Fjögurra klúta sumarbók

Áróra Gústafsdóttir markaðsstjóri hjá Forlaginu, hefur í nógu að snúast, þegar tíðindamaður Lifðu núna lítur við hjá henni. Það er greinilega mikið um að vera í bókaútgáfunni allan ársins hring. Árelía féllst  samt á að velja með okkur sumarbók vikunnar sem heitir Ljós af hafi og er eftir M.L. Stedman. Sagan er um hvernig báti skolar á land á afskekktri eyju úti á reginhafi og um borð í bátnum eru dáinn maður og grátandi barn. Upp koma áleitnar spurningar um hvað er rétt og hvað er rangt.

Áróra Gústafsdóttir

Áróra Gústafsdóttir

Hjartnæm saga

Höfundurinn er áströlsk kona og þetta er hennar fyrsta bók. Í erlendum blöðum er bókinni lýst sem hjartnæmri, grípandi, og ljúfri svo bara þrjú orð séu nefnd. Þýðandinn er ekki af verri endanum, en Guðni Kolbeinsson þýddi. „Þetta er fjögurra klúta bók“, segir Áróra. Hún segir að bókin sé að fá ákaflega gott umtal á samfélagsmiðlunum eins og til dæmis á Facebook. „Þar segir fólk að sagan sé yndisleg“, segir hún.

Úr fötunum í menninguna

Áróra hefur starfað sem markaðsstjóri hjá Forlaginu í eitt ár. Áður hafði hún rekið verslunina Dressman í 10 ár. Þar áður var hún fjármálastjóri hjá Vélasölunni. En hvernig stóð á að hún færði sig svo yfir í bókaútgáfuna? „ Ég fór að læra listfræði árið 2010 og útskrifaðist 2013. Ég fór þannig úr fötunum og yfir í menninguna“, segir hún ánægð með skiptin.

Ritstjórn júlí 10, 2015 14:17