Edda Borg Ólafsdóttir og Bjarni Sveinbjarnarson eru bæði orðin miðaldra, hún að verða 55 ára og hann 58. Þeim líður vel í því hlutverki og njóta lífsins eins og kostur er þrátt fyrir MS-sjúkdóminn sem Edda lifir með. Þau eiga sameiginlegt að hafa helgað lífið tónlist, hún píanóleik og hann bassaleik, og það var einmitt tónlistin sem leiddi þau saman fyrir 39 árum og fjórum börnum síðar. „Við kynntumst eiginlega í gegnum blaðaauglýsingu,“ segja þau hlæjandi. Það gerðist þó ekki alveg átakalaust því Bjarni var þá 19 ára og Edda 16. Hann rak einn daginn augun í auglýsingu þar sem auglýst var eftir bassaleikara í hljómsveit Axels Einarssonar.
Pabbi þurfti að keyra mig í giggin
„Ég hafði byrjað 16 ára að spila djass með gömlu körlunum eins og Guðmundi Ingólfs og Stjána Magg í Djúpinu sem var tónleikastaður í kjallaranum á Horninu við Hafnarstræti. Ég var þá ekki með bílpróf svo pabbi þurfti að keyra mig í giggin. Þetta þótti mér óskaplega skemmtilegur tími og ómetanlegt núna að hafa spilað með þessum gömlu kempum.“ En svo langaði Bjarna að kynnast rokkinu og poppinu meira og rak þá augun í auglýsinguna afdrifaríku. „Þar var verið að auglýsa eftir bassaleikara, söngvara og píanóleikara fyrir eitthvert tilefni. „Ég svaraði og var boðaður á æfingu og þar var Edda,“ segir Bjarni.
Fyrsti áreksturinn
Edda er frá Bolungarvík þar sem faðir hennar rak tónlistarskólann og varð síðar bæjarstjóri. Hún byrjaði sex ára að læra á píanó en faðir hennar sendi hana til Ragnars H. Ragnar á Ísafirði og taldi það betra. Edda kom svo að verða 16 ára til Reykjavíkur til að fara í menntaskóla og sá þá þessa sömu auglýsingu og Bjarni. „Ég var eiginlega búin að gleyma umsókninni því nokkrir mánuðir höfðu liðið og ég var skyndilega boðuð á æfingu,“ segir Edda. „Ég þurfti að fara í prufu af því þeir þekktu ekkert til mín en þeir komust að því að ég kunni að spila eins og ég hélt fram í umsókninni og var ráðin. Síðan var blásið til æfingar og þar hittumst við Bjarni. Það var ákveðið að renna í lag og þá kom fyrsti áreksturinn,“ segir hún og hlær. Edda er klassískt menntuð en Bjarni djassmenntaður og þegar spila átti saman sérstaka hljóma voru þeir ekki þeir sömu frá þeirra bæjardyrum séð. „Okkar fyrstu kynni voru raunverulega þegar við vorum að rífast um þetta og okkur þótti hitt mjög leiðinlegt og þvert. En hér erum við í dag, 39 árum síðar,“ segir Bjarni brosandi.
Bless, sé þig eftir ár
Þegar Edda og Bjarni byrjuðu saman eftir rifrildið um hljómana hafði Bjarni verið kominn af stað með umsókn í tónlistarskóla sem heitir MI, Musicians Institute í Hollywood í Bandaríkjunum. Hann segist hafa verið svaka kaldur og hélt sig við planið og fór út með þeim orðum að þau myndu svo bara sjást eftir ár. „Ég fór út en það endaði auðvitað fljótlega með himinháum símareikningum. „Kúlið“ var nú ekki meira en svo að ég kom heim og við giftum okkur við fyrsta tækifæri og Edda kom síðan með mér út,“ segir Bjarni. „Ég var þá nýorðinn tvítugur og Edda 17 ára. Hún þurfti meira að segja að fá undanþágu frá dóms- og kirkjumálaráðherra svo við gætum gifst og það gekk.“
Skiljum bara ef þetta virkar ekki
Edda segir hlæjandi frá því að þau hafi verið svo ung að í þeirra augum hafi þetta ekki verið neitt mál. „Við sögðum bara: „nú, ef þetta virkar ekki þá bara skiljum við,“ en hér erum við enn.“ Edda fór svo með Bjarna út og hann kláraði námið og þau komu heim 1985. Þá skráði Edda sig í tónmenntakennaradeildina hér heima. „Það var svolítið sjokk að finna út þá að ég var orðin ófrísk að fyrsta barninu okkar og ég á fyrsta árinu í náminu,“ segir Edda. „Mamma varð enn sjokkeraðri og hélt að nú væri framtíð mín ráðin og ég færi bara að hlaða niður börnum og hræra í pottum og myndi ekki geta menntað mig neitt. En við eignuðumst Söndru 1986 og ég kláraði tónmenntakennaradeildina og þegar ég útskrifaðist þaðan réði ég mig sem Tónmenntakennara við Seljaskóla. Þar fann ég þörfina á tónlistarkennslu í hverfinu og það varð úr að við stofnuðum þennan skóla, Tónskóla Eddu Borg. Hann hefur því verið starfræktur í 32 ár og á þessum tíma stækkaði fjölskyldan en börnin eru fædd 1986, 1990,1997 og svo örverpið, sem býr enn heima, 2002.“
