Ástarsaga á Ítalíu

Elsa Waage, söngkona og söngkennari, hefur lært að njóta dagsins í dag því hvað morgundagurinn ber í skauti sér veit enginn. Hún er kjarkmikil og lífsglöð, eiginleikar sem hún fékk í vöggugjöf og hafa reynst henni vel. Elsa lærði ung á fiðlu og þótti mjög efnileg en hugur hennar stóð til að verða hjúkrunarfræðingur og láta gott af sér leiða. En lífið tók aðra stefnu. Elsa hefur hlotið viðurkenningu fyrir söng sinn og ávallt fengið mjög góða dóma fyrir túlkun. Hún varð ekkja fimmtug og stóð uppi ein með dóttur á táningsaldri fjarri heimalandinu.

Elsa ólst upp í Garðabæ og lærði á fiðlu. „Ég var hjá þremur frábærum kennurum á fimm árum sem kannski skemmdi svolítið fyrir mér því hver þeirra hafði sína aðferð og ég var alltaf að læra eitthvað nýtt. Á táningsaldri fannst mér meira gaman að gera eitthvað allt annað en að saga fiðluna,“ segir Elsa og hlær, „því miður, eftir að hafa fengið þessa flottu fiðlu frá foreldrum mínum frá fiðluleikara í Concertgebow-hljómsveitinni. Það var mikið mál að ég skildi hætta, ég þótti víst mjög efnileg og Guðmundur Norðdal tónlistarkennari kom að tali við foreldra mína en ég var táningur og staðráðin í því að nenna þessu ekki.“

Söngurinn valdi mig

Elsa fór í Kvennaskólann, var í KFUM og -K og KSS og þar byrjuðu nokkrar vinkonur að syngja saman. „Ég fór svo í MH og um sumarið fór ég til Þýskalands að læra þýsku. Áður en ég fór tók ég nokkra söngtíma og þegar ég kom til baka langaði mig að halda áfram. Ég fór til Elísabetar Erlings og hún hvatti mig mikið. Ég segi alltaf: ég valdi ekki sönginn, hann valdi mig, því eftir þetta hafði ég ekkert um þetta að segja,“ segir Elsa og hlær. „Ég reyndar sá þetta sem áhugamál, því mig langaði alltaf í hjúkrun, það var draumur að vinna fyrir Rauða krossinn, ég vildi gera gagn og hafði neista til að fara í þessa átt.“

Þetta var ekki það eina sem hugur Elsu stóð til. Hún er mikill leikari og grallari sem hefur m.a. komið í ljós í söngnum. „Ég var í leiklist í MH og fór til Helga Skúlasonar leikara. En svo fór ég á masterclass hjá söngkonunni Elly Ameling. Jón Þorsteinsson söngvari var þar, tók mig á eintal og sagði: „Elsa, þú ert ekki að gera rétt, þú verður að komast í almennilegt nám með þessa flottu rödd. Þú hefur allt til að bera.“ Þarna var eins og ég væri slegin utan undir. Ég var í of mörgu og ekki að sinna söngnum eins og þurfti. Ég varð því að hugsa hvað ég vildi gera. Ég fann að söngurinn var svo sterkur í mér þannig að ég fór eftir stúdentspróf til Dixie Ross Neill í Amsterdam, var í einkatímum, fékk að fylgjast með öðrum og kynntist frábæru söngfólki. Mér fannst þeir sem höfðu menntast í Bandaríkjunum vera með góða tækni og vel að sér, svo ég ákvað að fara þangað í nám. Ég fór til Catholic University of America í Wasinghton DC til til Marylin Cotlow sem hafði verið stórstjarna í Metropolitian-óperunni, kenndi m.a. stórsöngkonunni Alessandra Marc sem ég kynntist vel. Ég söng sópran en ég fann mig ekki í háu nótunum þannig að ég fór að stelast í tíma til Helgu Bullock, móður Söndru Bullock leikkonu. Ég kláraði námið en hafði þá kynnst sendiherrafrúnni Ástríði Andersen. Hún hafði mikla ástríðu fyrir tónlist, mætti á alla tónleika hjá mér, studdi mig og hafði óbilandi trú á mér. Sendiherrahjónin fluttu til New York og þar kynnist Ástríður Hreini Líndal sem var að læra hjá Michael Trimble. Ástríður vildi endilega að ég færi til hans sem ég gerði. Hann vakti upp mína sönnu rödd og þarna fékk ég að njóta mín. Michael setti upp óperur í konsertformi, ég lærði hlutverk, hélt tónleika til að æfa mig í að koma fram og vann samhliða við hitt og þetta, keyrði limósínur, vann hjá fasteignasölu sem seldi fyrir stjörnur eins og Bruce Willis og Harrisson Ford. Þetta var voða gaman. Ég fékk American Accociation Award og þurfti að halda tónleika sem voru haldnir í Dag Hammerskjöld Auditorium Sameinuðu þjóðanna og þar fékk ég Sibeliusar-orðuna fyrir flutning á Svarta Rosor. Eftir þetta fékk ég mitt fyrsta hlutverk og fleiri fylgdu í kjölfarið.“

