Heimi Sindrason kannast margir við. Hann er þekktur fyrir ýmislegt, ekki síst fyrir að hafa samið lagið við ljóð Tómasar Guðmundssonar, Hótel jörð. Hann varð 77 ára á aðfangadag og er hættur að vinna sem tannlæknir. Það er saga að segja frá því hvernig kom til að Heimir samdi þetta fallega lag en síðan eru liðin mörg ár því þá var hann aðeins um tvítugt. Heimir er kvæntur Önnu Lovísu Tryggvadóttur og eiga þau saman 4 börn.
Skólagangan byrjaði brösuglega
,,Fyrst þú nennir ekki að læra getur þú alveg eins farið bara að vinna fyrir þér,” sagði móðir Heimis þegar útkoman úr jólaprófunum á fyrsta ári hans í MR voru birtar. Þær gáfu til kynna að Heimir hefði ekki stundað námið vel það sem af var vetrar og það boðaði ekki gott fyrir vorprófin. ,,Ég er búin að fá pláss fyrir þig í Hraðfrystihúsinu í Vestmannaeyjum og nú skaltu fara þangað,” sagði móðir hans og það varð úr. ,,Ég sagði skilið við skólann en þar hafði ég byrjað haustið 1961. Þegar ég fékk svo stúdentsskírteinið mitt 1967 stóð að ég hefði verið þar frá ´61 til ´67, það er að ég hefði verið sex ár að ná stúdentsprófinu. Mér þótti leiðinlegt að hafa þetta á skírteininu af því það átti ekki að taka nema fjögur ár að ná stúdentinum. En Guðrúnu Helgadóttur, ritara rektors, varð ekki hnikað og sagði að þetta væri sannleikurinn sama hvaða leið ég hefði farið að því að ná prófinu. Og auðvitað gat ég sjálfum mér um kennt.”
Hætti í skóla og fór að vinna í frystihúsi
,,Ég hafði þurft að fara tvisvar í landspróf en eftir annað skiptið fékk ég nógu góðar einkunnir til að komast inn í MR. Þá blasti alvaran við og ég þurfti að hafa
meira fyrir lífinu en ég nennti,” segir Heimir og brosir. ,,Efir á að hyggja var það mjög klókt hjá mömmu að láta mig finna út sjálfan hvað blasti við mér ef ég gengi ekki menntaveginn. Ég kynntist mörgu góðu og harðduglegu fólki í Vestmannaeyjum og ber virðingu fyrir þeim og þeirra starfi.
Geturðu lánað mér tannburstann þinn?
Um þessar mundir er verið að sýna þátt á RÚV sem heitir Verbúðin og Heimir segir að sá þáttur rifji upp ýmislegt fyrir sér frá fyrri tíma. ,,Ég bjó sem sagt í verbúð í Eyjum og með mér höfðu farið tveir fallistar eins og ég. Fyrsta kvöldið þegar ég var að bursta í mér tennurnar segir einn af herbergisfélögunum: ,,Andskotinn, ég gleymdi tannburstanum mínum Heimir. Ert til í að lána mér þinn?” Ég var ekki meiri bógur en svo að ég sagði: ,,Já, allt í lagi, þú mátt fá hann lánaðan” og fór svo daginn eftir og keypti mér nýjan tannbursta,” segir Heimir og hlær.
Ólyktin óbærileg
,,Ég þurfti auðvitað að venjast verbúðalífinu og þegar ég fer til Eyja kíki ég alltaf á staðinn þar sem verbúðin var. Mér er svo minnisstæð ólyktin sem var þarna inni. Við kúldruðumst þar inni fjórir í herberginu og einn var oftar en ekki fullur. Hann var svo sem ekki til vandræða því hann kom inn fullur á kvöldin og sofnaði og fór svo að vinna morguninn eftir. Þarna voru líka margir eins og ég sem höfðu dottið út úr skóla og svo náttúrlega þeir sem voru tilbúinir að lifa þessu lífi. Ég var ekki í þeim hópi. Ég tala nú ekki um þegar ég fór svo á sjóinn því ég var sjóveikur í hverjum einasta túr. Í fyrsta túrnum var ég svo veikur að ég var með tvær fötur niðri í lúkar, aðra til að æla í og hina með vatni í til að drekka úr til að geta ælt. Svo heyrði ég þegar ,,Kallinn” gargaði niður: ,,Ertu ekki að fara að jafna þig strákhelvíti!” Þar var ekki að finna neina vorkunn enda var hann vanur því að menn stæðu upp og hörkuðu af sér.” Þarna segist Heimir hafa fundið út að líklega væri betra að einbeita sér að náminu og hafa val um annan vinnustað. Aðrir væru hæfari en hann í þetta líf. ,,Mamma hafði sínar grjóthörðu hliðar en líka mjúkar og hún vissi vel hvað hún var að gera þegar hún sendi mig í fiskvinnu.”
