Kolröng mynd dregin upp af eldra fólki í fjölmiðlum

Grai herinn logoFjölmiðlar draga upp afar einhliða og leiðinlega mynd af eldra fólki, þá sjaldan þeir fjalla um það“ segir Ólafur Kristófersson á Facebook síðu Gráa hersins.  Hann segir að þetta eigi einkum við um sjónvarpsstöðvarnar RÚV og Stöð tvö. „Við erum sýnd, prjónandi, spilandi á spil, haltrandi með stafi og göngugrindur, og dansandi eftir æva gömlum harmónikulögum. Ekki það að það sé neitt að því að prjóna, spila á spil, eða dansa gamla valsa og polka. En þetta er svo kolröng mynd. Við erum jafn mismunadi hópur og unga fólkið, höfum til dæmis, amk. þau yngri, miklu meiri áhuga á rokktónlist, pönki og diskó, en  gömlum harmónikuslögurum. Meirihluti okkar er í fínu formi, bæði líkamlega og andlega“.

Þessi orð eru rifjuð hér upp, þar sem myndefni með frétt á RÚV í gær, var dæmigert fyrir þá mynd sem dregin er upp af eldra fólki.  Á Facebook síðu Gráa hersins var bent á þetta og þar sagði. „Þarna var verið að segja frá afar fróðlegu málþingi sem haldið var í dag um áskoranir á vinnumarkaði vegna hækkandi lífaldurs og mikið fjallað um getu og vilja fólks til að halda áfram á vinnumarkaði, t.d. með sveigjanlegum starfslokum“.  Myndirnar með fréttinni hafi hins vegar allar sýnt fólk á níræðis og tíræðisaldri, fólk með göngugrindur eða fólk að ganga með aðstoð á hjúkrunarheimilum.  „Er verið að fjalla um sveigjanleg starfslok fyrir þetta fólk, spyr fólk skiljanlega“, er spurt á Facebook síðu Gráa hersins og menn eru hvattir til að láta í sér heyra við fjölmiðla um mál eins og þessi.

 

Ritstjórn apríl 27, 2016 14:48