Örlagaferð til Ítalíu 

Elsa hafði lært ítölsku og vildi tala hana vel. Hún ákvað að fara í mánaðarnám til Siena árið 1993, flaug til Mílanó og gisti eina nótt. Það reyndist örlagaríkt.

„Þetta kvöld hitti ég manninn minn,“ segir Elsa og hlær. „Ég ætlaði ekki að gista en var með töskuna á gangi allan daginn, vildi komast í sturtu og ákvað að fara á hótel. Þetta var í júlí og funheitt. Ég var búin að fá nokkur flaut yfir daginn og orðin hundleið á því. Ég settist á veitingahús þar sem var algjört næði.

Þá sé ég mann í fjarska, stóran og myndarlegan og hann horfir á mig. Svo sest hann við borðið við hliðina á mér og segir: „Það er óttalega dapurt að vera bara tvö og sitja við sitthvort borðið.“

Hann settist hjá mér og þannig hófst sú saga sem varði þar til hann lést, 2009. Hann hét Emilio de Rossi og keyrði næstu helgar til Siena frá Mílanó. Það var yndislegt að vera svona elskuð og smám saman gat ég ekki hugsað mér lífið án hans. Ég fór út, við giftumst og eignuðumst dóttur, Juliu. Emilio var viðskiptafræðingur og umbúðahönnuður, hafði unnið til verðlauna, var umboðsmaður fyrir endurunninn pappír og vann fyrir alþjóðafyrirtæki, þannig að hann gat stjórnað sínum tíma og var heima hjá Juliu þegar ég söng. Hann var mikill existensíalisti, lifandi og kom mér oft á óvart með litlum hlutum.

Mér leið óskaplega vel á Ítalíu, við fluttum í fallega villu rétt fyri utan Como en Emilio veiktist af sjálfsofnæmissjúkdómi sem jókst og þurfti að taka töluvert af lyfjum í níu ár. Þetta tók mjög á og af því að hann var sjálfstæður í starfi fór þetta illa fjárhagslega. Ég átti að syngja í Cavaleria Rusticana hér ári áður en hann lést en hann lenti á gjörgæslu þegar æfingar hófust þannig að ég treysti mér ekki í verkefnið.

Emilio var mikill nagli og stóð alltaf upp úr veikindunum og þó að ég vissi hversu alvarleg þau voru fannst mér að hann gæti sigrað þau, hann hafði svo mikinn lífs- og baráttuvilja.“

Elsa var fimmtug þegar Emilio dó. Hún var í tvö ár úti eftir lát hans. „Ég var hvorki í andlegu ástandi né fjárhagslega tilbúin að vera þarna og ákvað að koma heim, líka til að leyfa Júlíu að upplifa að búa hér. Hún var á viðkvæmum aldri, 13 ára, fór svo í Menntaskólann við Hamrahlíð en það hentaði henni ekki að vera hér.

