Það fer ekki milli mála hvaða áfangastaður er vinsælastur meðal Íslendinga um þessar mundir: Tenerife. Þessi 2000 ferkílómetra þríhyrningslaga eldfjallaeyja, sem er stærst hinna spænsku Kanaríeyja undan strönd Vestur-Afríku, dregur til sín skammdegisþreytta, sólarþyrsta Íslendinga í stórum stíl, sérstaklega á þessum árstíma. Margir velja að dvelja þar yfir hátíðarnar sjálfar. En einnig er flugumferðin þangað frá Íslandi mikil á fyrstu mánuðum ársins, þegar veturinn er þyngstur norður við heimskautsbaug.
„Ég ætla að skjótast til Tene að tana, teyga þar lífið af krana,“ syngur Baggalútur í einum af nýjustu smellum sínum, Ég á það skilið, en texti lagsins endurspeglar vel tíðarandann í íslensku samfélagi í kjölfar Covid-„kófsins“.
Stóraukið sætaframboð í beinu flugi
Það var fyrst í maí á þessu ári sem Icelandair hóf beint áætlunarflug til Tenerife. Eins og Túristi.is greindi frá í byrjun desembermánaðar hafði Icelandair fram að þessu aðeins flogið þangað í leiguflugi fyrir íslenskar ferðaskrifstofur. Þó er langt síðan Íslendingum bauðst beint áætlunarflug til Tenerife; það buðu bæði Wow Air á sínum tíma, og síðar Norwegian. En nú er svo komið að á fyrstu mánuðum næsta árs mun allt að 844 farþegum bjóðast sæti í beinu flugi til Tenerife í Icelandair-þotum í viku hverri.
„Við höfum fundið að það er mikil uppsöfnuð ferðaþörf hjá fólki og virðast sólarfrí vera ofarlega á lista margra. Þar er Tenerife auðvitað frábær valkostur en við sjáum líka mikla eftirspurn til Orlando eftir að Bandaríkin opnuðu aftur,“ hefur Túristi.is eftir Ásdísi Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair. Hún tekur fram að Icelandair lagi framboð að eftirspurn á hverjum tíma. Fjölgun á flugferðum til Tenerife sé því í takt við þá stefnu.
En Icelandair er ekki eina flugfélagið sem ber uppi þjóðflutninga Íslendinga í sólina á Tene. Play Air gerir það líka, sem og ferðaskrifstofurnar Heimsferðir, Úrval-Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir. Reyndar heyra allar fjórar nú undir Ferðaskrifstofu Íslands, en eru samt áfram reknar sem aðskildar einingar.
Birna Bjarnadóttir, fjármálastjóri Heimsferða og staðgengill framkvæmdastjóra, upplýsir aðspurð að „við erum með fjórar ferðir til Tenerife um jólin og allar nánast uppseldar.“ Fimmta ferð Heimsferða til Kanaríeyja yfir jólin sé til Gran Canaria, og hún sé alveg uppseld. Svipaða sögu er að segja af hinum ferðaskrifstofunum. Það má því fullyrða að þúsundir Íslendinga kjósi að „skjótast til Tene að tana“ þessa dagana.
Ekki allir að sækja í að sleikja sólina
En það fara reyndar ekki allir til Tenerife í þeim erindagjörðum að sleikja sólina. Jónas Þórir, organisti og kantor við Bústaðakirkju, og eiginkona hans Rósa Einarsdóttir hafa stundað reglulegar ferðir til Tenerife í mörg ár. Í samtali við Lifðu núna segjast þau fyrst og fremst njóta útivistar í ferðum sínum þangað. „Um miðjan vetur er veðurfarið þar svipað því sem best gerist um mitt sumar á Íslandi. Við förum því mikið í gönguferðir og fjallgöngur, enda margt að sjá á þessari fallegu eyju,“ segja þau. Hún leyni á sér, en til að uppgötva leynda töfra eyjarinnar þurfi gestir að hafa fyrir því að ferðast út fyrir aðalferðamannastaðina við ströndina.
Vegna þess hve vel þau þekkja nú til þar syðra kjósa þau að ferðast jafnan á eigin vegum. Pakkaferð geti þó verið mjög góður valkostur, sérstaklega fyrir fólk sem er að ferðast til Tenerife í fyrsta sinn.
Sérferðir fyrir 60+
Fyrrgreindar ferðaskrifstofur bjóða allar upp á sérferðir fyrir aldurshópinn 60+. Heimsferðir eru til að mynda með sinn eigin fararstjóra á Tenerife, Gunnar Svanlaugsson, en hann hefur sérhæft sig í að halda uppi fjörinu í hópferðum fyrir eldra fólk. Hjónin Jónas Þórir og Rósa benda líka á að ferðalöngum bjóðist margvísleg tilbreyting, t.d. jóganámskeið, „skotganga“ o.fl., með íslenskum leiðbeinendum.
Spurð hvað þeim þyki, á heildina litið, vera eftirsóknarverðast við að dvelja á Tenerife segja Jónas og Rósa einum rómi: að taka hlé frá skammdeginu og stytta veturinn. „Það er svo endurnærandi. Maður kemur alltaf fullur orku heim úr fríi á Tenerife.“