Tengdar greinar

Var auglýst í Morgunblaðinu

Þegar ég hitti Úrsúlu E. Sonnenfeld í fyrsta sinn undraðist ég hversu góða íslensku þessi kona með útlenska nafnið talaði. Hún talaði svo fallegt mál og meira segja var hún með norðlenskan hreim! Ég ályktaði að hún væri tungumálasnillingur. Þá vissi ég ekki það sem ég veit núna.

,,Ég fæddist á Landspítalanum í seinni heimsstyrjöldinni eða árið 1943 og ólst upp fyrir norðan, fyrst á Siglufirði og svo á Akureyri. Svo ég er íslensk þrátt fyrir þetta ógurlega nafn,“ segir hún hlæjandi.

Stoppaður á landamærunum

Faðir Úrsúlu var gyðingur og flúði Berlín og Þýskaland á nasistatímabilinu

,,Foreldrar mínir, sem ég hélt að væru blóðforeldrar mínir, voru bæði þýsk. Faðir minn, Kurt Sonnenfeld, var frá Berlín en þar sem hann var hálfur gyðingur var honum ekki vært í Þýskalandi svo hann ákvað að flýja landið árið 1935 þá aðeins 26 ára gamall. Hann var lærður tannlæknir og ætlaði að reyna að komast til Danmerkur og fá að starfa þar. Hann var stoppaður á landamærum Þýskalands og Danmerkur af tveimur þýskum hermönnum. Hann var að sjálfsögðu ekki með rétt skilríki en annar hermannanna bað kollega sinn að fara inn í varðskýlið til að sækja eitthvað og um leið og hann hvarf sjónum þá sagði hann pabba að flýta sér yfir landamærin og bjargaði kannski lífi hans með því. Þegar á reyndi þá treystu Danir sér ekki til eða vildu ekki að láta hann hafa landvistarleyfi en hann var svo heppinn að frétta af íslensku skipi sem lá við bryggju í Kaupmannahöfn og fékk leyfi til að sigla með þeim til Reykjavíkur. Hann fékk strax vinnu sem tannlæknir í Reykjavík og fljótlega sótti hann um íslenskan ríkisborgararétt svo það var ekki hægt að vísa honum úr landi eins og þeim gyðingum sem hér voru fyrir stríð og í stríðinu.

Til Þýskalands

Móðir Úrsúlu lærði ljósmyndun í Danmörku

Móðir mín, Elisabeth, var einnig þýsk. Leið hennar að heiman var sú sama og föður míns en hún fór frá Þýskalandi til Danmerkur þar sem hún lærði ljósmyndun. Faðir hennar lést þegar systkinin voru ung eða eftir fyrri heimsstyrjöldina. Það var afar þröngt í búi hjá fjölskyldunni enda mikil fátækt í Þýskalandi þá og engin fyrirvinna í húsinu. Hún ákvað því að freista gæfunnar og fór til frændfólks síns sem bjó í Danmörku til náms í ljósmyndun. Þar sem hún var ekki gyðingur fékk hún landvistarleyfi og gat því lært og unnið þar óáreitt ólíkt föður mínum. Síðar fékk hún svo boð frá Lofti Guðmundssyni, ljósmyndara í Reykjavík, um að koma til starfa, en hann var að leita að dönskum ljósmyndurum til að vinna fyrir sig. Hún sótti um, en sagðist reyndar vera þýsk, og fékk starfið til sex mánaða en hún endaði á því að búa hér í 60 ár. Þetta var árið 1926 eða níu árum áður en faðir minn kom til landsins.

Síðan gekk hún fljótlega í Ferðafélag Íslands en það hafði faðir minn einnig gert en að vísu töluvert síðar. Leið þeirra lá svo saman upp á Snæfellsjökul og eftir það var ekki aftur snúið. Þau fluttu fljótlega á Siglufjörð en þar var mikill uppgangur á þessum árum og þau sáu tækifæri þar og fóru því frá Reykjavík. Þau giftu sig svo 2. september árið 1939 eða daginn eftir að seinni heimsstyrjöldin skall á.“

Sannleikurinn átti eftir að koma í ljós

Úrsúla talar með norðlenskum hreim enda bjó hún lengi á Akureyri

Hvar kemur þú svo inn í söguna?

