Hjónin Kristín Finnbogadóttir og Snæbjörn Gíslason eru nú „setzt í helgan stein“ eins og sagt er, eftir langa og farsæla starfsævi. Þau byrjuðu bæði að vinna þegar þau voru 14-15 ára eins og tíðkaðist í sjávarplássum landsins þá, en þau eru bæði alin upp á Patreksfirði. Þau fóru bæði á eftirlaun „rétt fyrir kóf“, árið 2019.
„Það var óneitanlega anzi sérstakt að fara á eftirlaun og geta svo ekki ferðast,“ segir Kristín, en bætir við að þau hafi reyndar alltaf haft mikla ánægju af að ferðast innanlands svo að takmarkanirnar á ferðafrelsinu til útlanda hefðu nú ekki háð þeim mikið.
Snæbjörn, sem var lengi skipstjóri á fiskiskipum gerðum út frá Patró, fór reyndar í eftirminnilega vinnuferð eftir að hann var formlega hættur að vinna, í miðjum kórónuveirufaraldrinum árið 2020. Þá bauðst honum að fara til Gijon á Spáni til að taka þátt í að sækja nýjan verksmiðjutogara sem var smíðaður þar og sigla honum til Íslands, en svo vill til að yngri sonur þeirra, Finnbogi Helgi, er 1. vélstjóri á þessu glæsilega skipi sem nú ber nafnið Ilivileq og er gert út á Grænlandsmiðum. Vegna strangra sóttvarnaráðstafana sem voru í gildi á þessum tíma, sérstaklega á Spáni, var leigð flugvél til að fljúga áhöfninni beina leið til Gijon. Þar var dvalið um borð í skipinu i 2 vikur og síðan siglt heim.
Barna- og barnabarnalán
Saman eiga Kristín og Snæbjörn synina Gísla, sem er 1. stýrimaður á Guðmundi í Nesi, og fyrrnefndan Finnboga Helga, en í kring um aldamótin 2000 bættist þriðji sonurinn við, Rune Kenneth. Þá kom í ljós að áður en þau Snæbjörn og Kristín byrjuðu saman hafði barn komið undir úti í Noregi, sem Snæbjörn vissi ekki af fyrr en það var orðið 29 ára gamalt og leitaði blóðföður sinn uppi. Kristín segir að þau hjónin og synir þeirra tveir hefðu strax tekið sameiginlega ákvörðun um að bjóða „týnda norska soninn“ velkominn í fjölskylduna. Hann á engin önnur systkini, en á nú konu og þrjú börn. Samtals eru barnabörnin orðin átta talsins; Gísli á tvö og Finnbogi Helgi þrjú. Það elzta er orðið 27 ára og það yngsta 13.
„Þetta er nú mesta ríkidæmið okkar,“ segir Kristín um barna- og barnabarnalánið.
Frá Patreksfirði til Frakklands – með stuttri viðkomu í Reykjavík
Fjölskyldan bjó á Patreksfirði fram til ársins 1996, en þá fluttu þau suður. Þau hjónin eignuðust börnin ung, unnu mikið og voru búin að koma sér upp einbýlishúsi þegar þau voru 27 ára. Snæbjörn var mest á sjónum og Kristín í verzlunar- og þjónustustörfum; á tímabili vann hún á sýsluskrifstofunni. Síðustu tíu árin fyrir vestan ráku þau fiskvinnslu, fyrst í samvinnu við annan en ein eftir það. Verkuðu aðallega saltfisk og harðfisk.
En þegar kom fram á miðjan tíunda áratuginn voru synirnir farnir að búa í Reykjavík vegna náms og starfa, og þau hjónin fluttu á eftir þeim. Reyndar voru þau rétt að byrja að venjast lífinu í höfuðborginni þegar þau fluttu til Frakklands. Snæbirni, sem var farinn að vinna fyrir Samband íslenskra fiskframleiðenda, bauðst að taka að sér að annast rekstur saltfisksbirgðastöðvar SÍF fyrir Suður-Evrópu, sem starfrækt var í bænum Jonzac í Suðvestur-Frakklandi, nálægt Bordeaux. Þar áttu þau fjögur góð og viðburðarík ár.
