Síðustu tvö árin sem ég sá ég algerlega um að annast manninn minn veikan voru erfið. Ég væri að ljúga ef ég héldi því fram að mér hafi aldrei dottið í hug að leita huggunar hjá öðrum karlmanni á þessum tíma. Ég var að drukkna í verkefnum sem tengdust umönnuninni og hungraði í nánd og blíðu. En ég gerði aldrei neitt í málinu. Svona hefst grein á bandaríska vefnum aarp, sem fer hér á eftir stytt og endursögð
Hvers vegna gerði ég ekkert? Það er ekki flóknara en það að ég hafði hvorki tíma né orku til að vera í öðru sambandi, hvað þá til að finna einhvern til að vera með. Ég var í fullri vinnu, var með tvo unglinga og varð að sjá um að allt gengi upp dags daglega hjá okkur öllum. Einu stundirnar sem ég átti í ró og næði, voru þegar ég stoppaði í umferðinni á rauðu ljósi. Ég átti fullt í fangi með líf mitt og það síðasta sem mig vantaði voru meiri flækjur.
Það þýðir ekki að ég hafi verið hamingjusöm. Ég var hætt að vera eiginkona mannsins míns og félagi löngu áður en hann hætti að draga andann. Ég var orðin verkefnisstjóri og sá algerlega um þarfir hans. Ég sá um nauðsynlega hjúkrun og umönnum sem ég hafði enga þjálfun í og var algerlega óundirbúin að gegna. Ég fæ enn martraðir vegna þessa. En meira að segja þegar hjónaband mitt líktist ekki lengur á nokkurn hátt, því sem við lögðum upp með fyrir áratugum, gat ég ekki fengið mig til að vera með öðrum manni, ég var eins og lömuð. Þaninig að ég átti aldrei í öðru sambandi.
Ég lét mig kannski dreyma, en það er önnur saga.
Sannleikurinn er sá, eins og fram kom í grein í Psychology Today árið 2019, að í raun hefur sá sem er orðinn umönnunaraðili maka sem er orðinn veikur, aðeins þrjá kosti og þeir eru allir ömurlegir.
- Það er hægt að yfirgefa veika makann, með því að fara í burtu og skilja við hann.
- Það er hægt að afneita þörfinni fyrir rómantík og tilfinningalega nálgun.
- Það er hægt að uppfylla þessar þarfir með öðrum en makanum.
Það er engin rétt leið og engin röng heldur í þessari stöðu. Þessar þrjár leiðir hafa allar í för með sér að það þarf að taka erfiðar ákvarðanir, nema fólk líti svo á að það sé sérstök gjöf að fá aða annast makann alvarlega veikan, en ekki lýjandi skylda eins og mér fannst það vera. Ég fann alls ekki fyrir nokkurri gleði í því að þurfa að taka þetta hlutverk að mér. En ég tók bestu og einu ákvörðunina fyrir sjálfa mig, eins og við gerum öll. En nei, ég er ekki hneyksluð á því að mörg hjónabönd liðast í sundur þegar annar makinn þarf orðið unönnun. Að sjá algerlega um makann sinn og allar hans þarfir, breytir öllu, líka jafnvæginu í sambandinu.
Og bara svo því sé haldið til haga. Það er engin tölfræði til yfir þá sem velja þriðju leiðina, að leita annað til að fá þarfir sínar fyrir ást og kynlíf uppfylltar, þegar makinn er orðinn langveikur. Fæstir vilja ræða þetta, vegna viðhorfsins sem þeir mæta.
„Það er litið þannig á að þú sért að yfirgefa veikan og deyjandi maka þegar hann þarf mest á þér að halda. Fólk skilur ekki þarfir heilbrigða makans og lítur hreint ekki þannig á að hann þurfi líka á hjálp að halda“, sagði umönnunaraðili sem ég ræddi við. „Dómstóll götunnar virðist alveg sáttur við að fólk horfi alveg framhjá eigin þörfum“.
En það er áhugavert að mati greinarhöfundar að þeir sem annast maka með heilabilun eru ekki dæmdir jafn hart af almenningsálitinu og aðrir, taki þeir upp samband utan hjónabands. Það hefur líka verið töluvert skrifað um það, hvort það eigi hreinlega að líta á það sem framhjáhald ef fólk sem á maka sem þekkir það ekki lengur, tekur upp samband við aðra manneskju. Það eru einnig dæmi um það að heilabilað fólk sem komið er á hjúkrunarheimili taki upp ástarsamband við annan heilabilaðan einstakling sem býr á sama stað. Þá er það heldur ekki óþekkt að makar fólks með heilabilun hittist í stuðningshópum og taki upp samband sín í milli.
Það er mat þeirra sem til þekkja að fólk sem fer í sambönd utan hjónabands þegar maki er orðinn alvarlega veikur, sé ekki að leita að auðveldustu leiðinni út úr hjónabandinu. Þetta sé fólk sem sé komið á ystu nöf og í gríðarlegri þörf fyrir félagsskap.
Þá segir í greininni frá hjónum sem hafa verið gift í 35 ár. Þau hafa gert með sér samning sem kveðjur á um að verði annað hvort þeirra heilabilað, þannig að það geti engan veginn mætt þörfum makans, vilji þau að heilbrigði makinn verði frjáls að því að taka upp samband utan hjónabandsins.
Þau líta á þetta sem „ástartryggingu“ sem eigi að undirrita þegar báðir aðilar eru heilbrigðir. Konan í þessu sambandi hefur unnið í öldrunarþjónustunni. Það er hennar reynsla að það séu helst uppkomin börn og gamlir vinir sem setja sig upp á móti samböndum maka heilabilaðs fólks. „En manneskjan sem er með heilabilun er ekki sama persónan og þú giftist og ákvaðst að eyða lífinu með“, segir hún.
Þessi hjón hafa haldið heilsu þannig að sú stund þegar ástartryggingin á að taka gildi, er ekki enn runnin upp.