Menntun er og var lykillinn að lífinu en háskólanám ekki skilyrð
Nú segir Heimir að sem betur fer sé flestum ljóst að háskólanám sé ekki lykillinn að öllu og til séu margar fleiri leiðir. Starfsnám sé til dæmis ekki minna virði. Afi Heimis var fæddur 1885 og náði að komast í menntaskóla. Hann var í hópnum sem gerði uppreisn 1903 í MR í svokölluðu kladdamáli. Þá brenndu nemendur kladdann með einkunnum sem gefnar voru eftir hvern einasta tíma. ,,Bekkurinn var allur rekinn úr skólaum og sumir komust inn aftur en afi kaus að fara ekki aftur,” segir Heimir. ,,Afi fór þá til Kanada með öðrum Vesturförum og þaðan til Bandaríkjanna þar sem hann fór í prestsnám. Það nám var síðan ekki tekið gilt á Íslandi svo hann þurfti að taka tvö ár í viðbót við Háskólann hér. En af því hann fór til Bandaríkjanna talaði afi góða ensku sem ég naut góðs af þegar hann bjó hjá okkur gamall maður. Ég hef aldrei talið mig mikinn námsmann en alltaf góður í ensku og svo lá íslenskan líka vel fyrir mér. Ég lærði enskuna mjög vel strax frá byrjun með hjálp afa og það kom sér vel þegar ég fór sem skiptinemi til Bankaríkjanna áður en ég fór aftur á fyrsta árið í MR. Afi var sennilega svokallaður ,,rebel” og var kannski undanfari þeirra sem skýrðu óvenjulegum nöfnum. Hann skýrði börnin sín fimm til dæmis Sindri, Frosti, Fjalar, Máni og Vaka.
Lánsamur að komast sem skiptinemi
Heimir lenti hjá mjög góðu fólki í Bandaríkjunum sem hann segir að hafi hjálpaði sér að komast aftur á beinu brautina. ,,Þetta var mjög duglegt fólk og mikið músíkfólk og ég var greinilega móttækilegur. Hjónin áttu þrjú börn og einn sonurinn var að útskrifast frá Juliard tónlistarskólanum í New York. Hann
var klarínettuleikari en á heimilinu var gamall saxófónn sem hann hafði átt og ég fékk að leika mér með. Ameríska mamma mín heyrði í mér og pantaði tíma í hljóðfæranámi. Ég hef líklega verið nokkuð músíkalskur því eftir tvo mánuði var ég svo kominn í skólahljómsveitina. Þarna fékk ég góðan grunn og þegar ég kom heim til Íslands var ég tekinn inn í hljómsveitina Alto sem seinna varð Roof Tops. Ég var reyndar rekinn úr þeirri sveit því Guðni Pálsson arkítekt var miklu betri saxófónleikari en ég,” segir Heimir og hlær.
