Guðríður B. Helgadóttir hlær glaðlega þegar ég hringi í hana í vikunni. Ég sagði henni að ég hafi verið fletta henni upp á Fésbók. „Maður verður að vera á Fésbók ef maður ætlar að fylgjast með,“ segir hún, og bætir við „Það þýðir ekkert annað.“ Hún segir að of fáir eldri borgarar hafi tileinkað sér tölvutæknina sem nú sé orðin allsráðandi í tjáskiptum fólks, en kom of seint fyrir suma í þessum aldurshópi. En næsta kynslóð er tæknivædd, sem ætti að koma henni til góða síðar
Guðríður sem er orðin 94 ára býr á Sauðárhæðum, dvalarheimili aldraðra á Sauðarkróki. Hún er fædd í Húnavatnssýslunni, og hefur búið norðan heiða nær alla sína ævi. Guðríður er tvígift og á sex börn. Hún gaf út ævisögu sína Þessi kona árið 2010. Í bókinni segir hún frá lífshlaupi sínu, baráttumálum og listsköpun. Brugðið er upp skyndimyndum í máli og myndum frá ýmsum tímum. Þannig varpar bókin í senn ljósi á umbrotasama tíma í samfélaginu og líf einstaklings sem fetar sig áfram á vegi gæfunnar, segir í kynningu á bókarkápu.
Félagsstörf og ferðalög
Guðríður er á því að hvert aldursskeið hafi sinn sjarma. „Ég er svo heppin að fá að halda enn tiltölulega heilli hugsun, miðað við aldur, þakka það ekki síst þeirri staðreynd að ég afsagði að vera kastað á haug aðgerðaleysis eða sett í geymslu einhversstaðar. Sjálfsbjargarhvötin og sjálfstraustið hjálpaði til við að búa sér annan vettvang og verustað ásamt maka og vinveittum gestum. Yrkja nokkra hektara af landi með trjárækt og fleiru til skjóls og skrauts og sinna handavinnu í ígripum,“ segir hún. Guðríður segir að á milli sjötugs og níræðs hafi hún sinnt félagsstörfum, ferðast bæði innan lands og utan en svo hafi verið komið gott. Þá hafi fyrirfram greiddum arfi veraldlegra efna og gæða verið útdeilt meðal afkomenda. Persónulegum minjagripum og nytjahlutum hafi verið pakkað saman og flutt á dvalarstað fyrir aldraðara. Þar sé heilsugæslan nálæg og vistmennirnir nokkurn veginn sjálfstæðir.
Vasapeningarnir skammtaðir
„Nema hvað kerfið reiknar með sjálftöku á öllum tekjum frá Tryggingarstofnun til endurgjalds og viðbót frá einstaklingnum eftir efnum og stöðu á bankabók, en skammtar „vasapeninga“ fyrir tannkremi og brýnustu nauðsynjum. Með þessum reglum er einstaklingurinn sviptur hluta sjálfsákvörðunarréttarins, sem mörgum reynist erfitt að átta sig á og veldur hugarangri. Það er fyrir löngu tímabært að endurskoða margt í Tryggingarstofununarflóruflækjunni. Þar hefur mörgum sviðið undan samskiptum og bakreikningum,“ segir Guðríður. Fjárhagslegt sjálfstæði eldra fólks fyrr og nú er tvennt ólíkt síðan tekjutrygging og lífeyrissjóðir komu til sögunnar. En það er þörf á endurskoðun á tryggingarkerfinu. Þar er margt gert allt of flókið og óskiljanlegt jafnvel reikningsglöggu fólki hvað þá gömlu, sem kemur vanbúið inn í þau samskipti. Ég er sjálfbjarga um margt en þurfi ég aðstoð, á ég vel menntuð börn og ættingja sem eru boðin og búin til að hlaupa undir bagga ef með þarf. Því miður eiga ekki allir slíku láni að fagna.
