Gísli Magna Sigríðarson er einn af þeim sem hefur ítrekað sýnt fram á ævintýrið sem á sér stað þegar raddir hljóma saman enda trúir hann því að í mannsröddinni felist mögnuð fegurð. Hann er sjálfur menntaður söngvari og söngkennari. Hann hefur um árabil útsett tónlist, stjórnað kórum á Íslandi og erlendis, unnið með helstu tónlistarmönnum á Ísland,
sungið bakraddir inn á fjölda platna og farið nokkrum sinnum í Eurovision, en sjaldan verið í framlínunni á sviði sjálfur. ,,Þess vegna vita ekki margir hver ég er,“ segir Gísli og skellihlær. Það er stutt í kátínuna hjá þessum lífsglaða manni enda smitar hann gleði þar sem hann er. Um hann segja kórmeðlimir: ,,Gísli er gleðigjafi og ástríðufullur kórstjóri sem hreyfir bæði við áheyrendum og flytjendum.“
Mælirinn fylltist
Það kom samt að því að mælirinn hjá Gísla fylltist þegar hann var búinn að vera ,,pepparinn“, bæði i kennslu og í kórstjórn í langan tíma, sérstaklega eftir Covid tímabilið, sem var mjög krefjandi og þá ákvað hann að minnka við sig vinnu. ,,Ég sleppti kennslunni tímabundið því ég fann að batteríin mín voru að klárast. Mér fannst ekki heiðarlegt af mér að halda áfram að kenna án þess að vera 100% „all in“. Ég hef alltaf haft mikla ánægju af því að kenna og ég veit að ég mun snúa aftur til kennslu síðar.“
Settist í Listaháskólann
Fyrirsögnin á lokaverkefni Gísla frá Listaháskólanum var ,,Undrið að vera í kór“ og við kjósum að láta þetta viðtal bera sömu fyrirsögn. Hún fangar svo vel starfið sem Gísli hefur gefið allt sitt í hátt á annan áratug. Hann stýrir nú Léttsveit Reykjavíkur en í honum eru nú um 100 konur. Þær eru á aldrinum 30 til 85 ára og eiga það sameiginlegt að njóta samverunnar þar sem frábær stjórnandi leggur metnað í lagaval og útsetur lögin á meistaralegan hátt.
Fyrsti stjórnandi Léttsveitarinnar var Jóhanna Þórhallsdóttir en Gísli tók við af henni og með Jóhönnu var Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari. Með Gísla á píanó er Arnhildur Valgarðsdóttir en hún gekk til liðs við kórinn 2023 og segir Gísli hana vera mikinn feng. ,,Fyrir utan að vera góður píanóleikari er hún svo skemmtileg og fellur vel inn í frábæran hóp Léttsveitarinnar og alltaf til í að flippa með mér,“ segir hann hlæjandi.
Kórar þriðja aldursskeiðsins
,,Nú er fólk við miklu betri heilsu en áður og getur þess vegna sungið langt fram eftir aldri,“ segir Gísli. ,,Það eru til eldri borgara kórar en nú eru að verða til kórar þar sem þriðja kynslóðin, þ.e. 60+ fólkið, kemur saman og nýtur þess að syngja. Þetta er fólk sem hefur enn oft góða heilsu og margir með mjög góðar raddir. Sumir eru hættir að vinna og geta þess vegna mætt á æfingar á daginn. Fólk er ekki endilega í golfi allt árið og þegar frítími eykst er fátt skemmtilegra en að koma saman og syngja. Ég er viss um að það á eftir að verða söngsprenging meðal þessa hóps. Ég veit til dæmis um marga sem fer inn á youtube.com og finnur þar endalausar æfingar því margir vilja æfa sig áður en þeir sækja um í kór,“ segir Gísli og brosir.
Afi Gísla samdi Síldarvalsinn
Gísli er frá Patreksfirði en flutti fimm ára gamall til Reykjavíkur með foreldrum sínum og bræðrum. Foreldrar þeirra voru bæði í hljómsveitum, móðir hans söng og faðir hans spilaði á píanó. Tónlistin var því snemma alltumvefjandi og Gísli leitaði snemma í sönginn. Hann var unglingur þegar hann var beðinn um að koma í sinn fyrsta kór sem var kirkjukór í Breiðholti þar sem þau bjuggu. Hann fór síðar í kór Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar. Svo var Gísli í menntaskólakórum en endaði með því að fylgja móður sinni til Sauðárkróks og lauk stúdentsprófinu þaðan og leitaði auðvitað í leikfélagið þar sem hann kynntist skemmtilegu fólki.