Heimir og Jónas og Hótel jörð
Skólabróðir Heimis í MR var Jónas Tómasson og samvinna þeirra varð gjöful. ,,Við Jónas kynntumst í MR en áttum ekki margt sameiginlegt utan það að vera góðir í ensku. Hann hafði búið um
tíma í Bandaríkjum með foreldrum sínum og ég hafði verið skiptinemi. Við fórum að æfa saman og spila hingað og þangað. Svo heyrði Pétur Pétursson, aðalþulurinn hjá ríkisútvarpinu til margar ára og pabbi Ragnheiðar Ástu, af okkur en hann var aðal umboðsmaður listafólks, eða ,,umbinn” á landinu á þeim tíma. Sjónvarpið byrjaði 1965 og þá var ekki búið að semja við FÍH. Þá voru allir sem eitthvað gátu í tónlist dregnir á svið og Andrés Indriðason fékk okkur Jónas til að gera þætti um Tómas Guðmundsson og Davíð Stefánsson. Við áttum að vera með tvö frumsamin lög og tvö þekkt. Við fengum dásamlega söngkonu, Vilborgu Árnadóttur, til að syngja með okkur og það heppnaðist svakalega vel. Eftir þáttinn þar sem Vilborg söng Hótel Jörð hringdi Svavar Gests í mig og bauð okkur að fara til London og vinna plötu með því skilyrði að Hótel Jörð yrði á þeirri plötu. Þetta var eins og himnasending því það var draumur allra að fá að fara til London og gera plötu og við vorum allt í einu komin í þann hóp. Þá héldum við að við værum búin að ,,meika það” og framtíðin blasti við okkur. Daginn þar á eftir hringir Vilborg í mig og segir mér að því miður megi hún ekki syngja með okkur lengur. Hún var þá að læra klassískan söng hjá Engel Lund (Göggu Lund) sem var gúrúinn á þessum tíma. Engel sagði henni að hún yrði að velja hvar hún ætlaði að verja kröftum sínum og gæti ekki verið bæði að æfa klassískan söng og syngja dægurlög. Þarna var Diddú ekki búin að afsanna þessa bábilju. Þetta var því miður tímanna tákn og Vilborg hætti með okkur. Þá voru góð ráð dýr og við þurftum að finna aðra söngkonu því við áttum eftir að gera þátt um Davíð Stefánsson. Við fengum þá unga stúlku, Þóru Kristínu Johansen, sem seinna varð atvinnutónlistarmaður í Hollandi. Hún átti samt ekki roð í Vilborgu sem var með svo einstaka rödd. Rödd Vilborgar var allt of mjó til að vera klassísk söngkona en dásamleg í öðru samhengi. Þóra söng svo með okkur í næsta þætti en þá kom Svavar til mín og sagði: ,,Nei, þetta var ekki það sem ég var að biðja um,” svo við fórum aldrei til London og þriðji þátturinn var aldrei tekinn upp. Frægði lék um okkur í tvo daga en ekki söguna meir,” segir Heimir og hlær. ,,Reyndar hljómaði Hótel Jörð í 30 ár sem ég er mjög þakklátur fyrir.“
Tannlæknar verða að vera góðir handverksmenn
..Það kom mér á óvart hvað ég átti auðvelt með að hætta að vinna,” segir Heimir. ,,Ég fer mjög sáttur frá borði þar því ég veit að dagsverkið var vel unnið. Ég hélt ég myndi sakna vinnunnar meira en ég gerði þótt mér hafi þótt gaman í vinnunni hvern einasta dag. Mér lá svo á að byrja að vinna að ég var ekki einu sinni viðstaddur útskriftina mína,” segir Heimir og hlær.
Heimir segist alltaf hafa haft gaman af að vinna með höndunum og fullyrðir að ekki sé hægt að vera góður tannlæknir nema vera góður handverksmaður.
Áhugamálin mikilvæg
,,Ég hafði heyrt að allir þyrftu að vera búnir að koma sé upp áhugamáli þegar að starfslokum kæmi og ég er svo heppinn að hafa nóg af þeim,” segir Heimir sem hefur nú nægan tíma til að sinna þeim öllum. Eitt af áhugamálum hans er garðyrkja sem hann stundar af miklum eldmóð við sumarhús þeirra í Svíþjóð. Heimir og eiginkona hans, Anna Lovísa Tryggvadóttir keyptu þetta sumarhús 2003 þegar dóttir þeirra bjó í Svíþjóð. Hún er nú flutt heim en sonur þeirra fluttur þangað svo Heimir og Anna eiga enn brýnt erindi þangað reglulega.
Hann er í Rotaryklúbbi, spilar golf, spilar mikið á píanóið, syngur með Gömlum Fóstbræðrum, þ.e. eldri deildinni sem hann segir að sé ótrúlega skemmtilegt og svo er hann í badminton tvisvar í viku. Síðan er hann í ,,afreksmannahópi Gauta Grétarssonar” hjá Sjúkraþjálfun Reykjavíkur.
,,Stór hluti af árangri er eljusemi og hana hef ég ræktað með mér eftir að hafa rekist á vegg í byrjun,” segir Heimir Sindrason sem nýtur þess að vera hættur að vinna og hefur nú meira að segja tíma til að sinna barnabörnunum þegar með þarf, og nú er komið eitt barnabarnabarn og annað á leiðinni.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.