,,Árið 1943 sáu þau auglýsingu í Morgunblaðinu þar sem kona, sem lá á fæðingadeild Landspítalans auglýsti eftir foreldrum fyrir ófætt barn sitt. Þau ákváðu að sækjast eftir þessu barni en þarna var móðir mín orðin 44 ára gömul en faðir minn 34 ára. Þau fóru frá Siglufirði til Reykjavíkur til að sækja mig en þá stóðu þau frami fyrir því að á sama tíma hafði fæðst lítill drengur á spítalanum sem vantaði líka heimili. Faðir minn vildi taka okkur bæði en móðir mín treysti sér ekki til að taka að sér tvö ung börn orðin þetta fullorðin. Af þessu vissi ég ekki fyrr en löngu seinna. Ég hélt að þau væru bara mamma mín og pabbi en sannleikurinn átti eftir að koma í ljós.

Við bjuggum á Siglufirði fram til ársins 1945 en þá bauðst föður mínum staða á Akureyri og það umdæmi var auðvitað mun stærra svo þau ákváðu að flytja þangað.

Dag einn þegar ég var orðin ellefu ár þá kastaðist í kekki milli mín og bestu vinkonu minnar og í slagsmálunum öskrar hún á mig að ég eigi enga foreldra – að þetta séu ekki mamma mín og pabbi. Ég brást hin versta við og hljóp grátandi heim og innti foreldra mína eftir því hvort þetta væri rétt en þau þvertóku fyrir það svo ég róaðist. Næsta dag hélt rifrildi okkar vinkvennanna áfram og þegar ég kom heim úr skólanum viðurkenndu foreldrar mínir að ég væri ættleidd og þau væru ekki blóðforeldrar mínir. Þetta var mér auðvitað töluvert sjokk en eftir á að hyggja þá vissu þetta líklega allir nema ég. Foreldrar mínir voru bæði með blá augu en ég brún!

Ég átti mjög hamingjuríka æsku og foreldrar mínir voru mér afar góðir alla tíð. Ég hefði ekki getað hugsað mér betri foreldra.“

Dönsk prestsdóttir

Úrsúla er gift Jóni Kristinssyni vélstjóra

Hverra manna ertu þá í grunninn?

,,Blóðmóðir mín var dönsk – enn og aftur er tenging við Danmörku! Hún var alin upp á prestsetri, þar sem foreldrarnir voru látnir og systkinahópnum var dreift. Hún kom ung til Íslands skömmu fyrir stríð til að vinna í danska sendiráðinu en hún festist hér á landi vegna stríðsins. Svo held ég að hún hafi farið í rosalega skemmtilegt partý á gamlárskvöld 1942, hitt þar fallegan bandarískan hermann, orðið ófrísk og níu mánuðum síðar fæddist ég eða þann 8. október. Þar sem hún var alin upp á dönsku prestsetri gat hún því ekki komið heim með lausaleiksbarn svo hún hefur orðið að gefa mig. Þess vegna auglýsti hún ófætt barn sitt í Morgunblaðinu og ég segi stundum að ég hafi verið keypt og seld eins og hver önnur bíldrusla! En þetta vissi ég ekki fyrr en ég var orðin fullorðin.

Þegar ég var orðin 42 ára beið mín bréf á aðfangadag frá lögfræðingi í Kaupmannahöfn þar sem fram koma að móðir mín væri látin og ég ætti rétt á arfi. Hún hafði aldrei gifst og ekki eignast önnur börn en mig. Hún var víst afar trúuð kona og arfleiddi Hjálparstofnun kirkjunnar í Danmörku að öllum eigum sínum. Þegar bróðir hennar fór í gegnum hennar persónulegar eigur fann hann mynd af mér, liggjandi á gæru, og nafnið mitt var skrifað aftan á myndina. Foreldar mínir höfðu skrifast á við hana og sent henni myndir af mér en einn daginn hætti hún að svara þeim þannig að þau tengsl rofnuðu. Hún hafði aldrei sagt fjölskyldu sinni frá mér og því merkilegt að bróðir hennar hafi fundið þessa mynd af mér. Hann fór til Kaupmannahafnar í Íslenska sendiráðið og þar sem hann vissi hvað ég hét var hægt að hafa upp á mér. Samkvæmt dönskum lögum eiga ættleidd börn jafnan rétt á arfi og önnur börn. Mér áskotnaðist því dágóð upphæð sem ég nýtti síðar til að kaupa mér íbúð á Spáni.“

Faðir frá Úkraínu

Hafðir þú upp á blóðföður þínum?

,,Ég komst að því fyrir tveimur árum hver hann var. Hann var bandarískur hermaður ættaður frá Odessa í Úkraínu en foreldrar hans fluttu þaðan til Bandaríkjanna. Ég hafði upp á einhverjum ættingjum þar en þau höfðu lítinn áhuga á að hafa samband við mig.“

Þannig að Úrsúla er fædd og uppalin á Íslandi, blóðmóðir hennar er dönsk, blóðfaðir ættaður frá Úkraínu en hún alin upp af Þjóðverjum.