Afi Gísla var Steingrímur M. Sigfússon en hann samdi meðal annars Síldarvalsinn sem margir Íslendingar þekkja mæta vel. Gísli gaf út disk 2020 með lögum afa síns og nefndi hann ,,Nóttin og þú“. Diskurinn fangar íslenska stemmningu sjötta áratugarins mjög vel og Gísli útsetti og söng öll lögin á diskinum sjálfur. Hann fylgdi diskinum eftir með tónleikum á Íslandi og fór einnig í tónleikaferð til Þýskaland tvö ár í röð. Þar túraði hann með þýskum og íslenskum tónlistarmönnum og vakti tónlistin mikla hrifningu hjá Þjóðverjunum hvort sem það var í Berlín, Cuxhaven, austurhluta Þýskalands eða í sjálfum Rínardalnum. „Steingrímur afi átti þá eina ósk að tónlistin hans myndi heyrast. Hann snéri sér örugglega nokkrum sinnum við í gröfinni vitandi af henni í Þýskalandi“, segir Gísli og hlær.
Tónlistarnámið varð ofan á
Gísli var fyrst í Söngskólanum meðal annars hjá Ólöfu Kolbrúnu en klassíski söngurinn kitlaði hann aldrei mikið, nema þó í kórsöng. Gísli fór
síðan í tónmenntakennaradeildina í Tónlistarskólanum í Reykjavík en þá var orðið svo mikið að gera hjá honum því við tók tími þar sem hann tók þátt í söngleikjum í Borgarleikhúsinu og söng í sýningum á Broadway undir stjórn Gunnars Þórðarson allar helgar, fyrir utan minni söngviðburði. Hann var enn að finna út hvaða svið í tónlistarheiminum hann ætlaði að leggja fyrir sig á þessum tíma en stundum taka örlögin í taumana.
Jólaplata Siggu Beinteins olli straumhvörfum
Gísli segir að fyrsta launaða ,,giggið“ hans hafi verið þegar Sigga Beinteins réði hann og fleiri úr Kór Langholtskirkju til að syngja bakraddir á jólaplötu sinni þegar hann var 21 árs eða 1992. ,,Á þessum tíma var ekki sjálfgefið að fá vinnu eins og þessa og þarna byrjaði ferillinn minn í rauninni,“ segir Gísli. ,,Síðan þá, eða í 30 ár, hef ég verið að syngja í kórum og sönghópum sjálfur, stjórna kórum og útsetja og syngja bakraddir. Ég var einn af stofnfélögum Schola cantorum undir stjórn Harðar Áskelssonar sem var alveg æðislega skemmtilegt. Ég ólst auðvitað upp við að hlusta á ABBA, Fleetwood Mac, Eurythmics of fleiri og hef alltaf heillast af þess konar tónlist. Ég fell í stafi þegar fallegar raddir hljóma saman og nýt þess svo innilega að láta raddir kvennanna minna í Léttsveitinni hljóma. Við fáum alltaf gestasöngvara með okkur á stórum tónleikum og á vortónleikunum okkar núna var það til dæmis Páll Óskar, Kristjana Stefáns um jólin og Sigga Beinteins í fyrravor.“
Lokaverkefnið
Gísli ákvað að fara í tónlistardeild Listaháskólans í meistaranám sem kallast Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf. Lokaverkefni hans fjallaði um hvað það gerir fyrir fólk að syngja í kór. ,,Ég vildi kynna fyrir fólki hvað samsöngur gerir fyrir fólk og skoða hvað annað en að syngja fólk græðir á því að vera í kór,“ segir Gísli. ,,Ég skrifaði meistararitgerð og setti upp viðburð í Háteigskirkju sem var einhvers konar ferðalag í gegnum þetta fyrirbæri sem er undrið að syngja í kór.