Hún er opin en hér var allt ólíkt því sem var úti þannig að hún fór aftur út en ég var eftir. Ég fór að kenna söng í Fjölmennt, fékk fljótlega hlutverk í Il Trovatore í Óperunni, og seinna í Ragnheiði, söng við athafnir, á tónleikum o.fl. Ég leiðsegi reglulega í Hörpu og ákvað að gefa tóndæmi til að leyfa fólki að heyra hljómburðinn þannig að það hefur engin kona sungið eins oft í Hörpu og ég,“ segir Elsa og hlær. „Ég stofnaði Óperuakademíu unga fólksins ásamt fleirum. Hún var starfrækt í fimm ár í Hörpu en fékk síðan ekki nægan styrk til að halda áfram sem var mjög miður þar sem engin slík sumarakademía hefur verið starfrækt, hvorki fyrr né síðar.

Svo kom Covid. Störfin minnkuðu og ýmislegt sem var í farvatninu lagðist af. Ég gat ekki lengur verið í lausu lofti, fór að starfa í apóteki til að fá föst laun og kenni við Söngskóla Sigurðar Demetz og einhver söngur er inn á milli.“

Stærsta hrósið að fólk verði fyrir hughrifum

Elsa hefur stóra og volduga altrödd enda segir hún Wagner henta sér vel.

„Það er líka gaman að syngja ítölsku og frönsku söngbókmenntirnar. Lied von der Erde eftir Mahler er líka eitt af mínu uppáhalds, þar segir m.a. frá því þegar vinir kveðjast. Ég söng það í Klagenfurt og hef aldrei fengið jafnflotta dóma. Skömmu fyrir flutninginn fékk pabbi heilablóðfall í Düsseldorf. Hann átti náinn vin sem heimsótti hann. Pabbi var mikill trúmaður en hinn trúlaus en þeir gátu talað um hlutina algjörlega á réttum forsendum sem sagði mikið um þá báða. Fyrir tónleikana var ég hjá pabba en ég gat ekki sungið því ég grét og grét og fannst að það væri steinn fyrir. Á generalprufunni gerðist eitthvað og ljóðin í tónlistinni kölluðu þessa dýrmætu vináttu fram. Það var eins og ég væri búin að hreinsa eitthvað, ég skildi ljóðin vitrænt og tilfinningalega og gat gefið allt frá mér. Sorgin, áhyggjurnar og væntumþykjan fór í gegnum mig og til áheyrenda. Ég hef aldrei upplifað svona mikil tengsl í söng. Eftir þetta hugsaði ég; allt sem ég syng verð ég að upplifa á einhvern hátt, annars get ég ekki gefið af mér. Ég er bara verkfæri til að miðla. Það var stórkostlegt að upplifa þetta á eigin skinni svona skýrt. Ég var hætt að gráta en gat leyft áheyrendum að gera það. Þetta var mikill skóli,“ segir Elsa. „Maður sagði við mig eitt sinn: Þegar ég kem á tónleikana þína verð ég ástfanginn, ekki af þér, bara ástfanginn. Ég er lokaður og ferkantaður verkfræðingur, þú opnar munninn og ég fer að gráta, meira segja þegar þú syngur skemmtileg lög,“ segir Elsa og skellir upp úr. Þetta er stærsta hrós sem ég hef nokkurn tíma fengið. Ég er að þjóna tón- og ljóðskáldum ef fólk verður fyrir miklum hughrifum. Þetta gerist í klassísku tónlistinni og grátur tilheyrir bæði gleði og sorg.“

Lífið er núna

Elsa vaknar glöð til hvers dags. „Fólk í kringum mig á mínum aldri er í golfi og veltir fyrir sér árunum fram undan en ég er ekki komin þangað, ég held alltaf að eitthvað rosa skemmtilegt gerist á morgun sem færi mér ný ævintýri,“ segir hún hlæjandi. „Lífið er núna og ég er hamingjusamlega einhleyp. Ég fer mikið í göngutúra og syndi, hef gaman af góðum kvikmyndum og langar að læra ljósmyndun. Mig hefur líka langað að setja upp kabarett, eða gamaldags revíu, með þátttöku allrar flóru leikhússins,“ segir Elsa og blaðamaður sér strax fyrir sér sýningu þar sem rödd, leikhæfileikar og glæsileiki Elsu muni njóta sín.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn apríl 29, 2024 07:00