Ágúst Ólafur Ágústsson alþingismaður Samfylkingarinnar setti eftirfarandi færslu á Facebook í dag. Hún fjallar um stöðu eldra fólks á Íslandi og er afar fróðleg. Færslan birtist hér orðrétt:
Í fyrra samþykkti Alþingi tillögu mína um gerð umfangsmikillar skýrslu um stöðu eldri borgara. Í gær birtist loks skýrslan upp á 34 blaðsíður en í henni er mikið af góðum upplýsingum um þennan mikilvæga hóp. Ég er búinn að draga fram nokkra punkta en þetta er langt í frá tæmandi (ég veit að þetta er langt en skýrslan er enn lengri og þetta er málaflokkur sem jafnaðarmenn láta sig mikið varða):
1. Um 44.000 Íslendingar eru nú eldri en 67 ára. Eftir 15 ár verða eldri borgarar orðnir um 72.000 talsins sem er fjölgun upp á 64%. Þá verður fimmti hver Íslendingur eldri en 65 ára.
2. Fjöldi eldri borgara mun tvöfaldast á næstu 30 árum.
3. Atvinnuþátttaka 65 ára og eldri á Íslandi er sú langhæsta í Evrópu. Hún er um fimm sinnum hærri en að meðaltali hjá ESB, er fjórum sinnum hærri en í Danmörku og er þrisvar sinnum hærri en í Svíþjóð og Noregi.
Tekjur eldri borgara
4. Tæplega 6.000 eldri borgarar voru með tekjur undir 293 þús kr. á mánuði árið 2018.
5. Um 15% eldri kvenna hafa tekjur undir 293 þús kr. á mánuði og um 9% eldri karla.
6. Ellilífeyrir án skerðinga 2018 var 239.494 kr. á mánuði og full heimilisuppbót til þeirra sem búa einir (eru tæplega 10.000 eldri borgarar af 44.000) var 60.516 kr. og fá þeir því samtals, 300.010 kr.
7. Að hækka grunnupphæð ellilífeyris (sem var um 240 þús kr. á mánuði árið 2018) um 3% myndi kosta um 3 milljarða kr. Að hækka ellilífeyrinn um 5% myndi kosta rúmlega 5 milljarða kr. 10% hækkun kostar rúma 10 milljarða kr.
8. Hlutfall ellilífeyris án heimilisuppbótar af meðallaunum 2018 er 45%.
9. Meðalheildartekjur 67 ára og eldri eru um 500.000 kr. á mánuði.
10. Meðaltal eigið fjár (eignir-skuldir) eldri borgara var tæpar 52 milljónir kr.
11. Hið opinbera ver um 4,2% af landsframleiðslu til eldri borgara.
12. Heildarútgjöld til eldri borgara skiptast í raun jafnt á milli lífeyrissjóða og hins opinbera.
13. Sé einungis litið til ellilífeyris þá greiddu lífeyrissjóðirnir 61% af heildarellilífeyri á Íslandi en almannatryggingar 39%.
Aukin skattbyrði hjá eldri borgurum
14. Undanfarin 10 ár hefur skattbyrði aukist hjá öllum tekjuhópum aldraðra. Skattbyrðin hefur aukist mun meira hjá tekjulægstu hópum eldri borgara.
15. Allir aðrir bótaflokkar ellilífeyrisþega en uppbót á lífeyri vegna kostnaðar, uppbót vegna reksturs bifreiðar og barnalífeyrir eru skattskyldir og staðgreiðsluskyldir.
16. Lífeyrisgreiðslur úr almenna lífeyrissjóðakerfinu eru skattlagðar eins og aðrar launatekjur.
Aukinn kostnaðarþátttaka eldri borgara í lækniskostnaði
17. Kostnaðarhlutfall sem eldri borgarar greiða sjálfir fyrir lækniskostnað hefur aukist undanfarin 5 ár, úr 11% og í 16%.
