Rannsóknir benda til að eldra fólk lykti meira og ver en yngra fólk og líkamslyktin færist í aukana strax upp úr fertugu. Í grein sem birt er á vefnum Livescience segir að það sé myndun sérstaks efnasambands í líkamanum sem kallað er 2 Noneal sem eykst stig af stigi eftir fertugt. Það er þetta efnasamband sem veldur vondri líkamslykt þegar eldra fólk svitnar.
Bakteríur eru sökudólgarnir
Það eru oftast bakteríur sem þrífast í svita sem valda lykt. Svitinn sjálfur er næstum lyktarlaus en hann er mikilvægur til að kæla okkur, flytja raka til húðarinnar og viðhalda vökvajafnvægi líkamans. Við erum með tvennskonar svitakirtla, annars vegar þá sem eru undir hárlausri húð og gefa frá sér vökva sem inniheldur sölt hins vegar svitakirtla undir hári sem gefa frá sér vökva sem inniheldur fitu. Það er fituríki svitinn sem er kjörlendi fyrir sérhæfðar bakteríur. Bakteríurnar brjóta niður fituna og við það myndast oft vond líkamslykt.
Loftið vel út
Oftast dugar venjulegur svitalyktareyðir til að vinna á lyktinni en ef hann dugar ekki ætti að leita læknis og láta athuga málið. Slæm lykt getur líka stafað af því að þegar fólk eldist verður það kulvísara, það hættir að opna glugga og loftið í híbýlum þess verður þungt. Margir eiga líka erfitt með að komast hjálparlaust í bað með hækkandi aldri og það eykur lyktina. Fólk á það líka til að þvo fötin sín sjaldnar og nota þau lengur. Gömul föt verða oft illa lyktandi sérstaklega ef þau eru úr gerviefnum. Illa lyktandi föt sem geymd eru inn í skáp valda því að öll fötin í skápnum lykta illa. Líka þau sem eru ný eða voru að koma úr þvotti.
Nokkur góð ráð til að minnka líkamslykt
Farðu daglega í bað eða sturtu. Það fækkar bakteríum á húðinni.
Þurrkaðu fætur þína vandlega eftir baðið, bleyta milli tánna er kjörlendi fyrir örverur.
Endurnýjaðu klæðaskápin reglulega.
Þvoðu fötin þín oftar.
Veldu föt, og þá sérstaklega sokka, úr ull og bómull og forðastu gerviefni.
Íþróttaföt sem hrinda raka frá líkamanum henta vel þegar þú ert að svitna í ræktinni.
Farðu daglega í hreina sokka.
Gakktu í skóm úr leðri. Náttúrulegt efni eins og leður gerir húðinni kleift að anda og heldur fótum þínum þurrum. Ekki ganga alltaf í sömu skónum, skiptu um skó reglulega og leyfðu þeim að þorna almennilega fyrir notkun.
Gangtu á berum fótum þegar þú getur og farðu stöku sinnum úr skónum.
Aðferðir við að hafa stjórn á streitu svo sem hugleiðsla og jóga gætu einnig gangast en streita getur aukið svitamyndun.
Breyttu mataræðinu. Ef einhverjar fæðutegundir sem þú neytir valda því að svitinn lyktar illa, má vel sleppa því að borða þann mat. Laukur og hvítlaukur geta valdið lykt í svita.