Hin útvalda eftir Snæbjörn Arngrímsson er vel unnin og bráðskemmtileg sakamálasaga. Höfundur dregur upp sannfærandi og mjög flotta mynd af andrúmsloftinu í litlu þorpi úti á landi þar sem allir þekkja alla og auðvelt er snúa almenningsálitinu með eða á móti öðrum.
Haraldur Matthíasson lögreglumaður úr Reykjavík ræður sig til starfa úti á landi á vendipunkti í lífi sínu. Hann telur sig þurfa á kyrrðinni og fásinninu að halda. Fljótlega verður hann þó var við að ýmsir þungir straumar liggja undir rósemdinni í þorpinu. Þegar ungur maður finnst látinn í fjöru rétt fyrir utan þorpið reynir verulega á Harald. Hann gerir mörg mistök tengd rannsókninni en tekst að komast að réttri niðurstöðu að lokum.
Þessi bók er byggð í kringum glæp en snýst mun meira mannleg samskipti og tilfinningar fólks en morðið. Snæbirni tekst einstaklega vel að skapa trúverðugar og spennandi persónur. Lesandanum er ekki sama um þetta fólk og óskar því alls hins besta. Jafnvel þeim breyskustu meðal þorpsbúa er ekki alls varnað og hægt að harma örlög sumra. Sagan er mjög vel skrifuð og þetta er áhugaverð saga um mannlegt eðli fremur en glæp.