Tvítyngd

Hvaða tungumál var notað heima hjá þér?

,,Foreldrar mínir töluðu alla tíð saman á þýsku og ég lærði ekki almennilega íslensku fyrr en ég byrjaði í skóla. Mér var strítt heilmikið því ég gat t.d. ekki lengi vel sagt íslenskt R. Faðir minn talaði ágæta íslensku því hann var alltaf í samskiptum við sjúklingana sína. Móðir mín hætti að vinna þegar þau fengu mig og við það að hætta að vinna tapaði hún málinu niður því hún þurfti sjaldan að tala íslensku. Þannig að ég er tvítyngd. Ég fór þó ekki til Þýskalands fyrr en ég var orðin 14 ára og ég finn enga sérstaka tengingu við landið þó ég eigi eitthvað af frændfólki þar úti. Föðuramma mín flutti til okkar 1949 og bróðir pabba flutti til landsins skömmu eftir 1950.

Þjóðverjar eiga margir erfitt með að trúa því að ég sé ekki þýsk. Tala málið og ber þetta þýska nafn! Einu sinni lenti ég í því að slasa mig þegar ég var á ferðalagi í Þýskalandi og þurfti að fara á spítala en starfsmennirnir voru vissir um að ég væri frá Berlín. Ég reyndi að sannfæra þá um að ég væri íslensk en ég var ekki með vegabréfið á mér svo það gekk nú ekki vel. Það var ekki fyrr en einn læknirinn sagðist þekkja íslenskan lækni og sá hafði lyktað illa út af einhverjum fiski sem hann borðaði mikið af. Þegar ég gat útskýrt að þetta væri harðfiskur og hvað hann væri þá trúðu þau mér loksins.“ 

Úrsúla sótti nokkur námskeið í útskurði og afraksturinn má sjá á þessum vegg

Enn í tveimur störfum

Úrsúla bjó á Akureyri fram til ársins 1966 og ári síðar hóf hún störf á Veðurstofu Íslands og starfaði þar til 2008. Þrátt fyrir að vera orðin 76 ára gömul hefur hún nóg að gera og vinnur enn á tveimur stöðum.

,,Ég er með leiðsögumanna réttindi og tek að mér bæði þýsku- og enskumælandi hópa. Ég fékk réttindi fyrir þýska hópa árið 1974 en enska hópa 2004. Ég vinn fyrir tvær skrifstofur hér á landi og eina skrifstofu í Þýskalandi. Ég tek núna eingöngu á móti gestum sem koma með skemmtiferðaskipum. Ég fer með hópana um allt land nema um Vestmannaeyjar og Vestfirði en þar er ég ekki nógu kunnug svo þar bjóðast staðarleiðsögumenn. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt starf þar sem ég kynnist fullt af skemmtilegu fólki og fæ að ferðast um landið á launum! Ég fer í um það bil 50 ferðir á hverju sumri, byrja í maí og enda í lok september.

Þá tekur við önnur vinnutörn en ég er búin að sitja yfir í prófum í Háskóla Íslands síðan ég hætti á Veðurstofunni. Það eru vinnutarnir í maí og í desember.

Ég má vera með u.þ.b. 1.2 milljónir á ári áður en skerðing Tryggingastofnunar hefst. Ég passa að hafa þetta alltaf innan rammans.“

Þegar við Úrsúla mæltum okkur mót þá kom í ljós að hún var frekar tímabundin þar sem hún var að fara í skólann þann daginn og svo var hún á leið úr landi ásamt manni sínum Jóni Kristinssyni vélstjóra.

Mannréttindi að mega vinna

,,Ég er að læra spænsku eins og ég er búin að gera undanfarin ár. Við hjónin keyptum okkur íbúð fyrir sunnan Alicante á Spáni árið 2001. Ég notaði arfinn frá Danmörku til þess. Við förum þangað yfirleitt tvisvar sinnum á ári og nú förum við í byrjun febrúar og komum í lok apríl til baka því ég þarf að byrja að vinna í byrjun maí, fyrst við yfirsetu í HÍ og svo sem leiðsögumaður. Svo förum við aftur út í október og erum í tvo mánuði eða þangað til ég byrja að sitja yfir í HÍ.

Mér finnst gaman að geta unnið og þó að ég sé orðin 76 ára og löglegt gamalmenni þá líður mér bara alls ekki eins og gamalli konu. Meðan heilsan er í lagi og mann langar til að vinna þá eru það nú bara mannréttindi að mega það. Aldur á ekki að vera fyrirstaða. Ég held líka að það sé bara gott fyrir heilann að hafa eitthvað fyrir stafni – það er alla vega gott fyrir geðheilsuna.“

 

Ritstjórn janúar 31, 2020 07:57