Tregða við að breyta hárgreiðslunni

Lilja Sveinbjörnsdóttir

Lilja Sveinbjörnsdóttir

Lilja Sveinbjörnsdóttir hárgreiðslumeistari, hefur starfað við fagið í 30 ár.  Hún segir að konur séu duglegri að prófa sig áfram með klippingar og háraliti þegar þær séu yngri.  „Ég held að flestar séu búnar að prófa ýmislegt á yngri árum en svo er eins og þær verði íhaldssamari með aldrinum“, segir hún. Hún segir að ungar konur í dag séu eiginlega allar með sítt hár. Þannig sé tískan.

Sextugar konur með millisítt hár

Tískan skipti alltaf máli. Þegar bandaríska leikkonan  Meg Ryan varð áberandi, vildu alltar konur hafa stuttar klippingar eins og hún. Lilja segir að sextugar konur í dag, séu gjarnan með millisítt hár, eða stutt. Konur sem séu komnar yfir sjötugt, vilji yfirleitt hafa hárið stutt og eigi þá auðveldara með að ráða við það. En frá þessu séu undantekningar, sem betur fer, því það sé bábilja að eldri konur geti ekki haft sítt hár.  Hún nefnir konu sem er 74ra ára, með ljóst, þykkt og sítt hár. Henni finnist verra að eiga við það styttra.

Vilja ekki að þær láti klippa sig

Það sé líka til í dæminu að eiginmenn eða makar hafi áhrif á hvernig konur láti klippa sig. Það  sé algengt að eiginmenn kvenna með sítt hár, vilji ekki að þær klippi sig stutt.  En ýmsar konur séu alveg til í að prófa eitthvað nýtt, þó þær séu komnar yfir sjötugt. Hún nefnir sem dæmi konu sem hafi verið búin að prófa alla mögulega háraliti og þó hún sé ekki lengur að lita hárið rautt eða fjólublátt, þá vilji hún til dæmis prófa nýja liti af strípum og stytta hárið svolítið öðru hvoru.

Hárið og fötin fylgjast að

En með aldrinum skapi hver kona sér ákveðinn stíl í hári, alveg eins og  þær skapi sér fatastíl. Á sama hátt og konur vilji ekki kúvenda sínum fatastíl, vilji þær ekki heldur kúvenda hárklippingunni. Það sé athyglisvert að til dæmis listakonur sem eru djarfar í fatavali, séu það líka þegar kemur að hárinu. Séu jafnvel með hárið rakað öðru megin. Þannig fylgist þetta að og fari kona að gera eitthvað verulega róttækt í hárklippingunni, fylgi fatastíllinn gjarnan með.

Ritstjórn júní 3, 2016 09:14