Að komast í blöðin

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég sýni stundum erlendum ferðamönnum íslensk fréttablöð og bendi þeim m.a. á minningargreinarnar. Þær vekja alltaf athygli og ekki síst vegna þess að þú þarft hvorki að vera ríkur eða frægur til þess að um þið sé skrifað, jafnvel nokkrar blaðsíður. Og það ókeypis! Í augum gestsins er þetta áhugavert fyrirbæri. Eina skilyrðið er að þú sért farinn yfir móðuna miklu.

Ég á vinkonu sem segist kaupa Morgunblaðið bara vegna minningargreinanna. Sjálfsagt gera margir það. Hún les þessar greinar óháð því hvort hún þekkir viðkomandi eða ekki. Norðmaðurinn, sambýlismaður minn, kallar þetta í háði „fjölskyldufræði“. Hann heldur því fram að við Íslendingar höfum næstum sjúklegan áhuga á fjölskyldutengslum og hver sé frændi og frænka hvers. Minningargreinarnar eru mikilvægar í þessum fræðum.

Ég hef þó nokkrum sinnum skrifað minningargreinar um einstaklinga sem hafa skipt mig máli. Mér finnst það alltaf erfitt. Við erum öll mannleg og breisk. En hvað skrifar maður? Lætur maður hinn látna fá það óþvegið eða dregur maður fram það jákvæða. Flestir velja síðari leiðina, með einstaka undantekningum þó. Íslenskur sérfræðingur á þessu sviði sagði mér að það væri líka áhugavert að bera saman skrif um konur og karla og hvað áherslunar væru ólíkar eftir því  um hvort kynið ræðir. Ég veit ekki hvort þetta á lengur við, þar sem hefðbundu kynjahlutverkin eru sífellt að  riðlast meira og meira og „góða“ húsmóðirin að mást út af yfirborði jarðar. Elskulega amman sem bíður með kakó og kleinur er að verða þjóðsagnapersóna úr fortíðinni. .

Ég er mjög meðvituð um að þeir látnu eru ekki í neinni aðstöðu til þess að hafa skoðanir á því sem um þá er skrifað. En samt er þetta oft það sem eftir stendur um manneskju. Í mörgum tilfellum er þetta í eina skiptið sem einstaklingur „kemst í blöðin“. Ég veit bara um einn mann sem fór fram á það við dauðans dyr að fá að lesa yfir það sem átti að skrifa um hann. Mér fannst það óvenjulegt, kannski svolítið óþægilegt en mjög áhugavert. Hann þurfti alla vega ekki að snúa sér við í gröfinni yfir skrifunum.

En það sem mig eiginlega langaði til þess að koma að í þessum pistli er að kannski ættum við að vera duglegri við að hrósa. Hrósa á meðan fólk er á lífi, ekki bara í minningargreinum. Við megum bæta okkur á því sviði. Við þurfum að vera flínkari við að hrósa og þá ekki síður að kunna að taka hrósi. Um daginn hrósaði ég konu sem var að halda fyrirlestur. Ég hældi bæði tölunni og kjólnum sem hún var í, enda var hann sérstaklega fallegur. Ég vissi ekki hvert hún ætlaði og hafði það á tilfinningunni að hún héldi að ég væri annað hvort drukkin, með alsheimer eða hvatvís með einhverja greiningu. Hrós kostar ekkert og ég held að okkur liði öllum svolítið betur ef við yrðum opnari á því sviði, bæði sem gefendur og þiggjendur.

 

Sigrún Stefánsdóttir febrúar 13, 2023 07:00