18. Ef einungis eru skoðuð útgjöld vegna klínískra sérgreinalækna sést að kostnaðarhlutfall eldri sjúklinga fór úr 16% og í 21%.
19. Hlutfall Sjúkratrygginga Íslands í útgjöldum vegna sjúkraþjálfunar ellilífeyrisþega hefur þó hækkað úr 78% árið 2015 í 90% árið 2019.
20. Þátttaka sjúkratrygginga í almennum lyfjakostnaði sjúkratryggðra einstaklinga hefur haldist svipuð undanfarin ár.
Biðlistar lengjast
21. Á landsvísu voru 2.795 hjúkrunarrými árið 2019; þar af voru 139 nýtt af einstaklingum yngri en 67 ára.
22. Í árslok 2018 var aldursdreifing íbúa hjúkrunarheimila þannig að 75–78% íbúa voru 80 ára og eldri, 18% voru á aldrinum 67–69 ára og 3–7% voru yngri en 67 ára.
23. Fjöldi 67 ára og eldri á landinu árið 2019 var um 44.000 og hlutfall aldraðra sem búa langdvölum á hjúkrunarheimilum því 6% sé miðað við þann aldur en 16,8–17,4% sé miðað við 80 ára og eldri sem voru 12.478 á landinu 2019.
24. Miðgildis-dvalartíminn á hjúkrunarheimilum er um 2 ár.
25. Fjöldi einstaklinga á biðlista eftir hjúkrunarrými er 408 árið 2020, var 395 árið 2019, 361 árið 2018 og 297 árið 2017. Fjöldi á biðlista var um helmingi styttri árið 2013.
26. Meðalbiðtími eftir hjúkrunarrýmum var 131 dagur árið 2019, var 125 dagar árið 2018, 113 árið 2017. Biðtíminn var um helmingi styttri árið 2011. Miðgildi biðtíma hefur einnig aukist undanfarin ár og orðið helmingi lengri 2019 en hann var 2013.
27. Árið 2019 fengu 975 manns hjúkrunarrými en 874 árið 2018, 862 árið 2017 og 776 árið 2013.
Kostnaður við hjúkrunarrými allt að 440.000 kr fyrir eldri borgarann
28. Ef ellilífeyrisþegi dvelst lengur en mánuð samfellt á sjúkrahúsi fellur lífeyrir hans og bætur honum tengdar niður ef dvölin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna 12 mánuði. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar.
29. Þeir sem hafa misst bætur sínar frá Tryggingastofnun ríkisins og hafa tekjur undir 118.591 kr. á mánuði geta átt rétt á ráðstöfunarfé. Ráðstöfunarfé er að hámarki 77.084 kr. á mánuði og er það tengt tekjum viðkomandi.
30. Hafi heimilismaður tekjur umfram 98.892 kr. á mánuði, eftir skatt, tekur hann þátt í dvalarkostnaði allt að 438.747 kr. á mánuði.
31. Kostnaðarþátttaka eldri borgara af heildartekjum vegna hjúkrunarrýmis hefur aukist.
32. Þá eru mjög fróðlegar upplýsingar í skýrslunni m.a. um heimahjúkrun, dvöl á hjúkrunarheimilum, færnismat, umönnun á vegum ættingja, staða heilabilaðra og heimilislausra eldri borgara og hvernig félagslegri aðstoð er háttað gagnvart eldri borgurum og þar með talið einmannaleika í þessum hópi (annað þingmál sem ég fékk einnig samþykkt á kjörtímabilinu var sérstaklega um þunglyndi eldri borgara en sú skýrsla liggur ekki enn fyrir). Þá eru ýmsar upplýsingar lagðar fram um stöðu eldri borgara í öðrum löndum.
Ég vil annars hvetja allt áhugasamt fólk um stöðu eldri borgara að kíkja á sjálfa skýrsluna. Ég bind miklar vonir að upplýsingar af þessu tagi muni eiga þátt í því að við getum búið fleirum áhyggjulaust ævikvöld.