Þórunn Sveinbjörnsdóttir fyrrverandi formaður LEB skrifar
Á undanförnum árum hefur oft komið upp sú umræða meðal eldra fólks hversu erfitt og oft leiðinlegt það sé að elda mat fyrir einn. Sú breyting sem oft verður á efri árum, að fólk fer að búa eitt af ýmsum ástæðum, veldur miklum breytinum á innkaupum. Þeir sem hafa verið í hlutafæði á vinnustað upplifa einnig gjörbreytt líf. Það sem fólki liggur á hjarta, er hversu margt er ekki passlegt fyrir einn í matvöruverslunum. Það er ríkjandi einhæfni í pökkun matvöru sem mjög oft er annaðhvort 500 gr. eða nálægt því sem þarf fyrir þrjár mannsekjur. Ef álegg er tekið sem dæmi, þá er það oftast í pakkningum sem miðast við að tveir séu í heimili að minnsta kosti. Einnig er áberandi að oststykki eru svo stór að þau enda oft í skorpu í lokin. Hvað er til ráða? Nú nýlega kom út matreiðslubók frá Nönnu Rögnvalds: Matur fyrir einn. Þetta er þjóðþrifaverk en enn er vandinn sá sami; magnið í verslunum. Margar þjóðir hafa áttað sig á hversu stór þessi neytendahópur er og brugðist við með fjölbreyttari pakkningum og félagasamtök hafa einnig auglýst eftir matarvinum.
Danir eru þar á meðal og setja inn smáauglýsingar eftir spiseven. Það gengur mjög vel bæði með hittingi og líka í netsamskiptum þar sem fólk rabbar saman meðan borðað er og skiptist á að gefa „tips“ um matinn. Slíkt er vel framkvæmanlegt.
Margt eldra fólk hér stólar á að borða í félagsmiðstöðvum og þá veltur allt á að maturinn sé góður og hollur. Það er nefnilega þannig að það að fara í mat er ein af frumþörfum mannsins. Að njóta hans er mjög mikils virði. Oft er matur sem eldra fólki er boðið uppá ágætur en alltof oft ekki nægjanlega fölbreyttur. Vöntun á fersku grænmeti og auknu vali er orðin mjög bagaleg og veldur óánægju. Þetta á þó ekki við um öll sveitafélög og svo eru líka sveitafélög sem hafa alls ekki mat á boðstólum hvað þá niðurgreiddan.
Margt fólk segist gjarnan vilja borga meira til að fá betri og fjölbreyttari mat. Heimsendur matur er líka í boði sumstaðar og þar er vandinn sá að val er lítið. Kvartanir yfir heimsendum mat koma þannig fram að fólk hættir að kaupa hann. Þó er mjög stór hópur sem notar þessa mikilvægu þjónustu svo fólk geti búið lengur heima. Mjög mikill munur er á viðhorfum milli kynja þegar kemur að matnum. Aðstandendur eru oft í sterkum tengslum við sína nánustu með innkaupin og líka eldun.Fræðsla um hollt mataræði við hæfi á efri árum er mjög mikilvæg því þarfirnar breytast með aldrinum og nýjar áskoranir koma. Hægt er að halda sjúkdómum niðri með réttu mataræði einnig er hægt að auka styrk með próteinríkum mat. Munum að drekka vatn og taka lýsi. Það getur verið mikil hjálp í því. Nýleg ritgerð eftir Ilmi Kristánsdóttur um matarsóun og eldra fólk fjallar m.a. um einmanaleika og hvernig eldra fólk vill gjarnan elda saman. Þarna er mikil áskorun fyrir sveitafélög og félagasamtök. Skorum á sveitastjórnarfólk í kosningahug að kynna sér hollt mataræði fyrir eldra fólk svo líðan fólks á geti orðið enn betri.