Góður matur eykur lífsgleði
Henni finnst líka að það mætti taka matarmál eldra fólks til skoðunar„Matinn vil ég hafa úr hollu og góðu hráefni, matreiddan á smekklegan og lystugan hátt. Um það hefur eldra fólk ekki neitt val, þegar inn er komið á stofnanir sem nýta sér færibandaframleiðslu skammtaþjónustunnar. Það eykur ekkert á lífsgleðina eða heilbrigðina hjá gamlingjunum og mætti breyta til bóta.“
Ætti að búa fólk undir ellina
Hún segir að meðan maður sé ungur þá sé um allt annað að hugsa en gera sér grillur út af ellinni. Þar er endirinn á óskráðri ævisögu svo víðs fjarri. „Ég held að það vanti líka alveg í mannfræðikennslu skólanna að búa fólk undir þá lífsreynslu. Sem þátttakandi í ferlinu hef ég séð hvað margur er vanbúinn til þeirrar ferðar og illa nestaður af aukakunnáttu til að skapa sér nýtt verksvið og áhugamál. Þar eru karlmenn yfirleitt langtum verr settir. Konur, til dæmis gamlar húsmæður sem vanar eru að gera hvað sem er og allt leikur í höndunum á, finna sér alltaf eitthvað til dundurs meðan sjón og sinna leyfir.“
Aldur er afstæð tilfinning
„Ég hef ekkert haft fyrir því að hugsa um hrukkur og grá hár, þær koma bara og fylgja manni áfram, dýpka kannski og lengjast smátt og smátt, en breyta engu um innihald hauskúpunnar eða getu til að finna sér mikilvægari viðfangsefni að glíma við. Að grípa þar inní með fegrunaraðgerðum sýnist mér fara misjafnlega og stöðvar engan veginn náttúrulega hrörnun.“ Guðríður segir að aldurinn sé afstæð tilfinning og einstaklingsbundin. Þar leiki stórt hlutverk skaplyndi hvers og eins, áhugamál og aðstæður. „Líkamsburðir eldast oft hraðar en andleg orka og vilji. Að hafa lag á að stilla saman þessa getu að einu afli til þeirra hluta sem gera skal, er ekki öllum gefið. Mér persónulega, finnst létta mikið hversdagsleikann, að taka eðlilega hrörnun líkamans eins og sjálfsögðu framhaldi og kapítula í lífsbókinni, reyna að vanda meðferð efnis og frágang eftir föngum. Hafa enn gott samband við barnið í sálinni og lofa því að hlaupa út og leika sér öðru hvoru. Finna alltaf eitthvert verkefni að glíma við og gleyma sér við að skapa nýja hluti, ný áhugamál. Mér finnst að enginn ætti að eyða tíma eða kröftum í að sitja og sakna þess sem var, heldur halda áfram að lifa lífinu sér og öðrum til gagns og góðs, svo lengi sem örlögin ætla okkur þá samfylgd og við getum fylgst með. „Það sem verður að vera, viljugur skal hver bera“, það léttir áhrifin. Ellin annaðhvort drepur án viðvörunar eða fylgir sem skuggi um óútskýrðan tíma. Maður eyðir ekki tímanum í að elta skuggann sinn og tapa á meðan af samferðafólkinu, einn í eyðimörk,“ segir hún.
Dauðinn eðlilegur endir
Hún segir að það sé mikið lán að geta tekið því sem eðlilegri þróun að finna líkamsþróttinn linast við að standa gegn sjúkdómum og hrörnun, finna hugsunina sætta sig við að fyrr eða síðar fái hún ekki að ráða gerðum næsta dags, en halda samt áfram að reyna að skila einhverju nothæfu verki hvern dag og taka því sem að höndum ber með æðruleysi. „Þetta er mín tilfinning gangvart dauðanum sem fyrir mér er bara eðlilegur endir á löngu lífi. Gagnvart mörgum er dauðinn miskunnarlaus kvalari, hrottafenginn böðull eða vægðarlaus barnaræningi, án nokkurrar tillitssemi gagnvart grátandi syrgjendum. Áhrif ástvinamissis eru svo víðtæk og margslungin að erfitt er að lýsa með orðum.“
Sloppið við stór áföll
Góð heilsa er þolanleg líðan og framkvæmdavilji hvern dag. Geta og kröfur hvers aldurstigs eru breytilegar og gæðamat heilsufars á elliárum ber lit af því. Það er svo margt sem stirðnandi líkama er ómögulegt að framkvæma þó sömu hreyfingar hafi verið leikur einn fyrir nokkrum árum, hvað þá á unga aldri. Hjá mörgum verður hreyfigetan svo skert að hjálpar er þörf við einföldustu verk. Heimaþjónusta bjargar víða og hjálpartæki koma að góðum notum fyrir marga, en svo verður vistun á deildum heilbrigðisþjónustu eina úrræðið. Sjálf hef ég ennþá sloppið við stóráföll, fer minna ferða án hjálpartækja og sá um mitt heimili án húshjálpar til 90 ára aldurs. Fékk reyndar seinustu 2 árin bílkeyrslu einu sinni í viku til að gera matarinnkaup, sinna bankaviðskiptum og fleiru eftir að maðurinn minn féll frá. En þegar aðstandendur og aðrir fóru að hafa meiri áhyggjur en ég, af því að vita „þessa gömlu þarna eina“ langt frá öllum, þá fór ég að huga að valkostum, sem ekki voru margir í boði, en sá sýndist mér hyggilegastur að fara beint í athvarf sem dygði til samfelldrar veru þar til heilsa og kraftar gæfu endanlega eftir og lognuðust útaf. Kostnaður á lyfjum og læknisþjónustu er hér innifalinn í dvalarkostnaði. Sem betur fer hef ég ekki verið mjög þung á fóðrum með þann munað, en afskaplega þakklát fyrir öryggið og aðbúðina á því sviði. Það er bókstaflega það sem mest er um vert fyrir fólk á þessum síðasta áfanga lífsins.
Tölvan og handavinnan styttir tímann
Ég hef sjálf ekki glímt við einmanaleika, en séð aðra í þeim sporum. Félagsþjónusta og sjálfboðaliðar koma víða til mikillar hjálpar, en alltaf er hætta á að einhver verði útundan og gleymist í erli dagsins. Að hafa sín eigin áhugamál og verkefni til að vinna við, með aðstoð þessarar þjónustu ef þörf er, kemur að bestu gagni. Samskiptin við ættingja og vini er lífsnauðsynleg geðhjálp og aldrei ofmetin né af nógum skilningi rækt. Ég á mér mörg áhugamál, en sinni þeim misjafnlega eftir aðstæðum, því hefur aldurinn ekkert breytt, aðeins bætt við fleirum og skerpt önnur í deiglu lengri skoðunar. Ég vinn mikið í höndum, les og hlusta á útvarp, nota síma og tölvutækni til samskipta, bankaþjónustu og fjarskipta. Þetta allt gerir mér lífið léttara og auðveldar mannleg tengsl.“