Á þessum slóðum tala heimamenn varla stakt orð í öðru máli en frönsku, og þegar þau Kristín og Snæbjörn fluttu þangað kunnu þau ekki stakt orð í því máli. Allt blessaðist þetta samt, og þegar á leið voru þau farin að geta bjargað sé ágætlega á frönskunni. Kristín starfaði líka við rekstur birgðastöðvarinnar, þurfti til dæmis að geta pantað vörubíla og skipulagt flutninga, svarað í símann og svo framvegis, svo að það var ekki annað að gera en að læra fljótt að bjarga sér á franskri tungu.
Ekið um Evrópu
Snæbjörn bætir við að áður en þau fluttu til Frakklands var eina reynslan sem hann hafði af því að aka bíl utan landsteina Íslands verið í Færeyjum. En búandi á meginlandinu var auðvelt að ferðast út um allt á bíl, sem þau gerðu óspart. Áttu oft erindi yfir Pýreneafjöllin til Barcelona, þar sem SÍF starfrækti líka skrifstofu, og til Bilbao og víðar á Spáni. Fóru líka einu sinni í langa ferð austur um álfu, í gegn um Þýzkaland til Tékklands og víðar. „Við vorum hins vegar búin að búa í heilt ár í Frakklandi áður en við komum í fyrsta sinn til Parísar!,“ segir Kristín.
Þau fluttu aftur heim frá Frakklandi árið 2002. Snæbjörn vann áfram hjá SÍF og síðar Iceland Seafood. Þar var reglan sú að menn færu á eftirlaun 66 og hálfs árs gamlir. Þeim aldri náði hann snemmsumars 2019. Kristín fór að vinna fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra og síðar Iceland Travel, og var nýbúin að semja um starfslok sín þar þegar kórónuveirufaraldurinn skall á og stöðvaði nánast alla slíka starfsemi.
Þótt á eftirlaun sé kominn á Snæbjörn reyndar erfitt með að slíta sig frá sjómennskunni. Á sumarvertíðinni gerir hann út handfærabát, sem annar sonurinn og félagi hans eiga með honum. „Ég fer stöku sinnum með út,“ segir Kristín, „en bara þegar veðrið er gott“.
Ferðalög framundan, innanlands og utan
Nú eru þau farin að huga að frekari ferðalögum. En vilja njóta mests af sumrinu á Íslandi; fara t.d. í ágúst í laxveiði, sem þau stunda vanalega í sinni heimasveit, í Fjarðarhornsá í Kollafirði á Barðaströnd, og í berjamó að tína vestfirzk aðalbláber.
Hvað frekari ferðaplön varðar segjast þau hjónin „vera meira Evrópufólk“. Það séu margir staðir í Evrópu sem þau langi að heimsækja. En taka þó fram að þau hafi líka prófað að ferðast á fjarlægari slóðir; mættu til dæmis í ævintýralegt þriggja daga brúðkaup á Indlandi eitt sinn, þau hafa farið í kórferðalag til Rússlands og heimsótt Kúbu. Þetta hafi allt verið mjög áhugavert, en erfitt hafi verið að horfa upp á sárafátæktina sem við blasti bæði á Indlandi og Kúbu. „Yndislegt fólk, en það er átakanlegt að upplifa fátæktina, komandi frá velmegunarlandi eins og Íslandi,“ segir Kristín.
„Svo eigum við náttúrulega oft erindi til Noregs, þar sem „norski sonurinn“ og fjölskylda býr.“ Hann vinnur hjá PricewaterhouseCoopers (PwC), og vann reyndar í eitt og hálft ár hjá því fyrirtæki á Íslandi. „Það var 2001-2002; hann var búinn að vera hérna í hálft ár áður en við fluttum heim frá Frakklandi,“ segir Kristín. Hann hafi lagt sig fram um að læra íslensku og rækta sínar íslenzku rætur, sem hann vissi ekki af fyrr en á fullorðinsárum.
Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. Viðtalið birtist fyrst í apríl á síðasta ári og hefur verið uppfært.