Sigrún Ásdís Gísladóttir stofnaði sitt eigið fyrirtæki á miðjum aldri til þess að geta boðið fólki að ganga með sér Jakobsveginn á Spáni, eina þekktustu pílagrímaleið í Evrópu. Fyrirtækið heitir „Á vegum Jakobs“ og býður skipulagðar göngur á þessari frægu leið. „Fátt er betra en að fara út fyrir sín hefðbundnu mörk og gera eitthvað nýtt,“ segir Sigrún í samtali við Lifðu núna, en hún er sjálf fararstjóri í ferðunum. „Jakobsgangan krefst undirbúnings sem er bæði andlega og líkamlega krefjandi.“
Sigrún segir að oftast veljist í ferðirnar fólk sem er komið á miðjan aldur þó að þær séu hugsaðar fyrir alla aldurshópa. „Kannski er þetta tilviljun, en þegar fólk er komið á miðjan aldur lítur það gjarnan yfir farinn veg og áttar sig á því að tíminn er dýrmætasta auðlindin. Við viljum verja honum vel. Á Jakobsveginum gefst fólki einstakt tækifæri og andrými til að horfa fram á við, fara yfir líf sitt og meta hvað það er sem raunverulega skiptir máli. Þetta eru atriði sem oft er erfitt að sjá við hvunndagslegar aðstæður. Við þurfum fjarlægðina.“
Gengið saman í þögn
Sigrúnu langaði til að stuðla að aukinni hreyfingu fólks sem komið er yfir miðjan aldur og þess vegna stofnaði hún fyrirtækið. Hún segir að best sé að ákveða göngu með nokkurra mánaða fyrirvara og undirbúa sig vel. „Það er hluti af ferðalaginu að fræðast og hreyfa sig ásamt samferðamönnum sínum.“
Á norðurleiðinni meðfram strönd Spánar er gengið á milli þorpa um fagrar sveitir landsins. „Grænar hæðir og hafið bláa skiptast á,“ segir Sigrún. Gengið er í fámennum hópum og í upphafi hvers dags er gengið í þögn. „Það skapast mikil nánd, en samt er það þannig að hægt er að ganga einn og útaf fyrir sig. Hver þátttakandi stjórnar því. Allir fá það næði sem þeir þurfa.“
Að bera ábyrgð á eigin heilsu
Sigrún er fædd á Suðurlandi en hefur þó lengst af búið á Akureyri. Hún fluttist þó aftur suður árið 2002 og hefur búið þar síðan. „Saman eigum við hjónin sjö börn, fjórtán barnabörn og eina langömmuprinsessu.“
Sigrún er stúdent frá MA, sjúkraliði frá LSH, markþjálfi frá Evolviu og með BA-próf í spænsku frá HÍ. „Ég hef í mörg ár unnið við þjónustu- og verkefnastjórnun hjá tæknifyrirtækjum og núna síðast við þjónustu á lækningatækjum. Síðustu tvö ár hef ég hins vegar verið að gera það sem mig langar til, m.a. að þýða úr spænsku á íslensku.“
Sigrún hefur sýnt heilsueflingu áhuga lengi og vinnur nú á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði í hlutastarfi sem sjúkraliði. „Það finnst mér bæði gefandi og skemmtilegt,“ segir hún. „Einkunnarorð mín eru þau sömu og Heilsustofnunar: „Berum ábyrgð á eigin heilsu.“ Ég hef þá trú að með réttu mataræði, jákvæðni og reglulegri hreyfingu getum við aukið lífsgæði okkar til muna fram eftir öllum aldri.“
Skráði sig í spænskunám eftir fimmtugt
Eftir að Sigrún varð fimmtug kviknaði áhugi hennar á að læra nýtt tungumál. „Mig langaði í fyrsta lagi að víkka sjóndeildarhringinn og gera eitthvað krefjandi, ögra mér, af því að tungumálanám er erfitt fyrir fullorðið fólk. Hinsvegar er það mjög góð æfing fyrir heilann og heilastarfsemina að læra tungumál eftir miðjan aldur.“
Sigrún segist ekki hafa ætlað í háskólanám, en það breyttist þegar hún skipti um vinnu og samdi um að fá að sækja tíma í spænsku í Háskólanum samhliða. „Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að stunda nám samhliða vinnu.“ Ekki leið á löngu þar til hún skráði sig formlega í spænskunám sem hún lauk með BA-prófi árið 2013.
