„Þetta skiptir meira máli þegar árin líða. Það var ég sem stakk fyrst uppá því að við færum hingað. Hann var orðinn lélegur, búinn að vera veikur og ég hefði aldrei fengið hann til að fara einan“, segir Eva Sigurbjörnsdóttir, en hún og eiginmaðurinn Ásbjörn Valdemar Þorgilsson fara árlega í Hveragerði sér til heilsubótar. Hún er Akureyringur en hann Ísfirðingur og þau hafa búið í Djúpavík á Ströndum í rúmlega 30 ár. Þar er aðstaða til heilsuræktar ekki sérlega góð, á veturnar er til dæmis sárasjaldan hægt að ganga úti, það er svo mikill snjór.
Tvö í Djúpavík á veturna
Eva segir að Ásbirni hafi í byrjun þótt þetta skrítið, enda hafi móðir hans þá verið nýhætt að fara í Hveragerði. „Við vorum alltaf tvö í Djúpavík á veturna og það var annað hvort þetta eða að fara til sólarlanda“, segir hún. Börnin þeirra hafa nú tekið við rekstrinum á staðnum sem gerir þeim auðveldara um vik að hreyfa sig. Ásbjörn hætti að reykja í Hveragerði og segist þá hafa lokað hringnum og vera hættur bæði að reykja og drekka. En þau sáu líka að dvölin í Hveragerði er fyrirbyggjandi. Þau höfðu horft á foreldra sína eldast. Faðir Evu var sjúklingur síðustu árin á framfæri móður hennar. „Hún fór út að ganga, en hann var meira í að fylgjast með ensku knattspyrnunni“, segir Ásbjörn. Þau segjast hafa farið að hugsa sitt ráð og hvernig það yrði ef annað þeirra veiktist og hitt yrði að sjá um það. Menn þyrftu líka að vera þjóðfrægir til að komast saman inná stofnun, segja þau. Þetta væri mikið vandamál, ekki síst þegar fólk byggi úti á landi í sveitarfélögum sem gætu ekki veitt svona þjónustu.
Núvitundin vinsæl
Það sem þau hafa fyrir stafni í Hveragerði eru daglegar gönguferðir úti undir beru lofti. Eva segist vera í vatnsleikfimi þrisvar í viku og venjulegri leikfimi tvisvar. Hún stundar bakæfingar, er hjá sjúkraþjálfara og er í sjúkranuddi. Hún fer í heilsuböð og gerir æfingar fyrir háls, herðar og bak. Ásbjörn er í svipuðu prógrammi. Vatnsleikfimi þrisvar í viku, bakæfingum og núvitund. „Ég er búin að vera í núvitund síðan hún var tekin upp hér. Fannst það skrítið í fyrstu sen svo ánetjaðist ég þessu. Ég nota hana líka heima, þegar ég er eitthvað pirraður. Sest þá niður og hugleiði. Þetta er mjög vinsælt hér, alltaf fullur salur“, segir hann og bætir við að hann slaki einnig á í heilsuböðum og fari stundum í tækjasal.
Samningamálin rædd á kaffistofunni
Kaffistofan er ekki síður mikilvæg, en þar eru að þeirra sögn, miklar umræður um lífið, tilveruna og sögur ýmiss konar. Þar hefur samningamálin borið hæst að undanförnu „Náttúrulega“, segir Eva. „Við erum að hugsa um það ef fólk sem vinnur hér, dettur út vegna verkfalla. Það skilur enginn hvað verið er að bjóða fólki og að allt fari á hvolf ef það fær einhverja hækkun. Það er nýbúið að hækka laun bankastjóra og stjórnmálamanna um tugi prósenta. Þetta er eins og blaut tuska framan í fólk. Ég skil heldur ekki af hverju ekki er hægt að hækka skattleysismörkin“, bætir hún við.
Koma aftur og aftur
Ásbjörn segist hafa fundið fyrir því eftir tvö fyrstu skiptin í Hveragerði hvað sér hafi vaxið þrek. „Það er dásamlegt að láta benda sér á hvað maður getur gert fyrir sig sjálfur. Þess vegna viljum við koma hingað aftur og aftur“. Þegar hann er beðinn um að taka saman hvað dvölin geri fyrir hann segir hann. „Það er bara þetta, að viðhalda heilsu, þreki og hugsun. Þegar við vorum ein í Djúpavík allan veturinn var þetta eiginlega vertíð fyrir okkur í samtali við annað fólk, hér höfum við hitt yndislegar manneskjur og það er hugarleikfimi að læra öll nöfnin. Við ætlum að koma aftur hingað á næsta ári, við erum ekki hætt. Við styðjum líka hollvinafélagið hér. Þessi staður er alveg ótrúlega góður, það er ekki hægt að hugsa sér betri leið til að halda sér við“, segir hann.