Ellilífeyrir fylgi lágmarkslaunum og bótakerfi verði einfaldað

„Láglaunafólk, aldraðir og öryrkjar eru að festast í fátæktargildru. Umtalsverð hækkun lægstu launa á að vera forgangsverkefni í kjarasamningagerð næstu ára og hækkun bóta almannatrygginga á að fylgja slíkum hækkunum. Einfalda þarf bótakerfið, lífeyrisþegum til hagsbóta. Ellilífeyrir fylgi jafnframt lágmarkslaunum“, segir í stefnu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, fyrir alþingiskosningarnar eftir rúma viku.  Þar segir líka að fjölga þurfi hjúkrunarrýmum og sjá til þess að aldraðir fái lifað með reisn.

„Stórefla þarf heimahjúkrun og heimaþjónustu og huga sérstaklega að þörfum langveikra. Rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila á best heima á hendi hins opinbera eða sjálfseignarstofnana og veraldlegra félagasamtaka sem ekki eru rekin í ábataskyni. Setja þarf af stað vinnu við að endurskoða þjónustulíkan í öldrunarþjónustu, með áherslu á þverfaglega samvinnu.

Mikilvægt er að ný hugsun í þjónustu við eldra fólk festi rætur og að hinn eðlilegi þjónustuvettvangur sé þar sem hinn aldraði kýs, en ekki á forsendum þjónustuaðila eða stofnana.“


Á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sem var haldinn síðast liðið vor, kom fram að hreyfingin telur að auka þurfi fjölbreytni í búsetuúrræðum aldraðra í því skyni að vinna bug á einmanaleika og félagslegri einangrun aldraðra en ekki síður til að bjóða upp á húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Fjölga þurfi búsetuúrræðum sem eru þjónustuíbúðir til leigu þar sem boðið er upp á sólarhringsvakt, mat og félagsstarf.

Tekið var fram að útiloka þyrfti  gróðasjónarmið við uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimila því arðsemiskröfur ættu ekki heima þar.

Ítrekað var að aldraðir eigi að geta búið heima eins lengi og þeir vilja og geta. Þar skipti mestu máli samþætting þjónustu ríkis og sveitarfélaga, heilsugæslunnar, heimaþjónustu og heimahjúkrunar með viðunandi kvöld- og helgarþjónustu. Efla þyrfti nýsköpun í þjónustu við aldraða og vonir væru bundnar við velferðartækni ýmiss konar sem gjörbyltir möguleikum fólks til að geta búið heima.

Lögð var áhersla á að samþætta þyrfti þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Skipulag heilbrigðisþjónustu taki mið af ört vaxandi fjölda aldraðra. Efla þarf þjónustu á hjúkrunarheimilum, einkum með þverfaglegum teymum þar sem, auk starfsfólks sem nú þegar starfar þar, verði bætt við og lögð sérstök áhersla á geðvernd, iðjuþjálfun og tannvernd.

Ritstjórn september 16, 2021 11:00