Húðkrabbamein getur farið leynt

Líf í köldu landi gerir það að verkum að Íslendingar eru almennt miklir sóldýrkendur og margir sjást ekki fyrir þegar sú gula tekur loks að skína eða þeir komast til heitari landa í frí. Vondur fylgifiskur notalegra sólbaða er áhrif þeirra á húðina. Í hvert sinn sem húðin brennur í sól aukast líkurnar á að menn fái húðkrabbamein margfalt.

Húðkrabbamein eru langalgengustu krabbamein um allan heim og hér á landi greinast tæplega 140 manns árlega með einhverja tegund þeirra. Grunnfrumukrabbamein, sortuæxli og flöguþekjukrabbamein eru helstu gerðir húðkrabbameina og það fyrsta nefnda algengast. Grunnfrumukrabbamein hefur þann kost að það dreifir sér yfirleitt ekki til annarra líffæra. Um það bil 90 manns greinast árlega með annað hvort grunnfrumu- eða flöguþekjukrabbamein og enginn deyr af völdum þeirra. Meðalaldur við greiningu er 75 ár. Um það bil 46 manns greinast með sortuæxli árlega og þar er meðalaldurinn mun lægri eða 52 ár. Sortuæxlin eru einnig mun hættulegri og í kringum tíu manneskjur látast árlega af völdum þessarar gerðar krabbameins.

En hvaða merkjum þurfa menn að vera vakandi fyrir og hversu oft ætti að leita til húðsjúkdómalækna til að fá úr því skorið að húðin sé heilbrigð? Það fer auðvitað fyrst og fremst eftir sögu hvers og eins. Eru húðkrabbamein þekkt í þinni fjölskyldu og hversu oft hefur þú sólbrunnið um ævina? Því hærri tölur sem felast í svörunum við þessum spurningum því meiri vara þarft viðkomandi einstaklingur að hafa á sér.

Helstu merki um sortuæxli má greina á blettum á líkamanum. Ef jaðrar þeirra eru óreglulegir, bletturinn hefur stækkað, greina má fleiri en einn lit í honum, kláði eða óþægindi eru frá honum, hefur þykknað eða breyst er ástæða til að leita læknis. Flöguþekjukrabbamein er algengast í andliti við varir eða eyru eða í hársverði. Séu þar sár sem ekki vilja gróa, rauðleit þykknun með kláða eða óþægindum, hringlaga, rauðleitur blettur með upphækkaðum brúnum eða blettur sem stækkar eða blæðir úr myndar hrúður af og til er ástæða til að láta skoða sig.

Húðkrabbamein geta farið leynt lengi og fólk misjafnlega meðvitað um húðina og það sem er að gerast á líkamanum. Ef þú hefur verið mikið í sól um ævina er sjálfsagt að biðja heimilislækninn að skoða sig með tilliti til mögulegra húðkrabbameina og benda á svæði sem ástæða er til að hafa eftirlit með.

Heimildir:

https://www.krabb.is/fraedsla-forvarnir/krabbamein-a-o/oll-krabbamein/hudkrabbamein-1

https://www.decode.is/hudkrabbamein/

Ritstjórn desember 20, 2023 07:00