Það var mikil stemming á 40 ára afmæli Kvennaframboðsins, þegar konur komu saman í Veröld húsi Vigdísar Finnbogadóttur, til að fagna þessum tímamótum. Stórt skref var stigið í íslenskri pólitík þegar konur ákváðu að bjóða fram sérlista í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík og bæjarstjórnarkosningum á Akureyri árið 1982. Á vefnum kvennalisti.is segir svo um valdaleysi kvenna á þeim tímum þegar Kvennaframboðin og seinna kvennalistinn urðu til
Valdaleysi kvenna
- Konur voru lítt sýnilegar í stjórnmálum.
- Konur voru ekki þar sem mikilvægar ákvarðanir voru teknar.
- Konur höfðu ekki aðgang að fjölmiðlum.
- Konur voru 6% kjörinna fulltrúa í sveitastjórnum árið 1978 á landsvísu. Hlutfallið var 20% í Reykjavík sem er þó nokkuð lægra en 1908 þegar konur buðu fram sérstakan kvennalista og fengu 26,7% atkvæða.
- Þrjár konur sátu á Alþingi af 60 þingmönnum árið 1983 þegar Kvennalisti bauð fram. Frá upphafi höfðu aðeins 12 konur setið á þingi.
- Engin kona var í ríkisstjórn.
- Hlutfall kvenna var 7% í stjórnum, nefndum og ráðum ríkisins árið 1980.
- Stjórnmálaflokkum var nær eingöngu stjórnað af hópi karla sem setti leikreglur á sínum forsendum en tóku ekki mið af reynsluheimi kvenna.
Í Reykjavík fengu konurnar tvo borgarfulltrúa árið 1982, en þær voru Guðrún Jónsdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Magdalena Schram var fyrsti varaborgarfulltrúi. Guðrún Jónsdóttir lætur ekki deigan síga þó árunum fjölgi. Hún var með ræðu á afmælisfundinum og rifjaði það upp þegar hún gekk til liðs við Kvennaframboðið fyrir 40 árum og helstu baráttumálin. Síðan spurði hún; Hvað hefur breyst?? Og svaraði því þannig:
Þjónusta við börn hefur aukist verulega þó enn vanti talsvert upp á.
Íbúalýðræðið í Reykjavík lýsir sér helst þannig að íbúar hverfanna fá að kjósa um hvort er sett upp borð eða bekkur.
Það hefur svo sannarlega fjölgað konum á Alþingi og í sveitarstjórnum, en hefur það breytt einhverju? Það er erfitt að hafa sterkar skoðanir sem ekki fá hljómgrunn hjá meirihlutanum, það þarf takmarkalaust þrek og baráttuvilja til að gefast ekki upp. Lengi vel hefur maður ekki séð svo mikið sem smá neista róttækrar kvennabaráttu á Alþingi að maður nefni nú ekki borgarstjórn. Hvað veldur?
Í Kvennaframboðinu bjargaði það minni sálarheill og efldi baráttuþrekið og sjálfsagt átti það við um fleiri konur, að vera með í allskonar uppákomum; breytast í fegurðardrottningu , neita að borga fullt verð fyrir vörur í búðum krefjast afsláttar í samræmi við launamun kynjanna, klæða styttur borgarinnar af körlum í kjóla.- einu sinni kostaði þetta handtöku, en nóg um það.
Ég get ekki stillt mig um að lesa tvær stuttar bókanir okkar Möllu á fegurðardrottningafundinum.
Vegna 24 liðar fundarg. Borgarráðs 4. Júní.
Þetta er eitt af þessum hryllilega ruglingslegu málum, sem ómögulegt er að botna í. Davíð segir að það séu nóg bílastæði fyrir alla við Grettisgötu en Sigurjón og strákarnir í minnihlutanum segja að það sé bara ekki satt hjá Davíð. Er það nokkur furða þó við ruglumst í ríminu.
