„Þorláksmessan var stór dagur hjá fjölskyldunni, þegar ég var lítil“, segir Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona. Hún er einbirni og þegar hún var barn bjuggu engir úr fjölskyldum foreldra hennar í Reykjavík, nema yngsti föðurbróðir hennar Þórarinn, og Guðlaug konan hans, en þau voru barnlaus. „Við vorum mikið saman öll fimm, ég var bara þeirra barn líka“, segir Ragnheiður þegar hún rifjar þetta upp. Foreldrar hennar Steindór Hjörleifsson og Margrét Ólafsdóttir voru bæði leikarar. „Á Þorláksmessu var alltaf generalprufa í Þjóðleikhúsinu, fyrir frumsýningu jólaleikritsins á annan í jólum. Það var fastur punktur í minni barnæsku að fara á hana, það mátti mikið út af bera svo við færum ekki“, segir hún.
Jólaskrautið fer ekki upp fyrr en á Þorláksmessu
„Við skreyttum aldrei fyrr en á Þorláksmessu og ég hef haldið þeim sið. Ég set jólaljósin upp á aðventunni, kveiki á aðventukransi og set upp jóladagatalið sem mamma saumaði, en sjálft jólaskrautið og jólatréð fara ekki upp fyrr en á Þorláksmessu. Fólk er farið að skreyta jólatrén um miðjan mánuð, jafnvel fyrr. Mér finnst ljósin dásamleg, þau lýsa upp skammdegið, veita birtu og yl, en ég vil ekki að jólaskrautið sé orðið hversdagslegt þegar jólin koma, því með þeim og jólatrénu kemur hátíðin, einhver leyndardómsfullur heilagleiki“, segir Ragnheiður.
Skatan best ef maður gat hvorki andað né talað
„Svo fórum við alltaf í skötuboð á Þorlákmessuskvöld til Gullu og Ninna., rifjar Ragnheiður upp „Mamma var úr Vestmannaeyjum og borðaði ekki skötu fyrr en eftir að hún kynntist pabba. Eftir að Þorgeir elsti bróðir pabba flutti í bæinn með sína fjölskyldu bættust þau í hópinn. Skatan átti helst að vera svo kæst að maður gat hvorki andað né talað“, segir hún brosandi.“ Fullorðna fólkið fékk lítið brennivinsstaup með, en það var mjög pent. Þetta var alveg óskaplega skemmtilegt, mikið hlegið og skrafað og spenna og gleði í loftinu“.
Fötin fóru beint í þvottavélina
Foreldrar Ragnheiðar eru fallin frá og sömuleiðis Gulla og Ninni. Eftir að Ragnheiður missti manninn sinn Jón Þórisson, hefur hún haldið jólin með börnunum sínum, Margréti Dórotheu, Steindóri Grétari og þeirra fólki. Steindór býr í Berlín ásamt sinni konu en komst ekki heim fyrstu jólin í Covid. Þau Ragnheiður hafa alltaf borðað saman skötu á Þorláksmessu, en skatan hefur ekki freistað Margrétar. Ragnheiði finnst mikilvægt að halda í hefðirnar og Steindór sem vildi vera maður með mönnum, þurfti að herða sig upp til að borða skötuna þegar hann var lítill og fá sér bara lítið í fyrstu. „Ég held að þetta sé eins og með margt annað, ef þú hefur það í þér að vera skötufíkill gerist það hratt. Svo geta aðrir ekki vanist þessu, þola ekki lyktina. Maður fór alltaf beint heim úr skötuboðinu, setti fötin í þvottavélina og fór í bað til að losna við lyktina“, segir hún.
Greinin var uppfærð 14.desember 2022