„Þegar stórkostlegar sálir deyja og raunveruleiki okkar bundinn þeim hverfur.“ segir í kvæði Mayu Angelou, When Great Trees Fall. Og einhvern veginn þannig er það. Okkur er sjaldnast ljóst fyrr en eftir á hversu mikil áhrif tiltekin hæfileikamanneskja hafði á samtíð sína. Auður Haralds var ein slíkra og nú eru margir önnum kafnir við að rifja upp bækur hennar.
Auður var einstaklega orðhög og orðheppin. Hún hafði lag á að koma sífellt á óvart með frumlegum lýsingum og kaldhæðnin var bæði fyndin og nístandi. Þegar fyrsta bók hennar Hvunndagshetjan kom út árið 1979 var strax ljóst að þarna fór höfundur sem þoldi enga hræsni og yfirdrepsskap, var með báða fætur á jörðinni og lét engan eiga neitt hjá sér. Vissulega var stíll hennar ýktur og hjá þeim sem ekki kunnu að gera greinarmun á sannleika og skáldskap þótti hún yfirgengileg. En Auður var hvort sem er ekki að skrifa fyrir þá.
Auður Haralds fæddist í Reykjavík þann 11. desember 1947. Í Hvunndagshetjunni lýsir hún frábærlega uppvaxtar- og unglingsárum sínum, þegar allar stúlkur túperuðu hárið og gengu um í knallstuttum pilsum, bláar af kulda á fótunum með króníska blöðrubólgu. Þess var vænst að þær myndu allar giftast, eiga börn og buru og gera sinn mann glaðan. Líf Auðar var hins vegar ekki þannig, enda undirtitill Hvunndagshetjunnar, þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn. Einstæð móðir með þrjú börn á framfæri þarf að vera útsjónarsöm, frumleg og hugmyndarík til að ná endum saman. Þessa kosti átti Auður í ríkum mæli. Hún starfaði sem blaðamaður, þýðandi, útvarpskona og pistlahöfundur, vann í verslun, á skrifstofu og hvað annað sem bauðst.
Ýmsum körlum sveið háðið
Þegar heimilisofbeldi var enn einkamál og eitthvað sem bara átti sér stað hjá vandræðafólki opnaði hún umræðuna og skoraði fordómana á hólm. Mörgum körlum sveið undan háðinu og þótti allnærri sér hoggið í mörgum lýsinganna. Auður var auðvitað talin karlhatari, eins aðrar konur sem gera þá kröfu að karlmenn beiti ekki ofbeldi, séu skemmtilegir í viðkynningu og umhyggjusamir á heimili. Í Læknamafíunni réðst hún heldur ekki á garðinn þar sem hann er lægstur heldur tók að sér að velta guðunum af Ólympstindi sínum á Landspítalanum. Hrokinn, forræðishyggjan og skorturinn á nærgætni meðal heilbrigðisstétta var hér tíunduð og dregin sundur og saman í háði. Undirtitill þeirra bókar var, lítil pen bók en Læknamafían var hvorki lítil né pen svo mikil áhrif hafði hún. Auður var aldrei feimin við að skora valdakerfi á hólm, ögra vanahugsun og benda á óréttlætið.
Þá kom Hlustið þér á Mozart? árið 1982. Skemmtileg írónía um innantómt líf heimavinnandi húsmóður sem gerir sér grein fyrir að hún muni aldrei aka í gegnum París í sportbíl með hlýjan vindinn leikandi í hárinu. Þess í stað les rómantískar, formúluástarsögur og lætur sig dreyma um að drepa eiginmann sinn. Í Ung há feig og ljóshærð var þeirri bókmenntategund svo gerð óborganleg skil.
Næst tóku við barnabækur fyrst um Elías sem var líka persóna í Stundinni okkar og unglingabókin Baneitrað samband á Njálsgötunni skrifaði hún með Valdísi Óskarsdóttur. Leikgerð var gerð eftir þeirri bók en eftir hana kom langt hlé á rithöfundarferlinum. Auður sagði nýlega frá því í viðtölum að það hafi verið vegna stöðugs áreitis nótt sem nýtan dag bæði í gegnum síma og ef hún hætti sér út að skemmta sér. En rödd Auðar hljóðnaði ekki algerlega. Hún bjó um tíma á Ítalíu og flutti þaðan frábæra pistla á RÚV. Þar var muninum á Ítölum og Íslendingum vel lýst og ítölsku samfélagi.
Drottinn og allt hans droll
Árið 2007 kom út Litla, rauðhærða stúlkan, barnabók myndlýst af Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur. Árið 2022 kom svo síðasta skáldsaga hennar, Hvað er Drottinn að drolla? Sagan var byggð á framhaldssögu af vefritinu skrik.is en Auður sá skyldleika við tímana og erindi sögunnar í nýju ljósi þegar COVID-faraldurinn gekk yfir heimsbyggðina. Þetta er bráðskemmtileg saga um konu sem fyrirvaralaust er hrifsuð úr nútímanum og aftur til fjórtándu aldar eftir að hún sofnar út frá bók um svarta dauða. Guðbjörg er venjuleg skrifstofukona í Reykjavík en reynist bara nokkuð snjöll að bjarga sér við ansi tvísýnar aðstæður á Englandi. Hún reynist einstaklega útsjónarsöm að forða sér bæði undan plágunni sem tekin er að breiðast út og óvægnum hugmyndum samfélagsins um stöðu kvenna.
Auður var aldrei efnuð en átti íbúð á Bergþórugötu. Fyrir nokkrum árum ákvað hún að selja hana og flytja í íbúð á einni hæð. Þegar hún var nýflutt þangað fyrir nokkrum árum kviknaði í og hún náði naumlega að forða sér út. Hún brenndist tölvuvert á fótum og var lengi að jafna sig. Í brunanum missti hún meðal annars allar bækurnar sínar, ljósmyndir og minningar. Auður eignaðist fjögur börn, Ösp, Símon, Daníel og Söru Maríu. Sara María lést árið 2019. Þrjú elstu börn hennar lifa hana og þrjú barnabörn. Auk þess skilur hún eftir sig arf sem íslenskir lesendur eiga án efa eftir að skemmta sér yfir lengi enn og það væri sannarlega fengur í að fá bækur hennar endurútgefnar því fæstar þeirra eru fáanlegar lengur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.