Frumleg frekar en fyrirséð

 

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar:

Ég veit ekki hvort þetta hefur breyst svona mikið að undanförnu eða hvort skýringin liggur kannski bara í mér sjálfum. Málið er, að mér finnst að ég viti nú miklu oftar en áður hvað þau sem mestu ráða á hinum ýmsu sviðum samfélagsins segja eða ætla að segja í fjölmiðlum, á Netinu eða hvar annars staðar sem fólk svarar spurningum eða tjáir skoðanir sínar. Skýringin á þessu gæti verið sú að forsvarsfólkið sé almennt fyrirsjáanlegra en áður. Svo getur vel verið að þetta skýrist af þeim öru breytingum sem orðið hafa á fjölmiðlum og í tjáskiptum almennt til dæmis vegna samfélagsmiðlanna. En kannski er þetta eitthvað sem kemur með aldrinum, að maður verði einfaldelga klárari í því að greina umhverfið.

Þessi breyting, að maður viti hvað til dæmis stjórnmálamenn ætla að segja jafnvel áður en þeir opna munninn, hefur ýmsa kosti. Það er hægt að nota tímann í eitthvað annað en að horfa á sjónsvarpsfréttir, hlusta á fréttir í útvarpi eða skanna fréttasíður dagblaða. Það nægir jafnvel oft bara rétt að renna yfir fyrirsagnir fréttamiðla á Netinu. Lítil ástæða er oft til að fara inn í slíkar fréttir þar sem sjaldgæft er að þar komi eitthvað meira fram sem máli skiptir.

Það eru ekki bara stjórnendur og aðrir toppar í samfélaginu sem eru svona fyrirsjáanlegir. Þetta á einnig við um hina svokölluðu álitsgjafa sem gjarnan eru kallaðir til í fréttatengda spjallþætti fjölmiðlanna. Þetta er oftast sama fólkið sem mætir aftur og aftur, sem ferðast jafnvel á milli útvarps- eða sjónvarpsstöðva á einum og sama morgninum, og segir það sama hvar sem það er statt hverju sinni.

Stjórnmálamenn og aðrir sem vilja láta taka sig alvarlega, ættu að taka sér listamenn og ýmsa fleiri sér til fyrirmyndar. Tónlist, bíó, bækur, íþróttir og margt fleira veitir almennt mikla ánægju. Þetta á ekki hvað síst við þegar í þessu er eitthvað sem kemur á óvart. Hið óvænta í þessu sambandi gerir viðfangsefnið nefnilega oft svo miklu meira spennandi. Eins og til dæmis ef millikafli í góðu lagi eða tónverki er allt öðruvísi en búast hefði mátt við. Slíkt getur lyft tónlistinni upp á miklu hærra plan. Áhrifin geta verið svipuð þegar bók eða bíó tekur óvænta stefnu upp úr þurru í miðjum klíðum. Hver hefur til dæmis ekki séð bresku bíómyndina The Crying Game frá árinu 1992? Svo eru það íþróttirnar. Þar geta sumir hreinlega tapað sér af spenningi þegar hið óvænta gerist, eins og þegar við unnum England á EM 2016. Við gleymum þeim sæta sigri seint.

Hvar sem áhugasvið okkar liggur þá eru áhrifin á sálarlífið án nokkurs vafa töluvert meira spennandi þegar útkoman úr því sem við höfum áhuga á er ekki fyrirsjáanlega hefðbundin eða venjuleg. Í öllu því magni af afþreyingu, listum, íþróttum eða öðru sem við höfum aðgang að, þá þarf eitthvað sérstakegt til að auka áhrifin og jafnvel til að gera þau varanleg. En það er auðvitað bara á færi þeirra allra bestu á hverju sviði fyrir sig að leggja grunn að slíku. Oftar en ekki er nefnilega flest af því sem við fylgjumst með, á einn eða anna hátt frá degi til dags, svo svakalega venjulegt. Og ef við fáum mikið af því sama þá lærum við inn á það. Ætli það sé ekki einmitt málið hvers vegna okkur finnst að við vitum nú miklu oftar en áður hvað þau sem mestu ráða láta út úr sér. Ég held nefnilega að þetta eigi ekkert bara við um mig. Ég held að flestir séu farnir að kunna inn á þau sem eru mest í umræðunni á hverjum tíma og að þess vegna séu þau einfaldlega almennt fyrirsjáanlegri en áður. Það þarf frumleika til að breyta þessu.

Grétar Júníus Guðmundsson apríl 8, 2019 07:20