvað ég ætti af mér að gera ef ég hætti að vinna. Ég hef unnið frá því að ég man eftir mér, var í sveit á sumrum fram að fermingu. Þá tók við þriggja ára sumarvinna á flandri víða um land á vegum Vitamálastofnunar, sem svo hét. Vinnuflokkurinn sem ég tilheyrði rústbarði járngrindarvita á söndum suðurstrandar landsins og reisti þar radíóvita, auk þess að mála og viðhalda vitum á helstu annesjum. Síðar, á mennta- og háskólaárum mínum, keyrði ég mjólkur- og ísbíla fyrir Mjólkursamsöluna og að námi loknu tók blaðamennskan við, í ein fjörutíu ár. Rúm tvö síðustu árin hefur frúin síðan vistað mig í sínu fyrirtæki. Þar reyni ég að vera til nokkurs gagns – og lít svo á, fyrst hún vill ekki að ég setjist í helgan stein, að ég standi bærilega undir væntingum.

Ég kann því ekkert annað en að mæta í vinnuna og var því óviðbúinn fyrrnefndu bréfi lífeyrissjóðsins, þar sem mér var góðfúslega tilkynnt að ég væri kominn á aldur, eins og kallað er. En þá vaknar spuriningin. Hvað gerist þegar maður hættir loks að vinna, að því gefnu að lífið endist til að taka slíka ákvörðun? Ég hef ekki undirbúið mig undir slíkt og veit raunar ekki hvað ég ætti af mér að gera færi ég í endanlegt frí frá störfum. Ýmsir jafnaldrar mínir hafa þegar tekið þessa ákvörðun – og sumir segjast aldrei hafa haft meira að gera en eftir starfslok. Það kann að vera rétt en þeir eru þá skipulagðari en ég. Svo er það önnur og ekki síður mikilvæg spurning. Getur maður hætt að vinna ef makinn heldur áfram í fullri vinnu? Ég sé það ekki fyrir mér. Lífsreyndir menn myndu eflaust ráðleggja okkur hjónunum að draga smám saman úr vinnu og eiga þá rýmri stundir saman – en ég sé það ekki gerast, að minnsta kosti á næstunni.

Þá er ekkert annað að gera en að halda áfram að puða, hvað sem líður áminningu lífeyrissjóðsins um að fara að taka því rólega og njóta lífeyrisauranna sem ég hef safnað um áratugaskeið. Ég hef enn ekki haft samband við lífeyrissjóðinn og veit því ekki hve digur sá sjóður er, en grun hef ég um að ekki standi of mikið eftir þegar Bjarni hefur tekið sitt. Kannski hef ég ekki efni á því að hætta að vinna – og kona mín enn síður því lífeyrisstaða hennar er mun verri en mín, enda sá hún um uppeldi barnanna okkar – og það kemur niður á henni eins og væntanlega kemur í ljós þegar lífeyrissjóðurinn sendir henni bréf á vori komanda.

Ég læt því golfæfingar bíða um sinn – svo ekki sé minnst á blessaða boccia-kúnstina.

 

Jónas Haraldsson ágúst 5, 2019 08:15