Þegar fólk fær sér gleraugu með margskiptum glerjum þarf að hugsa um að spangirnar séu nógu stórar. Friðleifur Hallgrímsson hjá gleraugnaversluninni PLUSMINUS í Smáralind, segir að það sé ekki vandamál í dag, þar sem það sé í tísku að vera með nokkuð stór gleraugu. „Glerin eru mæld upp eftir umgjörðinni sem er valin þannig að miðjan í glerinu sé á réttum stað“ segir Friðleifur. Hann segir annað sem menn tali ekki mikið um, en það er hversu mikill munurinn sé á gæðum og verði þessara glerja. „Það er himinn og haf þarna á milli“.
Mikill verðmunur
Glerin eru stöðugt að þróast og í nýjustu glerjunum er sjónsviðið við lestur mun breiðara en í eldri gerðum. Eldri glerhönnun kostar um 50.000 krónur parið, en þau nýjustu 115.000 krónur. Það sama gildir um spangirnar. Þær geta kostað allt frá tæpum 20.000 krónum upp í rúmlega 60. 000 krónur. Góð spöng frá góðu vörumerki úr gæðamálmi, kostar um 40.000 krónur og þar yfir. „Það er ekkert annað lögmál sem gildir í gleraugum, en þegar menn kaupa sér skó eða bíla“, segir Friðleifur. Menn greiði meira fyrir Toyota Landcruiser en Toyota Yaris. Þannig fái menn mismunandi gæði sem þeir greiði mismunandi mikið fyrir.
Fer eftir andlitsfallinu
Það þarf að gæta að ýmsu þegar menn velja sér gleraugnaspangir. Friðleifur segir að fólk komi oft til þeirra með ákveðnar hugmyndir. Það hafi séð gleraugu hjá vinum, eða jafnvel í bíómynd, sem það langi í. Það fari eftir andlitsfalli hvers og eins hvernig gleraugu fari best, en það sé alveg númer 1,2 og 3 að gleraugum passi. „Breiddin þarf að vera góð miðað við andlitsfallið, spöngin verður að sitja vel á nefinu og það þarf að sjá í augun“, segir hann.
Samræmi verður að vera
Það fari kringluleitu fólki ekki endilega vel að vera með kringlótt gleraugu, eða þeim sem hafa ferkantað andlit að vera með kassalaga gleraugu. Langleit manneskja eigi ekki að vera með gleraugu sem geri hana enn langleitari. „En um þetta er ekkert hægt að alhæfa“, segir Friðleifur. Hann segir mikilvægast að gott samræmi sé milli andlitsfalls og gleraugnanna sem valin eru. Efri brún þeirra eigi svo að bera nokkurn veginn við augabrúnirnar.
Stór gleraugu fara ekki öllum
En það er tíska í gleraugum eins og öðru. Stór gleraugu fari samt ekki öllum segir Friðleifur. Það sé ekki fallegt ef þau beri andlitið ofurliði. Stórar svartar gleraugnaspangir séu heldur ekki endilega teknar fyrir eldra fólk. Það megi segja, að almennt séu gleraugnaspangir að léttast. Léttastar séu titan umgjarðirnar og svo spangir úr gæðaplasti, en þær eru yfirleitt í dýrari kantinum.
Styrkir til gleraugnakaupa
Mörg stéttarfélög veita sínu fólki styrk til gleraugnakaupa og það þekkist líka að atvinnurekendur veiti starfsmönnum styrki til að kaupa vinnugleraugu. Það er misjafnt hversu háir styrkir verkalýðsfélaganna eru og líka hversu oft menn eiga rétt á þeim. Hjá BSRB er styrkurinn til dæmis að hámarki 40.000 krónur, en lágtekjufólk í VR á rétt á 25.000 króna gleraugnastyrk á tveggja ára fresti. Greiða þarf skatt af styrkjunum. Það er ástæða fyrir fólk sem þarf að fá sér gleraugu að kynna sér hvernig þessum málum er háttað í þeirra stéttarfélagi og á þeirra vinnustað.