Og
Vegna 60. Liðar fundarg byggingarnefndar 30. Maí
Svona mál finnst okkur alveg hræðileg. Hugsa sér að borgarstjórinn og félagsmálaráðherra skuli vera farnir að rífast um einhver týnd mæliblöð. Maður verður nú bara óöruggur. Og aumingja verktakinn að lenda svo í rifrildi við íbúana. Þetta hefst upp úr því að vera alltaf að kynna allt fyrir fólki. Það endar nú bara með því að ekkert verður hægt að byggja í borginni. Er ekki bara best að þið ráðið þessu. Við erum alveg hlutlausar.
En aftur að alvörunn i
Launamunur kynjanna – þreytt umræðuefni. En þarna getur verið um að ræða allskonar – sko- launamun – óleiðréttan launamun og leiðréttan launamun. Munur á atvinnutekjum karla og kvenna 2020 var 25.5 % ,- óleiðréttur launamunur – það er þegar tekið er mið af vinnustundafjölda að baki laununum var munurinn kominn niður í 13.9%. En eins og þið vitið nenna konur ekki að vinna meira, velja að dútla við að sækja krakkana, kaupa í matinn og jafnvel líta við hjá foreldrum eða afa og ömmu sem nú kallast almennt fráflæðisvandi.
En leiðréttur launamunur hefur verið fundinn upp – þar sem þess er gætt að bera saman kynin eftir sambærilegum eiginleikum og sambærilegum störfum, með eiginleikum er átt við m.a.menntun, starf og atvinnugrein. Með þessari aðferð er munurinn lækkaður niður í 4.3% og er skv. þessari skýrslu Hagstofunnar helst skýrður með vel þekktri áráttu kvenna að sækja í láglaunastörf og ekki nóg með það, ef þær leggja í háskólanám velja þær brautir sem skila lægri launum, svona einhverskonar dútl í kringum fólk.
Maður spyr sig hvort við sköpun hávísindalegra reiknilíkana Hagstofunnar hafi engum dottið í hug sú einfalda skýring að hefðbundin kvennastörf séu alltaf vanmetin til launa.
Meira að segja Mogginn sagði í tilefni útkomu þessarar skýrslu „ kynbundinn launamunur fer hægt minnkandi.
Eini sjáanlegi neisti kvennabaráttu þessa dagana er barátta kvenna gegn kynferðisofbeldi. Konur sem hafa gefist upp á réttarvörslukerfinu, lögreglu og dómstólum, hafa tekið til sinna ráða, koma fram opinberlega og segja sína sögu. Það er fullkomlega eðlilegt að þegar kerfið virkar ekki verður að berjast annarstaðar og með öðrum hætti. Vegna þessarar umræðu hafa nokkrir karlar hrakist úr stöðum sínum ,- við eigum nú samt ennþá eftir að sjá hversu lengi það endist. Sú breyting hefur orðið að varla nokkur maður lætur í ljós þá skoðun að konur beri ábyrgð á að þær séu beittar ofbeldi, það er ekki lengur stuttum pilsum að kenna. Ég man bara eftir einum fyrrverandi hæstaréttardómara sem sagði um daginn að besta ráðið við byrlunum væri að konur drykkju minna.
Ekki er sjáanlegt að kynferðislegt ofbeldi eða annað ofbeldi gegn konum og börnum hafi minnkað,tölur benda í þveröfuga átt.
Fjölgun kvenna á Alþingi, í sveitarstjórnum og öðrum valdamiklum embættum hefur vissulega skilað tugum eða hundruðum kvenna hærri launum og setu við stjórnarborðin, – en hverju hefur þetta skilað til allra hinna kvennanna. Hvað eiga konur að bíða lengi.
Besta afmælisgjöf Kvennaframboðsins væri að konur legðu niður vinnu, fylktu liði streymdu út á göturnar og netmiðlana, krefðust sómasamlegs réttarkerfis, raunverulegs jafnréttis í launamálum og alls hins sem upp á vantar.
Eru við ekki búnar að fá nóg?