„Auður þjóðarinnar er ekki síður lífshamingjan sem felst í sjálfskapaðri listrænni upplifun frekar en að vera eingöngu í hlutverki neytandans,” segir Róbert Þórhallsson, skólastjóri Tónlistarskóla FÍH. „Þegar fólk sem komið er á aldur vill upplifa æskudrauminn að læra tónlist eru tækifærin því miður frekar fá.
Stefna sveitarfélaga og ríkis virðist vera að veita krökkum og unglingum tækifæri til náms sem er auðvitað mjög gott. Flestir tónlistarskólar á höfuðborgarsvæðinu eru með þjónustusamning við viðkomandi sveitarfélag en skólunum eru settar ákveðnar skorður varðandi aldurssamsetningu nemenda.”
Róbert segir að skólahljómsveitir séu hugsaðar fyrir krakka til 15 ára aldurs og nemendur sæki svo aðra skóla í framhaldinu.
„Nú er í vinnslu skýrsla um framtíðarsýn Reykjavíkur í tónlistarkennslu og þar er stefnan að beina kennslukvótanum sem mest á 18 ára og yngri. Um leið og þessi skýrsla er að líta dagsins ljós fékk MÍT (menntaskóli í tónlist) að heyra frá ríkinu að framvegis verði nemendur að ljúka námi fyrir 27 ára aldur. Svo allar aðgerðir sveitarfélaga og ríkis virðast gefa skýr skilaboð, tónlist er bara fyrir suma.
Það sem stendur eftir eru þeir valkostir fyrir fólk að sækja námskeið eða einkatíma í heimahúsum. Það er ágætis framboð á námskeiðum, t.d. býður tónlistarskóli Sigurðar Demetz upp á 12 vikna námskeið í söng og Gítarskóli Íslands hefur einnig boðið uppá á styttri námskeið, svo eitthvað sé nefnt.
Síðan er á döfinni að færa hluta af starfi Tónlistarskóla FÍH í þessa átt, þ.e.a.s. endurmenntunar- og fullorðinsdeild ef stefna borgarinnar gengur eftir í einu og öllu.
Á hinn bóginn má kannski velta upp þeirri spurningu hvort það henti einstaklingum á miðjum aldri að sækja fullt tónlistarnám. Námskeiða- og einkatímaleiðin er kannski ekki svo slæmur kostur. Vel framsettar og samanþjappaðar upplýsingar til úrvinnslu á lengri tíma eru hlutir sem þroskað fólk er vant að vinna með. Ég tala nú ekki um bindinguna sem aukafögin í tónlistarskólum fela í sér.En það breytir þó ekki þeirri staðreynd að tónlistar- og annað listnám ætti að vera aðgengilegt fólki á öllum aldri. Því auður þjóðarinnar er ekki síður lífshamingjan sem felst í sjálfskapaðri listrænni upplifun, frekar en að vera eingöngu í hlutverki neytandans,” segir Róbert.
Draumurinn að læra á trommur rættist
Jóhann Vilhjálmsson er fæddur 1955 en hann lét drauminn rætast og fór í tónlistarnám á fullorðinsaldri. Hann langaði alltaf að spila á trommur í skólahljómsveitinni í Mýrarhúsaskóla þegar hann var 12 ára en var síðastur þegar kom að því að velja hljóðfæri. „Eina hljóðfærið sem var eftir var risastór túba. Ég gafst fljótlega upp á því hljóðfæri því ég var svo lítill og í þá daga voru krakkar ekki keyrðir í skólann. Þetta var samt 10 km leið,” segir Jóhann og hlær en draumurinn um trommurnar dó aldrei. Jóhann er einn af stofnendum Blúsfélags Reykjavíkur og skömmu síðar varð Blúshátíð Reykjavíkur til sem hefur verið haldin árlega frá 2004 svo Jóhann, sem oftast er kallaður Jói byssusmiður, er virkur í tónlistarlífi blúsáhugamanna á Íslandi.
Nú er Jóhann í djasshljómsveit með þremur öðrum sem allir eru nemendur í tónlistarskóla FÍH eins og hann. „Þeir eru allir yngri en ég en við náum mjög vel saman,” segir Jóhann. „Hljómsveitin heitir „Cadillac jazz band” og við komum saman á hverjum sunnudagsmorgni og það eru bestu morgnar sem við eigum. Við æfum niðri í íslenska Cadillac klúbbnum í Súðarvogi en þar streymum við tónlist frá ýmsum hljómsveitum einu sinni í viku.”
Jóhann segir að þegar Cadillac klúbburinn hafi verið starfræktur í nokkur ár hafi allt í einu verið komin tvö trommusett í húsnæðið. „Þá voru hæg heimatökin og ég fór að fikta við trommurnar. Svo þegar ég fékk hvatningu frá félögunum lét ég slag stand og þegar ég varð sextugur ákvað ég að fara bara í formlegt nám í Tónlistarskóla FÍH. Síðan eru liðin fjögur ár og ég skemmti mér sífellt meira,” segir Jóhann og brosir. Hann segist þurfa að æfa sig miklu meira en aðrir af því hann sé mörgum áratugum á eftir en lætur það ekkert á sig fá.
„Nú hef ég tímann til að æfa mig nógu mikið því þetta er það skemmtilegasta sem ég geri,” segir Jóhann alsæll með að hafa getað látið drauminn rætast þótt miðjum aldri sé náð.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.