Brúðarkjólar fyrir eldri konur

Sumarið er tími brúðkaupa og mikið stendur til þegar unga fólkið er að gifta sig. Það er minna fjallað um eldri brúðhjón, sem hugsanlega nota líka sumarið til að láta pússa sig saman. Vefurinn Sixty and me, var nýlega með grein um brúðarkjóla fyrir eldri konur og fer greinin hér á eftir í örlítið styttri útgáfu en á bandaríska vefnum.

Ertu að giftast í fyrsta sinn, eða hefurðu áður gengið uppað altarinu? Eða ertu kannski að endurnýja heitin með elskunni þinni? Sama hver ástæðan er, þarftu brúðarkjól við hæfi á þessum degi.

Sú staðreynd að þú ert eldri brúður, þýðir ekki að þú þurfir að leggja minna í  brúðarkjólinn. Margir kjólar eru hreinlega hannaðir með eldri konur í huga, án þess að þeir séu litlausari en venja er með brúðarkjóla.

Auðvitað breytist líkaminn með aldrinum en fyrir konur sem eru ungar í anda er sjálfsagt að skarta sínu fegursta á brúðkaupsdaginn.

Lítum á nokkur atriði sem vert er að huga að þegar  brúðarkjóllinn er valinn.

Hvítt eða ekki hvítt

Mörgum finnst ekki við hæfi að eldri brúður klæðist hvítu, en þú þarft ekki að vera feimin við að vera í hvítum kjól  í brúðkaupinu eingöngu af því þú ert eldri brúður, eða vegna þess að þetta er ekki þitt fyrsta brúðkaup. Hvítt er hinn hefðbundni brúðarkjóla litur og ef þig langar að vera í hvítu skaltu einfaldlega vera í hvítu.

Ef þú vilt ekki vera í hvítum brúðarkjól, koma margir litir til greina. Til dæmis  Off white, grátt eða jafnvel gulllitt. Satt að segja getur þú valið að vera í brúðarkjól í hvaða lit sem hentar þínum smekk, persónuleika og húðlit.

Notaðu eigin smekk

Það eru engin takmörk fyrir því hvernig brúðarkjóllinn getur verið. Ekki láta nokkurn mann segja þér að þú þurfir að vera í brúðarkjól í sérstökum stíl, vegna þess að þú ert eldri brúður.

Þú ert komin á þann stað í lífinu að þú hefur ákveðnar skoðanir og smekk og veist hvað fer þér vel. Þú vilt vera í brúðarkjól sem sýnir sjálfsöryggi og fágun.

Hugmynd: Hátt mitti og mjúkar línur fara eldri konurm oft vel, öfugt við bosmamikla kjóla eða prinsessukjóla.

Hversu síður á kjóllinn að vera?

Brúðarkjólar þurfa ekki alltaf að vera alveg síðir. Þeir geta verið allt frá því að vera mini kjólar til þess að vera gólfsíðir og allt þar á milli.  Ef þú hefur fallega fætur, hvers vegna ekki að vera í hnésíðum kjól? Veldu þá sídd sem þér finnst best að vera í.

Hugmynd: Kjóll niður á miðja leggi er klassískur og flottur ef þú ert lágvaxin og eilítið í þyngri kantinum. Það er líka upplagt að sýna flotta skó, ef þú ert í styttri kjól.

Hvað með ermarnar?

Þú þarft ekki að fela handleggina – nema þú viljir það. Það er engin ástæða til að hylja handleggina eingöngu vegna þess að þú ert eldri kona.

En ef þú vilt hafa ermarnar síðar, þá eru alls kyns möguleikar í stöðunni. Það eru til kjólar með fallegum blúnduermum í stíl við kjólinn og svo er líka hægt að vera í sérstökum jakka utanyfir kjólnum.

Hugmynd. Kvartermar eru mjög flottar og sýna bæði hendur og úlnliði.

Falleg hálsmál

Það er hugsanlegt að þú viljir ekki áberandi fleginn kjól í brúðkaupinu. En hér gildir líka að ef þú ert stolt af barminum og vilt sýna hann, skaltu gera það.

Hugmynd: Skorið hálsmál eða ávöl lína í hálsinn er yfirleitt mjög falleg á brúðarkjól.  Kjóll sem tekinn er saman í hálsinn, eða kjóll með blúndukraga geta líka verið góður kostur fyrir eldri brúði.

Hugsaðu um gamaldags kjól

Það hentar eldri brúði vel að vera í gamaldags kjól, sem sækir hugmyndir að hönnun í flotta kjóla frá þriðja og fjórða áratug síðustu aldar.  Kjólarnir undirstrika fegurð og þokka brúðarinnar á brúðkaupsdaginn.

Hugmyndi; Margir kjólar í gömlum stíl, eru hannaðir með blúndum og pallíettum sem gefa kjólnum mjúkan og rómantískan blæ.

Láttu hjartað ráða för

Að velja hinn fullkomna brúðarkjól getur verið erfitt þegar þú ert að gifta þig á efri árum. Horfumst í augu við það,  að flestir sýna stúlkur á þrítugsaldri í brúðarkjólunum og það getur verið erfitt að samsama sig þeim. En láttu hjartað ráða og ekki láta neinn segja þér að þú þurftir að minnka kröfurnar vegna aldurs. Veldu kjól sem þér líður vel í og þá líður þér eins og drottningu í brúðkaupinu.

 

Ritstjórn júlí 2, 2020 16:13