Þegar komið var inn í fyrsta rýmið heyrðu gestir söngæfingar kvennanna í hátalarakerfi og skvaldur í sal þar sem uppstillingin var eins og fram færi kóræfing og þar sem kom fram þetta iðandi líf sem er alltaf þar sem fólk kemur saman að syngja. Annars staðar var veggur þakinn ljósmyndum úr kórastarfinu. Á löngum glerjuðum gangi milli safnaðarheimilisins og kirkjunnar voru sjónvarpsskjáir þar sem ég spilaði viðtöl sem ég tók við nokkra kórfélaga á sjónvarpsskjám um hvað þátttaka í kór gerði fyrir þær og inni í kirkjunni var svo kórinn uppi á kirkjulofti að syngja með mér á píanóinu. Þegar gestir gengu út úr kirkjunni var spilað skvaldur í hljóðkerfi sem ég hafði tekið upp af konunum og gestum okkar eftir tónleika því þá eru allir svo upptendraðir og glaðir. Þetta svínvirkaði og gestirnir voru himinglaðir með þetta ferðalag.“
Að anda í takti
,,Tilgangurinn með lokaverkefni mínu í Listaháskólsnum var að fanga þessa tilfinningu sem er að vera hluti af hópi sem hefur gaman af að syngja saman,“ segir Gísli. ,,Það er þessi vissa að aðrir stóli á að þú sért að gera gagn sem hluti af heild. Það er enginn í kór nema sá sem hefur gaman af að syngja og það sem verið er að syngja er í raun aukaatriði þótt vissulega sé betra að það sé skemmtileg tónlist,“ segir Gísli og hlær. ,,Það anda allir saman og mynda hljóm sem harmonerar með öðrum röddum. Það er tilfinningin þegar allt gengur upp og söngvarar upplifa sig vera hluta af ,,fegurðinni“ sem er svo góð. Það sama upplifir fólk í hljómsveitum með hljóðfærunum sínum og í kórum eru það raddirnar sem þurfa að hljóma saman og það er svo fallegt.
Og svo er það allt hitt líka sem er svo gott. Lífið er nefnilega allskonar og það er svo gaman að sjá kórfélaga koma, mismunandi hressa á æfingu og að henni lokinni fara allir slakir og glaðir heim.“
Samfélag sem tekur þátt í gleði- og sorgarstundum
,,Allir kórfélagar taka þátt bæði í gleði- og sorgarstundum félaga sinna og það er ekki lítils virði,“ segir Gísli. ,,Það er ekki aldurstakmark inn í kórinn okkar en í honum eru félagar á aldursbilinu 30 til 86 ára. Okkur hefur tekist að yngja hópinn því ef við gerum það ekki er hætta á að hann lognist út af þegar margir hætta á sama tíma.“
Líkamleg heilsa og söngur
Gísli er í stjórn FÍK, Félag íslenskra kórstjóra, en í því félagi eru um 130 kórstjórar sem þýðir að í landinu eru minnst 130 kórar og fer fjölgandi. ,,Við höfum verið að rífa starf félagsins upp sem er mjög skemmtilegt og erum til dæmis í samstarfi við Hörpu með kórsöng í Hörpuhorninu. Við höfum verið að tala mikið um breytinguna sem á sér stað meðal kórfélaga því nú er fólk svo miklu hressara lengur en forfeður okkar voru. Nú er því hægt að setja saman kór með flottum röddum þótt fólk sé komið á efri ár því auðvitað skiptir líkamleg heilsa máli þegar kemur að söng.“
Fegurðin í hljómnum
Þegar Gísli ákvað að minnka við sig vinnu ákvað hann að taka að sér vinnu sem var ekki tónlistartengd. Þá tók hann að sér að sjá um bókhald og fjármál fyrir lítið fyrirtæki og er að ná sér í meiri þekkingu í því fagi. ,,Mig vantaði eitthvað allt annað til að vinna við með tónlistinni,“ segir Gísli. ,,Bókhaldsvinnan er mjög fyrirsjáanleg og stöðug á meðan ég hef þurft svo mikið að peppa aðra í tónlistinni, bæði í kennslu og kórstjórninni. Fyrir mig er bókhaldsvinnan nokkurs konar hvíld. Svo nú einbeiti ég mér að kórstjórninni og hvíli hugann við að sinna bókhaldi eins skrýtið og það hljómar,“ segir Gísli. ,,En það ,,hljómar“ samt bara nokkuð fallega,“ bætir hann við og brosir.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.