„Hún er fyrsta barnabarnið sem fermist og þetta var stórkostlegt. Mér þótti alltaf svo gaman þegar mín börn fermdust og byrjaði snemma að undirbúa fermingarnar. Vinkonur mínar hlógu að mér og sögðu að fermingarundirbúningurinn hjá mér tæki eitt ár! Það tíðkaðist ekki þá að hafa fermingarveislurnar út í bæ, þær voru haldnar heima. Svona eftirá að hyggja var þetta svakaleg vinna. Það þurfti að mála, græja og gera sem var náttúrulega ágætt líka“, segir Margrét Borgþórsdóttir flugfreyja og hlær. Hún og eiginmaðurinn Grétar Magnússon eiga þrjú börn sem fermdust fyrir margt löngu og fyrir tæpum tveimur vikum fermdist fyrsta barnabarnið, nafna ömmu sinnar, Margrét Eva Borgþórsdóttir. Hún fermdist í Vídalínskirkju í Garðabæ og veislan var haldin í golfskálanum í bænum.
Sá um skreytingar í samráði við fermingarbarnið
Hlutverk ömmu og afa þegar kemur að fermingum barnabarnanna er örugglega misjafnt. Margrét segist hafa tekið að sér skreytingarnar í veislusalnum í samráði við nöfnu sína, sem var búin að skoða skreytingar á netinu sem henni leist vel á. „Við fórum saman og völdum litina á blómunum og keyptum þau, svo fór ég með henni að velja fermingargjöfina, en mig langaði að gefa henni hlut sem hún ætti lengi, ekki peninga í umslagi. Það er gaman að minnast þess þegar við völdum blómin og gjöfina. „Mér fannst gaman hvað hún hafði ákveðnar skoðanir á hvernig hún vildi hafa þetta. Það var mjög heilbrigt og fallegt hvernig hún hugsaði það. Hún vildi vera fín og það mátti enginn klæðast hvítu nema hún. Systur hennar voru ekki í hvítu, þetta var hennar dagur og hún ætlaði að vera sú sem var í hvíta kjólnum með spennurnar í hárinu og við fórum eftir hennar óskum“, segir Margrét.
Falleg og vel skipulögð athöfn
„Ég held það hafi aldrei komið til umræðu að Margrét Eva myndi ekki fermast“, segir amma hennar. Þær hafi rætt ferminguna mikið, hún hafi hlakkað mikið til, sé þroskuð og hafi vitað hvernig hún vildi hafa hlutina. Fermingardagurinn rann upp með sól í heiði. „Foreldrarnir sáu auðvitað um ferminguna, en ég tók þátt í gleðinni í kringum hana. Athöfnin sjálf var falleg og vel skipulögð hjá séra Jónu Hrönn Bolladóttur. Jóhanna Guðrún söng tvö lög í kirkjunni og Davíð maðurinn hennar spilaði undir. Hún er náttúrulega frábær fyrirmynd fyrir unga krakka“segir Margrét hæst ánægð með fermingu sonardóttur sinnar.
Foreldrarnir stjórnuðu veitingunum
Fermningarbarnið fékk ekki að ráða alfarið veitingunum í veislunni, þó hún hafi verið með í ráðum. „Þau hafa ekki endilega yfirsýn yfir það á þessum aldri hvað fólk vill fá, eru full ung til að ráða því. Foreldrarnir stjórnuðu því, veitingarnar voru glæsilegar, eitthvað fyrir alla, frá yngstu gestunum til þeirra elstu“, segir Margrét. Hún segir að það hafi verið gott veður á fermingardaginn og góð mæting í veislunni. „Það hittust þarna margar fjölskyldur og áttu saman skemmtilegan dag og vinkonur Margrétar Evu, sem voru ekki að fermast þennan dag. Hún er skautastepla, hefur æft litsdans á skautum frá því hún var fjögurra ára. Byrjaði á því úti í Lundi í Svíþjóð, þar sem foreldrar hennar voru í námi og hefur haldið því áfram hér og er flott listskautastelpa. Hún hefur eignast góðar vinkonur í gegnum það og líka í skólanum, þannig að vinkvennahópurinn er stór. Hún er sjálf í fermingarveislum um hverja helgi“.
Hefðbundnar óskir um gjafir
En hvað með fatnað ömmu og afa í fermingarveislunni? „Ömmurnar þurfa að fá sér eitthvað huggulegt til að vera í, það er alveg nauðsynlegt“, segir Margrét hlæjandi, en bætir við að það sé ekki bráðnauðsynlegt, en gaman ef fólk hafi ráð á því. „Það fékk öll fjölskyldan ný föt þegar börnin mín fermdust“, rifjar hún upp. Amma í Keflavík fékk sér til að mynda nýjan kjól. Varðandi fermingargjafirnar þá gerði Margrét Eva óskalista. Amma hennar segir að hann hafi verið hefðbundinn, krullujárn, hátalarar í eyrun, rúmföt og hlutir í herbergið. Foreldrarnir séu með báðar fætur á jörðinni og passi að börnin séu það líka. „Hún var ekki með óraunhæfar óskir, hátt upp í skýjunum“. Henni fannst hún samt fá óvenjumikið af peningum, áður hafi það verið algengt að strákarnir fengu peninga, en stelpurnar skartgripaskrín.