Margrét Tómasdóttir hjúkrunarfræðingur minnkaði við sig vinnu síðast liðið haust og segist ekki skilja það núna, hvernig hún fór að því að vinna 100% vinnu. Hún var alltaf ákveðin í að hætta snemma „af því að ég hef alltof mörg áhugamál“, segir hún hlæjandi, þegar blaðamaður Lifðu núna hittir hana upp í hesthúsi í Garðabæ einn morgun fyrir skömmu. Fjölskylda hennar er mikið í hestamennsku og er til að mynda með litla jörð fyrir austan fjall, þar sem þau eru með um 20 hesta.
Fór beint úr flugvéinni á vaktina
Margrét vinnur núna hálft starf, sem talsmaður sjúklinga á Landsspítalanum, en gerir það í tímavinnu og hefur sveigjanlegan vinnutíma. Annar starfsmaður vinnur svo á móti henni í sömu verkefnum. Hún útskrifaðist úr Hjúkrunarskóla Íslands árið 1978 og fór í framhaldsnám til Bandaríkjanna ári síðar. Þegar hún var í náminu úti, vann hún í öllum fríum á lyflæknisdeild Landsspítalans við Hringbraut, deild 3B. „Ég fór oft beint úr flugvélinni á vaktina“, segir hún og segist vön að vinna mikið.
Unnið allan sólarhringinn
Margrét segist nánast aldrei hafa tekið samfellt sumarleyfi frá því hún útskrifaðist. Það gerðist þó einu sinni að hún tók fjögurra vikna sumarfrí. „Ég mundi ekki einu sinni símanúmerin hér, þegar ég kom tilbaka. Það var ótrúlegt að geta kúpplað sig svona út“, segir Margrét. Nú vill hún bara njóta lífsins og gera það sem henni þykir gaman. „Lífið er meira en vinna“, segir hún og það á svo sannarlega við í hennar tilviki í dag, þótt hennar líf hafi á tímabilum verið lítið annað en vinna. Hún byggði til að mynda upp hjúkrunarfræðinámið í Háskólanum á Akureyri á sínum tíma. Þá var unnið allan sólarhringinn.
Þjónustan við sjúklinga er verri
Margrét upplifði síðan sameiningu sjúkrahúsanna sem stjórnandi á Landsspítalanum og þar á eftir stöðugan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Á hverju ári kom sama tilkynnining í ágúst/sept. Skera niður því fjármagn er búið fyrir árið og skera niður áætlun næsta árs. Ég kallaði þetta „Á sama tíma að ári“ mómentið“, segir Margrét brosandi. „Það var verulega lýjandi og þreytandi að tálga þetta niður ár eftir ár ár og við sjáum afleiðingar þess í dag. Við bentum á vankantana við þetta í upphafi þessarar vegferðar en ríkisstarfsmenn hafa aldrei rétt fyrir sér, að mati stjórnmálamanna. Það er hins vegar komið í ljós að við höfðum rétt fyrir okkur. Þjónustan við sjúklingana er verri og þeir fá oft ekki þá þjónustu sem þeir þurfa og eiga rétt á. Það er bið eftir aðgerðum og líka bið eftir ýmsu þegar inná spítalann er komið“. Margrét segir að nú sé farið að bæta í aftur í heilbrigðiskerfinu og það komi í hlut nýrra hjúkrunarfræðinga að byggja kerfið upp aftur, með nýjum aðferðum og nýrri tækni. Hún segist ekki tilbúin að leggja í uppbyggingarvinnu enn á ný og þetta hafi verið réttur tímapunktur fyrir sig að minnka við sig vinnu.
