Snæfríður Ingadóttir blaðamaður og rithöfundur heillaðist af Tenerife fyrir nokkrum árum og fer þangað á hverju ári og dvelur aldrei skemur en í mánuð í senn. Hún var raunar svo heilluð af eyjunni að hún ákvað að búa þar í tæpt ár ásamt eiginmanni og þremur börnum og er nýflutt heim aftur.
„Flestum finnst gott að fá smá sól og yl yfir vetrartímann svo er það bara hvað við viljum gera meðan við dveljum í sólinni. Tenerife hefur upp á margt að bjóða annað en strendur, sundlaugarbakka og sólskin. Á einum og sama deginum hægt að liggja í sólbaði, ganga í gegnum rakan regnskóg eða þurran furuskóg, skoða pýramída og höfrunga, ganga á hrauni eða í gegnum ávaxtaakra og snerta snjó. Þessi eyja hefur einfaldlega eitthvað fyrir alla,“ segir Snæfríður sem verður með námskeið um Tenerife hjá Endurmenntun HÍ nú í byrjun september. „Á þessu námskeiði er ég ekki mikið að fjalla um landafræði og sögu. Ég reyni hins vegar að gefa fólki hugmyndir að dagsferðum og segi frá fallegum gönguleiðum um eyjuna. Og auðvitað segi ég frá matarmenningu innfæddra og hvað sé best að borða.
Snæfríður segir að námskeiðið ætti að gagnast öllum vel bæði þeim sem ætla að dvelja í stuttan tíma en líka hinum sem hafa í hyggju að dvelja mánuðum saman á Tenerife. „Þó að ég hafi komið oft til Tenerife og þó að ég hafi búið þar í næstum ár er eyjan enn að koma mér á óvart. Það eru enn margir staðir sem ég á ókannaða.“
Hún segir að það hafi verið mikil upplifun að flytja með fjölskylduna. „Við sem búum á norðlægum slóðum erum svo oft að velta því fyrir okkur hvernig það væri að prófa að búa í sól og hita í heilt ár. Við ákváðum að láta slag standa og fluttum með þrjú börn. Ekkert okkar var talandi á spænsku en stelpurnar fóru beint í skóla algerlega mállausar. En þær voru ótrúlega fljótar að læra málið en það tók okkur foreldrana heldur lengri tíma að ná tökum á spænskunni. Nú eru þær altalandi á spænsku og við slarkfær. Þó það sé stutt síðan við komum heim er ég farin að sakna matarins og verðlagsins á Tenerife,“ segir Snæfríður og bætir við að fjölskyldan sé nú þegar búin að skipuleggja næstu ferð. „Við förum eftir áramót og verðum í mánuð,“ segir hún og hlær.
Snæfríður hefur skrifað tvær bækur um Tenerife, önnur þeirra ber titilinn Ævintýraeyjan Tenerife en hina bókina skrifaði hún með dóttur sinni Ragnheiði Ingu. Tenerife – krakkabókin. Sú bók er sniðug fyrir krakka á öllum aldri og líka fyrir afa og ömmu, pabba og mömmu.
Eins og áður sagði verður Snæfríður með námskeið um Tenerife hjá Endurmenntun, Háskóla Íslands. Námskeiðið verður haldið þann 4. September og er almennt verð 15.900 krónur. Á námskeiðinu verður hægt að kaupa bækur Snæfríðar á sérstöku tilboðsverði. Sjá nánar hér um námskeiðið.