Barnabörnin vita ekki til hvers öskubakkar eru

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi

Ég var að taka til í skápum á dögunum og fann þá gamlan öskubakka sem hafði verið stofustáss ofan á útsaumuðum dúk á fyrstu búskaparárunum mínum. Ég henti honum. Barnabörnin vita ekki til hvers öskubakkar eru, alveg eins og ég missti af tilvist spýtubakkanna sem einu sinni þóttu sjálfsagðir á hverju heimili.

Elsti bróðir minn fór snemma að reykja, foreldrum okkar til mikillar mæðu. Ég ákvað að auka ekki á þessa mæðu þeirra og hélt mig frá tóbaki. Þvílík heppni fyrir mig. En samt fékk ég minn skammt í gegnum óbeinar reykingar tengdum leik og starfi. Margir af samstarfsmönnum mínum keðjureyktu og eftir vinnudaginn var stærðar öskubakki í eina hvíldarkróknum okkar alltaf yfirfullur af stubbum, bæði sígarettustubbum og vindlastubbum. Fötin okkar allra voru angandi eftir tólf tíma vinnudag. Reykingafólkinu fannst þetta allt í lagi enda sjálfsögð mannréttindi að fá að reykja hvar og hvenær sem var. Ég bar harm minn í hljóði, enda fanatík að láta sig dreyma um  að vinna í reyklausu umhverfi.

Í kringum 1980 var ég boðin í teiti á heimili hjartalæknis í Bandaríkjunum. Þegar við komum inn fengum við að vita að reykingar væru ekki leyfðar á heimili hans. Hann vildi heldur ekki gera hjartaaðgerðir á reykingafólki. Það væri tímasóun. Ég man að mér fannst þetta nú dálítið langt gengið, ekki mín vegna heldur vegna þeirra sem reyktu. Þetta var maður á undan sinni samtíð. Þetta hafði áhrif á mig og ég fór að prófa mig áfram. Setti öskubakkana mína upp í skáp og dró þá ekki fram nema ég væri beðin um það. Næsta skref var að segja gestum að mér þætti vænt um að þeir reyktu ekki inni hjá mér. Nú reynir aldrei á þetta, jafnvel ekki í líflegustu veislum.

Foreldrar mínir voru með það á hreinu að reykingar væru skaðlegar. Ég veit ekki hvernig þau fengu þá vissu strax í kringum 1960, því enn lætur fólk sem það viti ekki hvaða áhætta fylgir reykingum. Það fer jafnvel í mál við sígarettuframleiðendur  í Bandaríkjunum vegna þess skaða sem það hafi orðið fyrir vegna reykinga í fullkominni fáfræði um áhættuna!

Nú er svo komið að ég þekki eiginlega enga sem reykja og er orðin ofurnæm fyrir reykingalykt, enda líða vikur og mánuðir án þess að ég hitti einstakling sem reykir. Ég vona að það komi ekki bakslag í þessa þróun og að þeir öskubakkar sem enn eru til í landinu endi annað hvort í Endurvinnslunni eða á Þjóðminjasafninu.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir apríl 25, 2021 12:16