Fékk toppráðleggingar
Margrét segist vera svo heppin að hafa góð lífeyrisréttindi. Hún er 63ja ára og gat hætt í fullu starfi á 95 ára reglunni. Hún gilti þar sem hún var upphaflega í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga sem var seinna sameinaður Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Hún segir það hafa verið svolítið flókið að sameina réttindin þaðan og frá Háskólanum þar sem hún kenndi um tíma. En hún hafi leitað ráða hjá LSR og gefur starfsmönnum þar toppeinkunn fyrir ráðleggingarnar. Vill endilega benda fólki á að leita þangað, þurfi það á aðstoð að halda við að skipuleggja starfslokin.
Amman vinsæl
Margrét hefur í ýmsu að snúast þessa dagana. Hún segist vera sveigjanleg manneskja og sveigjanlegt starf henti henni mjög vel og hafi líka gengið vel. „Stundum fer ég niður á spítala 2 eða 3 daga í viku. Er þar stundum í heilan dag, en líka styttri daga. Ég fer stundum í sund og stundum út að ganga með hundinn. Það þarf að sinna hestamennskunni og við skreppum iðulega austur, en þar er svo gott tölvusamband að ég get unnið þar og svo fylgist ég með nýjasta barnabarninu. Dóttir mín var að klára háskólann, þó hún væri í barnsburðarleyfi og þá var amman mjög vinsæl“, segir hún brosandi. „Ég skil ekki hvernig ég gat verið alveg í 100% starfi og ég skil alls ekki þá sem kvíða fyrir að þeir hafi ekki nóg fyrir stafni ef þeir hætta að vinna“.
Fær að taka þátt í því skemmtilega
Það er ekki nóg með þau verkefni sem Margrét telur upp hér fyrir ofan, heldur er hún í skátunum, en hún og maðurinn hennar Matthías G. Pétursson kynntust einmitt þar fyrir margt löngu. Hún er líka í fulltrúaráði Sólheima í Grímsnesi. „Aðalfundurinn er nýbúinn og leiksýningin og svo hefst menningarveislan bráðlega. Nú fær maður að taka þátt í öllu því skemmtilega sem er í gangi og er ekki alltaf á fullu að taka á einhverjum vandamálum“, segir Margrét. Hún og systur hennar þrjár eiga sér síðan afdrep suður með sjó, þar sem móðir þeirra fæddist. „Þetta er fjölskyldureitur og nú erum við að taka ýmislegt þar í gegn. Það þarf að fara í vikunni og grunna fyrir málningu. Allt kostar þetta tíma og vinnu. „Mér hefði ekki dottið þetta í hug með fullri vinnu“, segir Margrét. „Nú er meira að segja hægt að hringja í mig og fá mig til að „skutla“ börnunum í fjölskyldunni. Það var ekki hægt hér áður fyrr, en mér finnst mjög gaman að fylgjast með litlum frændum mínum og frænkum“.
Hver og einn þarf að finna sinn takt
Margrét segist líka þurfa að hugsa um heilsuna, ýmislegt fari að gefa sig í líkamanum með aldrinum. Hún sér efri árin fyrir sér með fjölskyldu og vinum í sveitinni, eða á ferðalögum, en hún vill alls ekki fara til útlanda yfir sumartímann. „ Mér finnst það hálfgerð landráð að fara erlendis á tímabilinu frá maí til september. Ísland er svo fallegt á þessum árstíma“ segir hún en bætir við að þau hjónin fari nú samt til útlanda í ágúst á þessu ári, á hestamannamót í Berlín. En hún segir að hver og einn verði að finna sitt takt, þegar kemur að eftirlaunaaldrinum. Hvað vill fólk. Vill það fara til heitari landa yfir veturinn og vera þar í 3-4 mánuði? Hún segist ekki geta hugsað sér það. „Ég myndi missa af svo miklu. Við systurnar hittumst mikið og það er ekkert afmæli, þannig að ekki sé slegið upp veislu. Ég gæti bara ekki hugsað mér að missa af þessu. En svo eru aðrir sem vilja hafa þetta allt öðruvísi. Búa jafnvel erlendis og fá börnin í heimsókn viku eða tvær í einu. Það verður hver að finna sína leið“.