Nunnurnar gaukuðu að mér plöntum eða fræi

„Fyrir ári stóð garðurinn í þvílíkum blóma að það var ævintýralegt“, segir Guðrún Helgadóttir rithöfundur, sem auk þess að skrifa og hafa verið þingmaður og forseti Alþingis á sínum tíma, hefur mikinn áhuga á garðrækt. „Nú sér hins vegar ekki blóm á nokkurri plöntu“, segir hún og segist sakna gullregnsins mest, sem hafi orðið fegurra og fegurra með hverju árinu. Það hefur ekki blómstrað í sumar. Guðrún segist spennt að vita hvað gerist síðari hluta ágústmánaðar en ekki bóli ennþá á að fjölæri gróðurinn blómstri. „En rifsið er í fínu formi og Útlaginn blómstrar gulum blómum“, segir hún.

Fékk snemma áhuga á garðrækt

Guðrún segist hafa fengið áhuga á garðrækt þegar hún var stelpa. Þá bjó fjölskyldan, 14 manns, í pínulitlu húsi á Jófríðarstaðavegi 7 í Hafnarfirði. Húsinu fylgdi stór lóð og þar var kartöflugarður. Hjá nágrönnum sínum þeim Eyjólfi Kristjánssyni og Guðlínu Jóhannesdóttur var fallegur garður, en þangað kom Guðrún mikið. Þetta kveikti hjá henni áhugann, en einnig skipti máli að í kaþólska barnaskólanum hjá St. Jósepssystrum lærði hún ýmislegt um fegurðina. Hún fór snemma að reyna að rækta garð og fegra lóðina heima hjá sér.

Systrunum fannst þetta frábært

Garðurinn hennar Guðrúnar er eins og vin í miðbænum

Garðurinn hennar Guðrúnar er eins og vin í miðbænum

„Sumum fannst þetta fordild“, sagði Guðrún sem varð vör við að fólki fannst það mont í henni að vilja rækta garð. Hún varð eiginlega fyrir aðkasti vegna þessa. En systrunum í klaustrinu fannst þetta frábært. „Þær gaukuðu að mér plöntum eða fræi og ég sé ekki betur en sumt af þessu sé enn í garðinum“, segir hún. Hún segist alltaf síðan hafa hirt lóðir þar sem hún hafi verið. Þegar hún bjó í fjölbýlishúsi í Skaftahlíð kom hún með eyrarós ofan af öræfum og setti í garðinn. „Hún var glæsileg“, segir Guðrún. Hún segir að það hljóti að vera einhverjar skýringar á því hversu illa gangi í garðræktinni í sumar, hugsanlega sé sólarleysi eða of mikilli rigningu um að kenna.

 

 

Ritstjórn ágúst 8, 2014 13:04