„Það var erfitt, enda hafði ég nánast enga spænsku lært áður en ég fór í HÍ. Ég hafði að vísu farið á námskeið í spænsku hjá Margréti Jónsdóttur Njarðvík í HR og í framhaldinu með samnemendum á hálfsmánaðarnámskeið við Háskólann í Burgos á Spáni. Þá var ekki aftur snúið, Margrét var sú fyrsta sem kynnti fyrir mér menningu Spánar og hefur hún verið mikill áhrifavaldur í lífi mínu. Við spænskunámið opnaðist nýr heimur bókmennta og lista spænskumælandi landa.“
Heillaðist af pílagrímum með þungar byrðar
Þegar Sigrún var við námið í Burgos á Spáni gekk hún meðfram ánni Arlanzón á morgnana á leið í skólann. „Þar mætti ég gjarnan fólki með þungar byrðar á bakinu, skel hangandi á bakpokanum, og það var gjarnan með staf í hendi. Ég velti fyrir mér hvort þetta væru bæjarbúar á morgungöngu, en komst fljótt að því að þetta voru pílagrímar frá öllum heimshornum. Franska Jakobsleiðin liggur einmitt í gegnum Burgos og bygging háskólans var í endurbyggðum rústum pílagrímasjúkrahúss. Þannig vaknaði áhugi minn á göngu um pílagrímaleiðir Spánar.“
Sigrún hætti að vinna fulla vinnu utan heimilis árið 2018. „Þá fannst mér vera kominn tími til að einbeita mér að því sem mig langaði að gera áður en það yrði of seint. Að láta draumana rætast. Í framhaldinu stofnaði ég fyrirtækið. Tilgangurinn var að bjóða fólki að slást í för með mér um pílagrímaslóðir Spánar, en á þessum tíma hafði ég gengið þessar slóðir ein eða með manninum mínum og eins sem fararstjóri hjá ferðaskrifstofunni Mundo.“
Gott gengi þrátt fyrir Covid
Sigrún segir að starfsemin hafi gengið vel og að hún hafi getað boðið litlum hópum, sem hún segir að sé ótvíræður kostur. „Stundum eru þetta kvennahópar eða karlar og konur saman. Langbest er að ákveða svona ferðalag eins og þetta með nokkurra mánaða fyrirvara, því að undirbúningur þarf að vera góður. Þannig nýtur fólk þess miklu betur. Þá er ég bæði að tala um að undirbúa sig líkamlega og eins andlega.“
Sigrún miðlar þekkingu um Spán almennt og eins um sögu pílagrímanna áður en fólk leggur upp í ferðalagið. „Allir verða að vera búnir að finna réttu skóna og annan búnað sem þarf, því að það er hluti af ferðalaginu að undirbúa sig vel.“
En hvernig hefur Covid farið með ferðaþjónustufyrirtækið? „Ferðirnar féllu niður vegna Covid í fyrra og einnig í ár. Ég var að vona að ég gæti farið eina ferð nú í haust en ákvað síðan að geyma hana fram á næsta ár.“
Fjölmargar leiðir á Jakobsveginum
Pílagrímaleiðirnar um Jakobsstíginn eru fjömargar, segir Sigrún. „Oftast er talað um El camino Francés eða frönsku leiðina. Aðrar leiðir eru El camino Norte eða konungaleiðin, sem liggur meðfram norðurströnd Spánar, El camino Portugese, sem er ýmist farin frá Lissabon, Porto eða Tui, en sú síðastnefnda er borg á landamærum Spánar og Portúgals. El camino Primitivo er farin frá Oviedo og endar eins og aðrar leiðir í Santiago de Compostela.“
Sigrún segir að mælingar séu aldrei þær sömu þegar fjallað sé um pílagrímaleiðirnar, hvorki dagleiðirnar sjálfar né heildar kílómetrafjöldi. „Öll norðurleiðin er eins og franska leiðin, í kringum 850 km.“
Næði til að hugsa og horfa fram á við
Hvað er mest gefandi við þetta starf? „Jakobsganga er tækifæri til að fara úr sínu hefðbundna daglega munstri, fara út fyrir þægindarammann sinn, gera eitthvað nýtt og krefjandi, en um leið ákaflega gefandi. Ferðirnar eru fyrir þá sem þurfa næði til að hugsa um líf sitt og tilveru, setja sér ný markmið. Hver þátttakandi er úti í náttúrunni 6–8 klukkustundir á dag, dagleiðirnar eru oftast um 20–25 km langar. Undirlagið er misjafnt, alltaf stígar, mjúkir, grófir, steinn, möl og mold. Farangur er keyrður á milli gististaða svo ekki þarf að bera mikið með sér.“
Ferðir 2022 undirbúnar
Undirbúningur undir göngur á næsta ári er langt kominn, segir Sigrún. „Við munum bjóða ferðir í júní annars vegar og hins vegar í september og október. Á þessum tíma er meðalhitinn í kringum 22 gráður. Ferðirnar verða flokkaðar í auðveldar, minni brekkur, styttri dagleiðir og erfiðari ferðir,“ segir Sigrún.
Í júní verður portúgalska leiðin farin frá Tui til Santiago de Compostela. „Þá verða gengnir 120 km á 6 dögum. Svo er alltaf einn frídagur í lokin áður en haldið er heim.“
Einnig verður farin ferð um fyrsta áfanga norðurleiðarinnar frá Pasaje til Bilbao, en hún er 140 km. Gangan tekur 7 daga. Í september verður annar áfangi norðurleiðarinnar farinn, frá Bilbao til Colombres, 180 km. Alls 10 göngudagar. Síðustu 150 km á frönsku leiðinni verða svo farnir, en það eru 8 göngudagar.
Sigrún segir að nánari upplýsingar um ferðirnar á næsta ári verði settar inn á vef fyrirtækisins á slóðinni camino.is í byrjun desember.