Spiluðu í Klúbbnum og á Broadway
Þau Edda og Bjarni upplifðu ævintýrið sem átti sér stað á aðalstöðunum því þau voru bæði í aðalhljómsveitunum í Klúbbnum og svo á Broadway. Allt frá því þau stofnuðu tónskólann hafa þau sinnt kennslu ásamt því að koma fram við ýmis tækifæri. Bjarni kenndi í tónlistarskóla FÍH frá 1986 til 2000 en er nú kominn meira inn í rekstur tónskóla þeirra.
MS kveður dyra og andlegu málefnin líka
Edda greindist með MS-sjúkdóminn 2007 en þá var hún aðeins 41 árs gömul og það hefur breytt lífi fjölskyldunnar umtalsvert eins og gefur að skilja. Það tók lækna um 10 ár að greina endanlega hvað hrjáði hana en þetta byrjaði allt eftir skíðaferð með krakkana á nýársdag 1998. Þegar þau komu heim úr þeirri ferð sagði Edda við Bjarna að það væri skrýtið hvað hún væri mikið dofin af kuldanum. „Eftir á að hyggja voru þetta fyrstu einkennin,“ segir Edda en bætir við að það hafi verið talsverð þrautaganga og segir til dæmis frá því þegar hún hitti þáverandi taugalækni sinn í Domus Medica og var með nýfæddan son þeirra Bjarna með sér. „Ég datt í tröppunum og varð skelfingu lostin við tilhugsunina um hvað hefði getað gerst ef barnið hefði ekki verið svona vel varið. „Ég var gráti næst þegar ég kom inn til hans og ég fann að honum þótti ég nú helst til móðursjúk. Þá skipti ég um taugalækni sem greindi mig rétt. Það var að vissu leyti léttir því ég gat þá brugðist rétt við þessum vágesti sem MS getur verið. Ég finn fyrst fyrir einkennum 1997 og svo líða 10 ár þegar endanleg greining kemur. Ég hef verið heppin en fyrir utan góða læknishjálp get ég nefnt tvennt sem hefur hjálpað mér að fást við sjúkdóminn. Í fyrsta lagi er ég geysilega vel gift, því Bjarni er búinn að standa með mér eins og klettur.“
Tilviljun réði för
Skemmtileg tilviljun átti sér stað þegar Edda var á leiðinni til Boston 1993 í söngkúrs á Berklee. „Ég fékk símhringingu þar sem var verið að bjóða mér í bókaklúbb á vegum Birtings, áhugafólks um andleg málefni. Þeir gáfu út alls konar bækur og ég sagði strax að ég væri nú ekki alveg til í að gerast meðlimur en gæti trúað að maðurinn minn væri frekar til svo ég skráði hann í þennan félagsskap að honum forspurðum. En af því við vorum á leiðinni út á flugvöll í stressi gleymdi ég að segja Bjarna frá þessu.“ Svo kvöddust þau á vellinum og eftir nokkrar vikur fóru að berast alls konar bækur heim. Þegar Bjarni minntist á það við Eddu, sem þá var í Boston, mundi hún loks eftir að hafa skráð hann í þennan félagsskap. Þar með fór hann að lesa um andleg málefni og jóga og segir að eftir það hafi ekki verið aftur snúið. „Þá byrjaði ég að finna svör við spurningum um tilveruna sem höfðu leitað á mig frá því ég var ungur maður. Mér finnst eins og ég hafi gengið inn um hlið og upp hafi lokist dyr sem höfðu verið lokaðar fram að því. Síðan hefur þetta verið mitt stærsta áhugamál,“ segir Bjarni. Þau leita mikið til LA en þar er félagsskapurinn „Self realization fellowship“ m.a. starfræktur, en hann var stofnaður 1920 af Paramahansa Yogananda og er nú með útibú um allan heim. Þar fær Bjarni svalað forvitni sinni um andleg málefni sem hann segir að nýtist sér mikið í daglegu lífi. „Áður en ég kynntist þessum félagsskap var ég að eltast við alls konar gildi sem ég hélt að væru mikilvæg. Smám saman áttaði ég mig á hvað skipti máli í þessu lífi og hvað ekki. Ég er enn að komast að ýmsu sem skiptir máli og ég get ekki hugsað mér lífið án þessara pælinga.“ Edda segir að hún fylgi Bjarna nokkuð í leitinni að því sem skiptir máli í lífinu og það sé búið að hjálpa sér mikið í baráttunni við MS-sjúkdóminn.
Vill ekki að sjúkdómurinn taki yfir
Edda tók meðvitaða ákvörðun um að láta sjúkdóminn ekki buga sig og hefur haldið áfram að lifa lífinu eins lifandi og frekast er kostur. Hún segist vera búin að vera mjög góð af MS-sjúkdómnum þar til fyrir tveimur árum þegar hún fékk sjónhimnulos á öðru auganu. Það er óskyldur sjúkdómur MS og Edda segir að hægt hefði verið að bjarga sjóninni ef nauðsynleg aðgerð hefði verið framkvæmd strax. „En af því beðið var í fjóra daga eftir lækni til að framkvæma aðgerðina varð óafturkræf skemmd á auganu. Það var klúður og er hundfúlt af því það jók á skerðinguna sem ég verð að sætta mig við. En það er eins með þann sjúkdóm og MS að ég ákvað að láta hann ekki buga mig af því það er ekkert við þessu að gera. Ég ákvað að njóta frekar þess sem ég hef og það er allnokkuð,“ segir Edda ákveðin. „Auðvitað koma tímar þegar yfir mig hellist söknuður yfir því sem ég hafði en það þýðir ekkert að grafa sig í þá ömurlegu hugsun. Það er svo margt jákvætt og gefandi í lífi mínu að það væri nú meira vanþakklætið að neita að koma auga á það.
Ég kynntist bók sem heitir The Healing Code og hef ég stundað þá hugleiðslu sem fram kemur í bókinni og ég vil meina að þessi heilunar-hugleiðsla hafi einnig hjálpað mér mikið.“
Herbalife hefur hjálpað
Edda er eins og margir að vilja gera allt sjálf. „Þegar við stofnuðum skólann vandist ég á að vera allt í öllu. Ég var skólastjórinn, ritarinn og ræstingakonan, raðaði stundaskránum fyrir kennarana. Ritarinn, sem ég réði með mér fyrir 11 árum, spurði mig þegar hún var búin að vera í nokkra daga: „Fyrirgefðu Edda, hafðirðu hugsað þér að ég myndi gera eitthvað hérna,“ og þá þurfti ég að læra að haga mér upp á nýtt,“ segir Edda og brosir.
Edda segist hafa verið svo heppin að hafa kynnst Herbalife 1999. „Það, ásamt því að vera svona vel gift, hefur hjálpað mér í baráttunni við MS-sjúkdóminn. Ég stend í þeirri meiningu að þessi góða næring hafi hjálpað mér gífurlega í baráttunni við sjúkdóminn,“ segir Edda. „Um aldamótin vorum við Bjarni að spila mjög mikið, oft langt fram á nótt, og svo þurftum við að hafa krafta fyrir þrjú börn á daginn. Þá kom Herbalife svo skemmtilega inn því þegar ég hætti að spila svona mikið þá minnkaði innkoman en Herbalife bjargaði okkur. Við vönduðum okkur við þennan rekstur og hann vatt upp á sig og gengur bara mjög vel núna.
„Ég reyni að gera allt sem ég get til að hugsa vel um mig í baráttunni og Herbalife hefur hjálpað mér í því.“
Að horfa á lífið utan frá
Nú þegar þau Edda og Bjarni eru orðin miðaldra hafa þau lært af lífinu og endurmetið gildi sín svolítið. Sumpart af því að þau hafa þurft að horfast í augu við veikindi Eddu en líka af því þau hafa borið gæfu til að sjá lífið utan frá. Bjarni hefur leitað í fræði indverska munksins Paramahansa Yogananda og fundið í þeim svör við mörgu sem á hann hefur leitað. Sú leit Bjarna hefur hjálpað Eddu og saman horfa þau björtum augum til framtíðar.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar